Íslandsmótið í beinni

Þá er búið að standsetja Laugardalshöllina fyrir Íslandsmótið, búið að koma fyrir tveimur völlum og tölvubúnaði og öðrum hlutum sem fylgja svona móti. Því miður var mæting starfsmanna frá klúbbum og stjórn JSÍ til að aðstoða við uppsetningu arfaslök og er það eitthvað sem þarf að taka til skoðunnar en það voru aðeins átta aðilar sem mættu og þar af einn keppandi sem hefði átt að vera heima hjá sér og einbeita sér að keppninni.
Þetta hafðist þó allt saman og mótið mun hefjast á áætluðum tíma kl.10. Þeir sem komast ekki á mótið geta fylgst með því í beinni útsendingu með því að smella á eitthvert JSÍ logoið hér neðar og hér er keppendalistinn.
Góða skemmtun.

    

Bein útsending kl. 10. frá Íslandsmóti  karla og kvenna
Bein útsending kl. 10. frá Íslandsmóti  karla og kvenna
Bein útsending kl. 13. frá úrslitum og Opnum flokki

Íslandsmeistaramót karla & kvenna 2018

Íslandsmeistaramót karla og kvenna 2018 verður haldið í Laugardalshöllinni laugardaginn 5. maí næstkomandi og hefst kl. 10 með forkeppni sem lýkur um kl. 12. Úrslit hefjast svo kl. 13 og standa þau yfir til kl. 14 en þá hefst keppni í opnum flokkum sem lýkur um kl. 15:30 og mótslok um kl. 16. Hér er keppendalistinn.

Vigtun hjá JR föstudaginn 4. maí frá 18:30-19:00 og muna að hafa bæði bláan og hvítan judobúning kláran í keppninni, nánari upplýsingar hér.

EM lokið – hér eru viðureignir okkar manna

Þeir félagar Þormóður, Logi og Egill stóðu sig með sóma á Evrópumeistaramótinu sl. helgi. Það var vitað að andstæðingarnir yrðu öflugir og líkurnar væru ekki okkar megin. Logi keppti fyrstur og mætti mætir Sami Chouchi(BEL) en hann er í 49 sæti heimslistans. Logi byrjaði vel og var að því er virtist sterkari í tökunum og glíman leit vel út fyrir hann en eitt augnablik gleymdi Logi sér og Belginn var eldsnöggur að átta sig á því og nýtti sér það frábærlega og vann hann Loga á hengingu sem Logi þekkir og notar mikið sjálfur svo það var frekar fúlt að tapa þannig. En ljósi punkturinn var þó sá að Belginn gerði sér lítið fyrir og fór alla leið í úrslitin og endaði með silfrið svo þetta var enginn meðalmaður sem Logi tapaði fyrir. Hér er glíman hans Loga. Egill keppti næstur og mætti  David Klammert (CZE) sem er í 19 sæti heimslistans og gríða sterkur judomaður. Þetta var hörkuglíma sem Egill tapaði að lokum eftir fullan glímutíma en gat alveg eins endað með sigri Egils sem glímdi mjög vel og barðist til síðustu sekúndu. David Klammert tapaði næstu viðureign gegn silfurhafanum  Nemanja Majdov frá Serbíu  Hér er glíman hans Egils. Þormóður mætti Guram Tushishvili (GEO) sem er í öðru sæti heimslistan og margfaldur verðlaunahafi á stærstu mótum heims. Þormóður byrjaði mjög vel og gaf Guram engin færi á sér og barðist vel í tökunum og þegar um 45 sekúndur voru liðnar komst Þormóður í gott bragð og gerði sér lítið fyrir og kastaði Guram á bakið nokkuð sem sést ekki á hverjum degi og fékk wazaari fyrir kastið og munaði ekki miklu að það hefði verið ippon kast eða þá að Þormóður hefði geta fylgt því eftir í fastatak en því miður fór það ekki svo. Glíman hélt áfram og nú var Guram ekki skemmt reiknaði alls ekki með þessu og breytti um stíl og tók önnur tök og náði eldsnöggu og fallegu seoi nage og fékk sanngjarnt ippon fyrir það. Hér er glíman hans Þormóðs.

 

 

 

Búið að draga á EM

Nú er búið að draga á Evrópumeistaramótinu í Ísrael. Það er óhætt að segja að það hefði verið hægt að fá auðveldari andstæðinga. Þormóður fær líklega erfiðasta andstæðinginn en hann mætir Guram Tushishvili (GEO) sem er í öðru sæti heimslistan, núverandi Evrópumeistari og margfaldur verðlaunahafi á Grand Slam mótunum. Í 90 kg flokknum sem Egill keppir í eru á meðal þátttakenda sex efstu menn heimslistans sem segir allt um styrkleika Evrópumeistaramóts. Egill mætir David Klammert (CZE) sem er í 19 sæti heimslistans og gríða sterkur judomaður sem og andstæðingur Loga en hann mætir Sami Chouchi (BEL) en hann er í 49 sæti heimslistans. Þetta verður strembið hjá strákunum en þeir bjuggust svo sem alltaf við því að þetta yrði ekki auðvelt en þeir eru í feykna formi og munu án efa  selja sig dýrt. Hér er drátturinn og hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu. Logi keppir á föstudaginn og á aðra viðureign en keppnin hefst kl. 8 að Ísl. tíma og Egill og Þormóður keppa á laugardaginn og eiga aðra og þriðju viðureign og hefst keppnin hjá þeim kl. 9 að Ísl. tíma.

