Æfingahlé til 13 ágúst

Á hádegi í dag 31. júlí taka gildi hertar aðgerðir innanlands og á landamærum vegna COVID-19 sem standa í tvær vikur, út 13. ágúst nk. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem heilbrigðisráðherra hefur samþykkt.  

Meðal þess sem komið hefur fram er að tveggja metra nándarregla skal viðhöfð í allri starfsemi. Hún er ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin og þar með eigum við erfitt með að stunda okkar íþrótt. Við förum að sjálfsögðu að fyrirmælum og tökum æfingahlé til 13. ágúst.

Það er þó eitthvað ósamræmi í upplýsingum því það kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag að íþróttir fullorðinna (keppni) sem krefjast snertingar skyldu taka hlé til 10 ágúst en við munum fylgjast með og tilkynna um það ef það verður reyndin og getum þá kanski hafið æfingar fyrr.

Uppfært 1. ágúst, það verður hlé til 13. ágúst sjá nánar hér.

Ítarlegri upplýsingar á vef Stjórnarráðs Íslands

Komið sumarfrí hjá aldursflokkum 6-14 ára

Síðasta æfing í sumarsins hjá 6-14 ára var í gær en æfingum átti uphaflega að ljúka í lok maí en vegna Covid-19 lokunnar í vetur var þeim framlengt svo allir fengu sinn tíma og ákveðið að æfa út júní. Vegna góðrar þátttöku í júní var megninu af júlí einnig bætt við. Við hefjum æfingar aftur bæði í byrjendaflokkum og framhaldsflokkum 31. ágúst en það verður auglýst betur hér síðar. Takk fyrir samstarfið á önninni.
Æfingar hjá meistaraflokki og framhaldi 15 ára og eldri halda áfram óbreyttar út sumarið.

Yngri hópur JR vorönn 2020

Tók sitt fyrsta beltapróf

Patrekur Loki Magnússon Moss tók á mánudaginn sitt fyrsta beltapróf og stóð sig mjög vel en hann hóf að æfa júdo snemma á þessu ári. Patrekur er níu ára og var að fá sína fyrstu strípu sem er græn eins og gráðukerfi JSÍ segir til um en litirnir á strípunum segja til um aldur judoka og fjöldi þeirra segja til um hve lengi hann hefur æft en það er gefin ein strípa fyrir hverja önn og eru annirnar tvær á ári.

Norðurlandameistaramótið 2020 á Íslandi

Nú eru aðeins tæpir tveir mánuður í Norðurlandameistatamótið og ef Covid-19 truflar það ekki meira en komið er þá verður það haldið í Laugardalshöllinni dagana 12 og 13 september. Allar norðurlandaþjóðirnar hafa staðfest þátttöku og eru nokkrar þeirra með um og yfir sextíu keppendur svo það stefnir í fjölmennt og sterkt mót. Þið sem ætlið ykkur að komast á verðlaunapall þurfið því að nýta tímann vel og æfa af kappi fram að móti og helst hvern einasta dag annað dugar ekki til. Hér eru nokkrar myndir frá landsliðsæfingunni á föstudaginn og auglýsing af vef JSÍ frá mótinu.

Fengu strípur í beltin

Fannar Frosti Þormóðsson og Víkingur Davíð Inaba Árnason tóku beltapróf í gær í aldursflokki 10 ára og yngri og stóðust það með prýði. Fannar sem er átta ára var að fá sína sjöttu strípu en hann hefur æft júdo í þrjú ár og Víkingur sem er 9 ára var að fá sína aðra strípu en hann byrjaði að æfa á síðasta ári. Litirnir á strípunum segja til um aldur judoka og fjöldi þeirra segja til um hve lengi hann hefur æft en það er gefin ein strípa fyrir hverja önn og eru annirnar tvær á ári. Hér er neðar er mynd af drengjunum og enn neðar má sjá litakerfi belta fyrir 11 ára og eldri og 10 ára og yngri.

F. v. Víkingur Davíð og Fannar Frosti

Tóku beltapróf, 5 og 4 kyu í dag

Það voru fimm einstaklingar sem að tóku beltapróf í dag og voru þau öll að klára seinni hluta gráðunnar. Það voru fjórir drengir, þeir Aleksander Perkowski, Elías Funi Þormóðsson, Gunnar Ingi Tryggvason og Jónas Björn Guðmundsson sem tóku 4. kyu (appelsínugult belti) og ein stúlka, Anna Zoé Thueringer sem tók 5. kyu (gula beltið) og stóðust þau öll prófið með glæsibrag. Af gefnu tilefni þá minnum við á að æfingar hjá aldursflokknum 8-14 ára verða út júlí mánuð þar sem þær hafa verið vel sóttar í sumar.

Frá v. Anna Zoé Thueringer, Jónas Björn Guðmundsson, Aleksander Perkowski, Elías Funi Þormóðsson, Gunnar Ingi Tryggvason

Sumarnámskeið fyrir 8-14 ára

Júdonámskeið fyrir iðkendur 8-14 ára verður haldið í Júdofélagi Reykjavíkur dagana 1-15 júlí og eru æfingar frá kl. 9 -12:30.
Þetta er ekki byrjendanámskeið heldur hugsað fyrir þá sem hafa einhvern júdogrunn og er það opið iðkendum annara júdoklúbba.

Þátttakendur taki með sér nesti til að neyta á milli æfingalota.

Æfingarnar fara fram að öllu jöfnu innandyra í JR en ef og þegar veður leyfir þá munu einhverjar þeirra verða færðr út undir bert loft. Fyrsta æfing verður miðvikudaginn 1. júlí og er dagskráin hér neðar.

Mæting kl. 9:00
Æfing 9:15 til 10:30
Kaffihlé 10:30-11:00
Æfing frá 11:00 -12:30 sem verður brotin upp með einu 15 mín drykkjarhléi.

Námskeiðið stendur í ellefu daga og kostar 23.000 krónur.
Þjálfarar eru Guðmundur B. Jónasson 1. dan og Emil Þ. Emilsson 1. dan

Skráningarfrestur til föstudagsins 26. júní.

Hér er skráningarform en einning er hægt að skrá sig í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Æfingar í sumar hjá JR

Æfingar 8-10 ára og 11-14 ára hafa verið sameinaðar og verða þær út júní til að vinna upp tapaðan tíma sem tapaðist vegna Covid-19. Æfingar eru á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 17:30-18:30.

Æfingar hjá framhaldi 15 ára og eldri hafa verið sameinaðar með meistaraflokki og verða þær á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 18:30-20:00

Byrjendaæfingar í öllum aldursflokkum hefjast svo aftur seinnipart ágústmánaðar og verður það auglýst síðar.