Sveitakeppnin 2022 – úrslit

Íslandsmótið 2022 í sveitakeppni (liðakeppni klúbba) fór fram föstudaginn 18. nóv. Upphaflega átti keppnin að fara fram 19. nóv. í Laugardalshöllinni en sökum þátttökuleysis annara klúbba en Judofélags Reykjavíkur þá var hún færð til JR. Sveitakeppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 46 skiptið sem keppnin fór fram en hún féll niður 1993, 2002 og 2020.

JR sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi sendi karlasveitir í U15, U18, U21 og senioraflokk en náði ekki að manna kvennasveit að þessu sinni. Því miður sendu önnur félög ekki sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan hefur verið og er það annað árið í röð sem það gerist og er það áhyggjuefni. Við eigum langt í land með að ná sama þátttökufjölda og fyrir covid og þurfum við að taka okkur þar á en þá voru 16-20 sveitir sem öttu kappi saman frá 5-6 klúbbum, bæði í kvenna og karlasveitum og öllum aldursflokkum og sumir klúbbar með tvær sveitir í aldursflokki.

Þar sem að önnur félög sendu ekki sveitir þá var þetta innbyrðis keppni milli sveita JR sem var mjög skemmtileg og spennandi þar sem ekkert var gefið eftir. Keppnin gekk stórslysalaust fyrir sig utan þess að í síðustu viðureign mótsins í +90 kg flokki karla varð Þormóður Jónsson fyrir því óhappi að rífa brjóstvöðva í hörkuviðureign gegn Emil Emilsyni sem gerði harða atlögu að Þormóði í gólfglímunni og varð hann að hætta keppni og gefa viðureignina. Í karlaflokki sigraði sveit JR-A og í öðru sæti var JR-B og bronsverðlaunin fóru til JR-C. Það fór eins í U15 og U21 árs aldursflokkum, JR -A sigraði og JR-B varð í öðru sæti en ekki var keppt í U18 þar sem JR hafði bara eina sveit í þeim flokki. Dómarar voru þau Marija Dragic Skúlason, Eiríkur Kristinsson, Jakob Burgel Ingvarsson og Sævar Sigursteinsson og leystu þau sitt verkefni vel af hendi nú sem endranær.

JR varð Íslandsmeistari karla 2022 og er það í tuttugusta og fyrsta skipti og í níunda skipti í röð. Hér má sjá úrslitin 2019 og 2021 en keppnin féll niður 2020 vegna Covid-19 en hér eru svo úrslitin 2022 og videoklippa.

Karlasveit-riðill  – Viðureignir
Karlar U21-riðill  – Viðureignir
Drengir U15-riðill – Viðureignir