Norðurlandameistaramótið 2023 var haldið í Drammen í Noregi daganna 13-14 maí. Keppendur frá Íslandi voru sextán sem kepptu í U18, U21, Seniora og Veterans flokkum. Helena Bjarnadóttir (JR) varð í öðru sæti í U18 -70 kg og keppti hún einnig um bronsverðlaunin í sama flokki í U21 árs. Í veterans flokki (30 og eldri) keppti Ari Sigfússon (JR) og nældi hann sér í bronsverðlaunin í -100 kg flokki. Í karlaflokki sigraði Egill Blöndal (UMFS) í -100kg flokki og Karl Stefánsson (Ármanni) varð þriðji í +100 kg flokki. Aðrir keppendur stóðu sig einnig vel og unnu fjölda viðureigna þó ekki kæmust þeir á pall en Romans Psenicnijs (JR) komst næst því en hann keppti um bronsverðlaun í U18 í -66 kg flokki. Fleiri JR- ingar unnu viðureignir á mótinu, Aðalsteinn Björnsson vann sex viðureignir, Kjartan Hreiðarsson, Daron Hancock og Weronika Komendera unnu þrjár viðureignir hvor en aðrir færri. Þó ekki hafi komið fleiri verðlaun í hús þá var þetta góð reynsla fyrir okkar keppendur sem eru ungir að árum en meðalaldur keppenda frá JR er aðeins um 17 ár svo þeir eiga mikið inni.
Daníel og Úlfur komnir með 1. dan
Þeir félagar Daníel Leó Ólason (JR) og Úlfur Böðvarsson (UMFS)þreyttu saman gráðupróf fyrir 1. dan laugardaginn 13. maí og stóðust það með glæsibrag. Til hamingju með áfangann.
NM 2023 í beinni og úrslitin
Beltapróf 7-10 ára og nýjar strípur í beltin
Í vikunni tóku nítján börn í aldursflokknum 7-10 ára beltapróf í JR, níu stúlkur og tíu drengir. Þessi frábæri hópur stóðst prófið með glæsibrag og fengu strípu í beltið sitt í viðeigandi lit en liturinn fer eftir aldri barns. Nokkur barnanna voru að fá sína fyrstu strípu en önnur sína aðra, þriðju, fjórðu eða fimmtu og sjö þeirra sína sjöttu strípu sem þýðir að viðkomandi er búinn að æfa í þrjú ár (hjá sumum þá hálfa æfina :)) en það eru gefnar tvær strípur á ári. Verkefni þeirra í beltaprófinu var að að sýna þrjú kastbrögð og tvö fastatök og hvernig á að losna úr því. Auk þess var farið yfir merki dómara, grunn judo reglur og hneigingar rifjaðar upp. Börn 10 ára og yngri fá strípur á beltin sín en þegar þau verða 11 ára þá fá þau ný belti. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Ekki gátu allir iðkendur í þessum aldursflokki mætt í vikunni svo að þau sem ekki voru mætt taka sitt beltapróf næst þegar þau mæta en passað verður uppá það að enginn missi af því. Hér er mynd af börnunum að loknu prófi.
Norðurlandameistaramótið 2023
Norðurlandameistaramótið verður haldið í Drammen í Noregi dagana 13-14 maí. Þátttakan er mjög góð en keppendur eru tæplega fimmhundruð frá öllum Norðurlöndunum. Á laugardaginn verður keppt í senioraflokki og aldursflokki U18 og á sunnudaginn verður keppt í U21 árs og 30 ára og eldri. Keppendur frá Íslandi eru sextán og með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Zaza Simonishvili og Þormóður Jónsson. Flestir ef ekki allir keppendurnir okkar munu keppa í tveimur aldursflokkum þannig að keppendur í U18 keppa líka í U21 og keppendur í U21 keppa líka í senioraflokkum.
Í senioraflokki keppa þeir Egill Blöndal, Gísli Fannar Egilson, Hrafn Arnarsson, Ingólfur Rögnvaldsson og Karl Stefánsson.
Í aldursflokki U21 árs keppa þeir Birkir Bergsveinsson, Kjartan Hreiðarsson og Skarphéðinn Hjaltason.
Í aldursflokki U18 keppa Aðalsteinn Björnsson, Daron Hancock, Fannar Þór Júlíusson, Helena Bjarnadóttir, Mikael Ísaksson, Romans Psenicnijs og Weronika Kommandera og í Veterans flokki (30+) keppir Ari Sigfússon.
Hér er hægt er að sjá úrslitin og fylgjast með gangi mótsins og hér er streymi frá mótinu.
Aftari f.v. Weronika, Helena, Skarphéðinn, Mikael, Aðalsteinn, Daron
Fremri f.v. Zaza, Kjartan, Ingólfur og Romans en á myndina vantar Ara
Kyu gráðupróf
Nú nýverið var kyu gráðupróf í JR og tóku gult belti (5. kyu) í aldursflokki 15 ára og eldri þeir Ísak Guðmundsson og Oliver Brynjarsson og appelsínu gult belti (4. kyu) tók Eldur Hagberg. Í aldursflokknum 11-14 ára tók Úlfur Ragnarsson gult belti. Til hamingju með áfangann.