Evrópumeistaramótið 2018

F.v. Þormóður Jónsson, Jón Þór Þórarinsson, Logi Haraldsson og Egill Blöndal

Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfarai fór með þrjá keppendur til Ísraels í dag en þar munu þeir taka þátt í Evrópumeistaramótinu sem haldið er í Tel Aviv  dagana 26. – 28. apríl. Okkar keppendur eru þeir Logi Haraldsson sem keppir í -81 kg flokknum föstudaginn 27. apríl og Egill Blöndal -90 kg og Þormóður Jónsson +100 kg en þeir keppa báðir laugardaginn 28. apríl. Keppnin hefst kl. 9 að Íslenskum tíma á fimmtudagin og laugardaginn en kl. 8 að Íslenskum tíma á föstudaginn. Evrópumeistaramótið er líkast til allra sterkasta judomótið sem haldið er ár hvert því þar er hver einasti keppandi afar öflugur og fáir veikir hlekkir. Þátttakendur eru 375 frá 44 þjóðum, 216 karlar og 159 konur. Hér er keppendalistinn og drátturinn og hér er hægt að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu .

Íslandsmót yngri 2018 – Úrslit

Íslandsmót í aldursflokkum U13/U15/U18/U21 (einstaklings og sveitakeppni) var haldið hjá Júdodeild Ármanns laugardaginn 14. apríl. Í einstaklingskeppninni voru þátttakendur 107 frá níu klúbbum og í sveitakeppninni voru fjórar sveitir í U15 og U18 og fimm sveitir í U21 árs. Keppnin var spennandi og skemmtileg í öllum aldursflokkum og frábær skemmtun bæði í einstaklingskeppninni sem og sveitakeppninni. Selfyssingar unnu flest gullverðlaunin í einstaklingskeppninni og í sveitakeppninni sigraði sveit Selfoss í U15 en JR ingar sigruðu bæði í U18 og U21 árs. Hér eru úrslitin í einstaklingskeppninni.

Hér eru úrslitin í sveitakeppninni.

U15
1. Selfoss A
2. JR
3. Selfoss B
U15 Riðill U15 Viðureignir

U18
1. JR
2. Selfoss
3. Njarðvík
U18 Riðill  U18 Viðureignir

U21
1. JR
2. KA
3. Ármann
U21 Riðill  U21 Viðureignir

Páskamót JR 2018 úrslit

Páskamót JR var haldið laugardaginn 7. apríl og var þátttakan góð en keppendur voru tæplega sjötíu frá sex klúbbum, Ármanni, Grindavík, ÍR, Selfossi, Þrótti og JR. Því miður vantaði nokkra klúbba í ár en samt var þátttakan meiri en í fyrra og greinilegt að það er fjölgun í íþróttinni og sem dæmi að þá voru ÍR ingar aðeins þrír í fyrra en voru núna fjórfalt fleiri og Þróttarar sem voru níu í fyrra og voru í kringum miðju hvað varðar þátttökufjölda voru núna fjölmennastir eða fjórtán alls. Páskamótið sem hefur verið eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri júdó iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót ársins fór vel fram og keppendur virkilega góðir og sýndu þeir hrein og flott judo brögð. JR þakkar þjálfurum og þátttakendum fyrir daginn sem og öllum öðrum sem veittu aðstoð við framkvæmd  mótsins. Hér eru úrslitin 2018.

Páskamót JR 2018

Páskamót JR sem verið hefur eitt vinsælasta mót ársins hjá yngri judo iðkendunum og jafnframt eitt fjölmennasta mót hvers árs verður haldið í laugardaginn 7. apríl og er skráning á það til miðnættis miðvikudaginn 4. apríl. Mótið hefst kl. 10 hjá aldurshópnum 8-10 ára og stendur til kl. 12 og þá hefst keppni í aldursflokknum 11-14 ára sem ætti að ljúka um kl. 14.  Vigtun er á keppnisstað frá 9-9:30 fyrir alla aldurshópa. Keppendur í aldursflokknum 11-14 ára geta líka mætt í vigtun frá 11-11:30.  Þeir sem mæta ekki í vigtun á réttum tíma verða afskráðir svo keppnin geti hafist á réttum tíma. Nánari upplýsingar hér.

Judo um Páskana hjá 8-15 ára

Páska æfingabúðir fyrir aldurshópinn 8-15 ára verða haldnar í JR dagana 29/3, 30/3, 31/3 og 2/4 og kosta ekki neitt. Hver æfing verður í einn og hálfa klukkutíma og hefst kl. 16:00 ofangreinda daga. Þeir sem vilja og hafa tök á því að taka þátt í þeim eru beðnir um að láta þjálfara JR vita eða senda póst á jr@judo.is. Þjálfarar verða ekki af verri endanum en eftirtaldir aðilar munu sjá um æfingarnar. Bjarni Skúlason, Emil Þór Emilsson, Guðmundur Björn Jónasson, Jón Þór Þórarinnson, Marija Dragic Skúlason og Þormóður Árni Jónsson.

Breytt dagsetning á Íslandsmóti seniora

Íslandsmót seniora sem átti að halda 28. apríl næstkomandi hefur verið fært til. Þar sem Evrópumótið fer fram á sama degi og nokkrir af okkar sterkustu judo mönnum verða þar á meðal keppenda hefur verið ákveðið að færa Íslandsmótið aftur um eina viku. Það verður því haldið 5. maí á sama stað þ.e. í Laugardalshöllinni og síðan eins og gert var ráð fyrir þá verða æfingabúðirnar daginn eftir. Æfingabúðirnar verða haldnar hjá JR eða Judodeild Ármanns, tilkynnt síðar.