Það verða æfingar eins og venjulega í dag, á morgun og á laugardaginn en þær falla niður á Skírdag, Föstudaginn langa og annan í Páskum. Æfingar hefjast svo aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. apríl. Það gæti þó verið að það verði æfing annan í Páskum fyrir 15 og eldri en það verður þá auglýst hér.
Hreyfimyndir frá ÍM yngri 2019
Úrslit Íslandsmóts yngri 2019
Það voru níutíu keppendur frá níu klúbbum sem mættu til leiks í dag á Íslandsmóti yngri aldursflokka en það eru aldursflokkarnir U13, U15, U18 og U21 árs. Mótið sem hófst kl. 10 og stóð til kl. 14:30 var frábær skemmtun, margar skemmtilegar og spennandi viðureignir í öllum aldursflokkum og glæsileg köst og flottar viðureignir í gólfglímunni. Við JR -ingar unnum til 17 verðlauna 9 gull, 7 silfur og 1 brons. Kjartan Hreiðarsson var með tvenn gullverðlaun en hann vann -73 kg flokkinn bæði U18 og U21 árs. Hér eru nokkrar myndir frá mótinu og úrslitin.
Páskamót JR 2019
Páskamót JR verður haldið 4. maí en mótið sem hefur verið eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri júdo iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót ársins hefur venjulega verið haldið fyrstu helgi eftir Páska en þar sem Íslandsmót seniora er þá helgi verðum við að færa það aftur um eina viku.
Íslandsmót yngri á laugardaginn
Íslandsmót yngri verður haldið hjá Júdodeild Ármanns í Laugardal, laugardaginn 13. apríl og hefst það með keppni í aldursflokkum U13 og U15 kl. 10:00 og lýkur þeirri keppni um kl. 11:30. Keppni U18 hefst kl. 12 og lýkur um kl. 13 og þá hefst keppni í U21 árs aldursflokki og mótslok áætluð kl. 14:30. Skráðir keppendur eru 109.
Vigtun á mótsstað frá 9-9:30 fyrir U13 og U15 og kl. 11-11:30 fyrir U18 og U21. Aldursflokkar U18 og U21 geta líka mætt í vigtun kl. 9-9:30 ef það hentar þeim betur.
„Play True Day“ dagurinn er í dag
Dagurinn „Play True Day“ er haldinn 10. apríl ár hvert og er dagur tileinkaður hreinum íþróttum. Honum er ætlað að auka vitundarvakningu meðal íþróttafólks, íþróttasambanda, yfirvalda og annarra sem tengjast íþróttum um baráttuna gegn lyfjamisnotkun. Frumkvæðið og hugmyndina að þessum degi eiga 17 lönd í S-Ameríku eftir að hafa sótt fræðsluráðstefnu WADA (World Anti-Doping Agency) árið 2013. Síðan þá hafa á hverju ári fleiri og fleiri lönd og íþróttasambönd tekið þátt í deginum og deilt skilaboðunum um hinn sanna keppnisanda og um að vernda gildi íþróttanna. Oft er talað um þessi gildi sem „íþróttaandann“. Markmiðið með Play True Day er að gera daginn að alþjóðlegri herferð.
Nánar er hægt að fræðast um Play True Day á www.playtrueday.com
Komust ekki áfram í Tyrklandi
Antalya Grand Prix lauk í gær en því miður komust okkar menn ekki áfram að þessu sinni. Sveinbjörn Iura tapaði sinni viðureign í 81 kg flokknum á refsistigum gegn Bohdan Zusko frá Úkraníu en Egill Blöndal tapaði á ippon kasti í -90 kg flokknum gegn Reka Palkin frá Kazakhstan Hér má sjá glimuna hans Sveinbjörns og hér er glíman hans Egils. Þeir taka nú þátt í æfingabúðum, OTC Going for Gold Antalya 2019 út þessa viku og eru væntanlegir heim næstu helgi.
Egill og Sveinbjörn keppa á GP. Antalya
Antalya Grand Prix hófst í dag og stendur í þrjá daga. Á morgun, laugardaginn 6. apríl mun Sveinbjörn Iura keppa í 81 kg flokknum og á sunnudaginn 7. apríl keppir Egill Blöndal í -90 kg flokknum. Með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Jón Þór Þórarinsson. Að loknu móti taka þeir svo þátt í æfingabúðum, OTC Going for Gold Antalya 2019 í næstu viku. Keppendur á GP. Antalya eru frá 75 þjóðum, 297 karlar og 188 konur eða alls 485 keppendur. Búið er að draga og á Sveinbjörn 14 glímu á velli 1 en hann mætir Bohdan Zusko frá Úkraníu. Egill á fyrstu glímu á velli 2 og mætir Reka Palkin frá Kazakhstan. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 7:00 að morgni að Íslenskum tíma.
Grand Prix Tbilisi hefst á morgun – Bein útsending
Grand Prix Tbilisi hefst á morgun og stendur í þrjá daga og hefst keppnin kl. 7:00 að morgni að Íslenskum tíma (11:00 í Tbilisi) alla dagana. Það eru engir Íslendingar á meðal keppenda að þessu sinni en keppendur eru frá 52 þjóðum, 205 karlar og 167 konur eða alls 372 keppendur. Hér er drátturinn og keppnisröðin og hér er hægt að horfa á mótið í beinni útsendingu.