Sveinbjörn komst í 16 manna úrslit

Þá eru tveir af þremur keppnisdögum lokið á Tbilisi Grand Slam 2021Sveinbjörn Iura keppti í dag og mætti Theodoros Demourtsidis frá Grikklandi í þrjátíu og tveggja manna útslætti. Þetta var hörkuviðureign og spennandi þar sem ekkert var gefið eftir. Eftir venjulegan glímutíma hafði hvorugur skorað en Sveinbjörn hafði verið öllu sterkari og var Theodoros kominn með tvö rerfsistig en Sveinbjörn ekkert. Glíman fór því í gullskor og sigraði Sveinbjörn örugglega með fastataki eftir rúmar tvær mínútur og þar með kominn í sextán manna úrslit. Þar mætti hann Sami Chouchi frá Belgíu sem er í 19. sæti heimslistans en varð að lúta í lægra haldi fyrir honum þegar glíman var umþað bil hálfnuð og lauk þar með keppni á mótinu en Sami gerði sér lítið fyrir og fór alla leið í úrslitin og stóð uppi sem sigurvegari í lok dagsins. Þessi góði árangur Sveinbjörns í dag gefur honum 160 punkta og færist hann því að öllum líkindum upp um tíu sæti á heimslistanum og gæti þá verið í kringum 64 sæti en nýr listi verður birtur á mánudaginn. Hér neðar er videoklippa þegar Sveinbjörn kastar Grikkjanum og fer beint í fastatak í framhaldi af því. Hér má sjá báðar glímurnar hans Sveinbjörns og öll úrslit mótsins.

Brot úr fyrri glímu Sveinbjörns á Tblisi Grand Slam 2021

Sveinbjörn keppir á Tbilisi Grand Slam

Tbilisi Grand Slam 2021 hófst í dag 26. mars og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 464 frá 5 heimsálfum og 80 þjóðum, 253 karlar og 211 konur.  Sveinbjörn Iura sem er í 72 sæti heimslistans er á meðal þátttakenda og er Yoshihiko Iura faðir hans honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á morgun laugardag í 81 kg flokki en það er næst fjölmennasti flokkurinn á mótinu og eru keppendur þar fjörtíu og þrír. Mótið hefst kl. 6:00 í fyrramálið á okkar tíma og á Sveinbjörn tuttugustu viðureign á velli 1. svo hún væri þá um kl. 7:30. Dregið var í gær og mætir Sveinbjörn keppanda frá Grikklandi, Theodoros Demourtsidis sem er í 419. sæti heimslistans. Þó svo að Sveinbjörn sé ofar á heimslistanum þá er Theodoros sýnd veiði en ekki gefinn. Þetta er ungur keppandi en mjög öflugur og sigraði hann t.d. Svíann Robin Pacek á Evrópumeistarmótinu í Prag í fyrra en Robin er í 26 sæti listans. Mótið er í beinni útsendingu og til að horfa á hana þarf að hafa (IJF account) og er hann frír og notast aftur og aftur. Hér er keppnisröðin og drátturinn í öllum flokkum.

Æfingahlé til 15. apríl vegna Covid-19

Íþróttastarf verður óheimilt um allt land næstu 3 vikurnar eða til 15. apríl samkvæmt nýjum sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á miðnætti í kvöld. Það verða því engar æfingar hjá JR næstu vikurnar en nánar hér neðar.

Hertar takmarkanir á samkomubanni vegna Covid-19

Vegna hópsýkinga og fjölgunar á Covid-19 smitum í samfélaginu þá hafa stjórnvöld gripið til hertra sóttvarnaaðgerða.
Hópsýkingarnar eru allar af völdum breska afbrigðis kórónaveirunnar sem er mun meira smitandi en flest önnur afbrigði og veldur frekar alvarlegum veikindum. Sóttvarnalæknir leggur áherslu á að hertar aðgerðir taki nú til barna allt frá grunnskólaaldri þar sem sýnt þykir að breska afbrigðið veldur meiri einkennum hjá eldri börnum en önnur afbrigði veirunnar.

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tekur gildi á miðnætti og mun gilda í þrjár vikur eða til 15. apríl.  Helstu þættir sem varða íþróttastarfið eru eftirfarandi:

Nándarregla verður áfram tveir metrar og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir. Börn í leikskólum eru undanþegin tveggja metra reglunni og fjöldatakmörkunum.

  • Almennar fjöldatakmarkanir miðast við 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
  • Sund- og baðstaðir verða lokaðir.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar verða lokaðar.
  • Íþróttir barna og fullorðinna, þar með taldar æfingar og keppni innan- eða utandyra, sem krefjast meiri nálægðar en tveggja metra á milli einstaklinga eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.  