Æfingahelgi JSÍ
Dagana 5-7 maí voru æfingabúðir á vegum JSÍ ætlaðar iðkendum í aldursflokkum U18, U21 og seniora flokkum haldnar í æfingasal Judofélags Reykjavíkur. Fyrsta æfingin var föstudadskvöldið 5. maí og var met mætingin en um fimmtíu þátttakendur mættu frá eftirfarandi klúbbum, Ármanni, ÍR, JG, JR, JS, KA og UMFS. Æfingarnar á laugardaginn og sunnudaginn voru einnig vel sóttar en þá mættu frá 30-45 manns og voru tvær æfingar hvorn daginn, morgunæfing og síðdegisæfing. Landsliðsþjálfarinn Zaza Simonishvili sá um æfingarnar sem voru fyrst og fremst randori, bæði standandi og gólfglíma og Zaza til aðstoðar voru þjálfarar klúbbanna. Hér er stutt videoklippa og myndir frá æfingunni.
JR með 14 gull á ÍM yngri 2023
Íslandsmeistaramótið í yngri aldursflokkum fór fram Laugardaginn 29. apríl en þá er keppt í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs. Keppendur voru tæplega sextíu frá eftirfarandi sjö klúbbum, Ármanni, ÍR, JG, JR, KA, UMFS og Tindastól. Þetta var velheppnað mót með fullt af flottum glímum sem langflestar enduðu með fullnaðarsigri, þ.e. með Ippon kasti eða með fastataki eða uppgjöf í gólfglímu. Þátttakendur frá JR voru tuttugu og sjö og unnu þeir alls fjórtán gullverðlaun, átta silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun. Til hamingju með frábæran árangur. Keppt var á tveimur völlum og streymdi JSÍ frá mótinu. Hér má sjá glímurnar á velli 1. og velli 2. (slóð óvirk) og hér er stutt videoklippa frá keppninni, úrslitin og hér neðar myndir frá mótinu.
Íslandsmeistaramót yngri 2023
Íslandsmót í yngri aldursflokkum (U13 , U15, U18 og U21) verður haldið hjá Judodeild Ármanns í Laugardal, laugardaginn 29. apríl og hefst kl. 12:00 og áætluð mótslok verða um kl. 15:00.
Keppni U13, U15 og U18 hefst kl. 12 og ætti að ljúka um kl. 13. Keppni í aldursflokki U21 hefst svo hefst svo um kl. 13:15.
Vigtun fyrir alla aldursflokka er hjá JR föstudaginn 28. apríl frá kl. 17-18:00 og einnig á keppnistað á keppnisdegi fyrir þá sem það vilja frekar frá kl. 11:00 – 11:30 og er það einnnig fyrir alla aldursflokka.
Sex gull á Íslandsmeistaramótinu 2023
Íslandsmót karla og kvenna 2023 var haldið laugardaginn 22. apríl í Laugardalshöllinni. Keppendur komu frá fimm klúbbum og voru alls fjörtíu og fimm að meðtöldum opnum flokkum karla og kvenna. Keppt var í sjö þyngdarflokkum karla og einum þyngdarflokk kvenna og auk þess var keppt í opnum flokkum. Þetta var hörkumót og margar jafnar og spennandi viðureignir. Ingólfur Rögnvaldsson sigraði félaga sinn Romans Psenicnijs í úrslitum í -66 kg flokki og var það jafnframt þriðja árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari í þeim flokki og vann hann því bikarinn til eignar. Í -73 kg flokki mættust þeir Kjartan Hreiðarsson og æfingafélagi hans Aðalsteinn Björnsson og var það feykilega jöfn og spennandi viðureign sem að Aðalsteinn sigraði að lokum í gullskori eftir um sjö mínútna viðureign og var það jafnframt hans fyrsti Íslandsmeistaratitill í seniora flokki. Árni Lund vann tvöfalt en hann sigraði örugglega bæði -90 kg flokkinn og opna flokkinn. Þetta var hans sjötti Íslandsmeistartitill en hann hefur þrisvar sinnum áður sigrað í -81 kg flokki og núna í annað sinn opinn flokk karla. Helena Bjarnadóttir vann einnig tvöfalt er hún sigraði bæði -70 kg flokkinn og opna flokkinn og var þetta jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki en hún er aðeins 15 ára og var að keppa í fyrsta skipti í þeim aldursflokki á Íslandsmeistaramóti. Þetta var góður dagur hjá JR, sex gullverðlaun, sjö silfur og fimm bronsverðlaun. Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar voru, Alexander Eiríksson (JG) í -60 kg flokki og jafnframt hans fyrsti Íslandsmeistaratitill í senioraflokki, Breki Bernhardsson (UMFS) -81 kg, Egill Blöndal (UMFS) -100 kg og Karl Stefánsson (Ármanni) +100 kg. Óskum við öllum Íslandsmeisturunum til hamingju með árangurinn.
Streymt var frá mótinu, hér er stutt videoklippa og hér eru úrslitin.