JR með 10 gull á Haustmóti yngri 2020

Haustmóti JSÍ í yngri aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs) fór fram í gær laugardaginn 3. október. Þátttakendur voru þrjátíu og fjórir frá fjórum klúbbum auk þess sem einn keppti undir merkjum JSÍ. Judofélag Reykjavíkur sendi tuttugu og tvo keppendur sem stóðu sig vel og uppskáru tíu gullverðlaun, átta silfur og tvenn bronsverðlaun. Margir okkar keppenda voru að keppa í fyrsta skipti og stóðu sig frábærlega en aðrir komnir með töluverða keppnisreynslu. Sjá mátti margar flottar viðureignir, sumar jafnar og spennandi en aðrar enduðu með öruggum sigri og jafnvel óvæntum. Sem betur fer er slysatíðni lág í judo en það kemur þó fyrir að einhver meiðist en Andri Fannar sem keppti í sameinuðum flokki -90/-100 kg lenti illa á öxl snemma í fyrstu viðureign og varð að hætta keppni en hann verður vonandi mættur aftur til leiks fljótlega.

Vegna Covid takmarkana voru engir áhorfendur leyfðir og voru skilaboðum um það komið á framfæri til iðkenda og í gegnum facebook og heimasíðu félagsins en auðvitað eins og gengur komust þau ekki til skila til allra. JSÍ ætlaði að að streyma beint frá mótinu þar sem áhorfendur voru ekki leyfðir en því miður gekk það ekki eftir vegna netvandamála. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður og skilyrða vegna covid reglna tókst mótið með ágætum.

Hér  eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum. Fleiri myndir og einnig video munu birtast á judo.is og facebook næstu daga.

Daron Hancock skorar ippon með flottu Osoto-gari í U15-66 kg flokki