Sjá nánar reglugerð heilbrigðisráðuneytis:

Reglugerð heilbrigðisráðuneytis sem gildir frá 25. mars 2021

Vormót seniora 2021 – Úrslit

Vormót JSÍ í karla og kvenna flokkum var haldið í dag og fór það fram í æfingasal JR. Nokkuð var um veikindi og fækkaði því keppendum þó nokkuð á síðustu stundu en keppendur voru frá Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild ÍR, Judofélagi Reykjavíkur, Judodeild Selfoss og Judodeild Tindastóls. Mótið sem var skemmtilegt með fullt af flottum og spennandi viðureignum og glæsilegum köstum hófst kl. 13 og lauk um kl. 15. Hér eru videoklippur frá mótinu, fyrri hluti og seinni hluti og hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum og fleiri myndir frá mótinu og hér eru svo úrslitin.

Yfir 30 börn tóku sitt fyrsta beltapróf

Fimmtudaginn 11. mars s.l. var fyrsta beltapróf ársins fyrir yngstu iðkendur JR en aldursflokkurinn 4-10 ára tók þá sitt fyrsta beltapróf og voru margir þar að fá sína fyrstu strípu. Yfir þrjátíu börn tóku þátt að þessu sinni og stóðu þau sig öll með sóma.

Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Litirnir á strípunum segja til um aldur judoka og fjöldi strípa segja til um hve lengi hann hefur æft en það er gefin ein strípa fyrir hverja önn og eru annirnar tvær á ári. Hér er má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri.

Hér er mynd af börnunum og linkur á stutt mynband að loknu prófi.

Bergur og Egill komnir með 3. dan

Bergur Pálsson og Egill Blöndal úr Judodeild Selfoss tóku 3. dan próf í kvöld og gerðu það með glæsibrag. Bergur tók 2. dan árið 2012 eða fyrir níu árum og Egill 2017. Til hamingju með áfangann.

Egill Blöndal og Bergur Pálsson að loknu gráðuprófi í 3. dan

Úrslit Vormóts yngri 2021

Þá er vel heppnuðu Vormóti JSÍ í yngri aldursflokkum á Akureyri lokið. Mótið var í umsjón Judodeildar KA eins og undanfarin ár og fórst þeim það vel úr hendi en Hans Rúnar Snorrason hafði yfirumsón með því. Hægt var að fylgjast með framvindu mótsins á netinu og auk þess var það í beinni útsendingu sem var frábært, sérstaklega fyrir þá sem ekki komust á mótsstað. JR átti góðan dag, vann fimmtán gullverðlaun, níu silfur og fjögur bronsverðlaun. JR óskar keppendum til hamingju með árangurinn og þjálfurunum fyrir frábært starf sem þeir hafa innt af hendi. Einnig þökkum við foreldrum sem fóru með í þessa ferð fyrir þeirra aðstoð og stuðning. Hér eru úrslitin og hér er video af öllum glímunum.

Lagt af stað á Vormót JSÍ – Bein útsending

Í dag var lagt af stað í rútu til Akureyra til að taka þátt í Vormóti JSÍ í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs. Langflestir klúbbar sendu þátttakendur þrátt fyrir leiðindaveður síðustu daga og eru keppendur tæplega sjötíu og koma þeir frá JR, ÍR, Selfossi, Grindavík, KA ogTindastól. Vigtun er í kvöld og svo hefst keppnin í KA heimilinu kl. 10 í fyrramálið og mótslok áætluð um kl. 15. Keppnin verður í beinni útsendingu og hægt að fylgjast með framvindu keppninnar og næstu glímum hér.

Keppendur úr JR, ÍR og Selfossi fóru saman í rútu og eru meðfylgjandi myndir teknar af hluta hópsins rétt áður en lagt var af stað.

Rútan til Akureyrar á Vormót yngri

Rútan á Vormót JSÍ yngri á Akureyri fer frá JR í Ármúlanum á morgun föstudaginn 12. mars kl. 14:00. Áætlað er að koma til baka á laugardaginn um kl. 21. Mótið fer fram í KA heimilinu og keppt í flokkum U13, U15, U18 og U21. Gisting á hóteli þar sem er boðið uppá rúm, kodda og lak svo hafa þarf með sér svefnpoka eða sæng. Kostnaður, rúta og gisting 10.000 kr. auk þess sem þátttakendur þurfa að hafa með sér pening fyrir mat en JR greiðir keppnisgjöldin fyrir alla. Með hópnum fara fjórir þjálfarar frá JR og nokkrir foreldrar. Fararstjórar verða þeir Bjarni Skúlason og Guðmundur Jónasson. Nánari upplýsingar hjá JR í síma 5883200.

Sameiginleg æfing í dag

Í dag verður sameiginleg æfing yngstu aldursflokkanna í JR. Æfing 4-6 ára barna sem venjulega er á laugardögum verður haldin í dag með aldursflokki 7-10 ára og hefst hún fyrr en venjulega eða kl. 17:00 og stendur til 18:30. Athugið að æfing 4-6 ára barna fellur þá niður næsta laugardag.