Páskamót JR og Góu 2022 Úrslit

Páskamót JR og Góu 2022 var haldið í þrennu lagi að þessu sinni. Fyrsti hlutinn var haldinn fimmtudaginn 28. apríl og þá kepptu börn 7-10 ára, föstudaginn 29. apríl keppti aldursflokkurinn 11-14 ára og laugardaginn 30. apríl var páskamót barna 5-6 ára. Páskamótið er venjulega haldið fyrstu helgi eftir páska en þar sem að Norðurlandamótið sem haldið var hér á landi að þessu sinni var sett á sömu helgi var páskamótinu frestað um viku. Mótið fór nú fram í sautjánda sinn og var öllum judoklúbbum opið eins og venjulega en það var fyrst haldið árið 2005 en féll niður 2020 vegna Covid-19. Þátttakendur í ár voru sjötíu og fjórir frá eftirfarandi fimm judoklúbbum, Judodeild Ármanns, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Selfoss, Judodeild ÍR og Judofélag Reykjavíkur. Með keppendunum komu að sjálfsögðu þjálfarar og aðstoðarmenn og auk þeirra fjöldinn allur af aðstandendum og var stemmingin góð á staðnum. Þetta var skemmtilegt mót, fullt af flottum viðureignum og börnin vel undirbúin og kunnu meira og minna allra reglur og framkomu. Dómarar mótsins með Þormóð Jónsson sér til aðstoðar voru nokkrir af okkar bestu judomönnum í yngri kantinum (14-18 ára) og stóðu þau sig virkilega vel en það voru þau Andri Ævarsson, Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson, Helena Bjarnadóttir, Jónas Guðmundsson og Weronika Komendera sem dæmdu. Þjálfarar JR voru þau Daníela Daníelsdóttir, Guðmudur B. Jónasson og Zaza Simonishvili og mótstjórnin í höndum Jóhanns Mássonar og Mikael Ísakssonar. Hér eru úrslitin, myndir frá mótinu og stutt video klippa.