Börnum og ungmennum heimilt að æfa á ný

Börnum og ungmennum 15 ára og yngri verður heimilt að æfa á ný frá og með 18. nóvember og er það gleðiefni en einhver bið verður enn um sinn hjá þeim sem eldri eru.

Íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna í leik- og grunnskólum verður heimilt á ný bæði inni og úti miðvikudaginn 18. nóvember, samkvæmt breytingum á samkomutakmörkunum. Börn á leikskóla og grunnskólaaldri geta hafið æfingar með og án snertingar. Vakin er athygli á því að í minnisblaði sóttvarnalæknis sem hér fylgir að neðan segir að íþróttastarf barna og ungmenna verði leyft en án áhorfenda. Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að næstu tilslakanir verði gerðar 2. desember næstkomandi.

Miðað við reglur í skólahaldi

Breytingarnar sem eru kynntar nú taka gildi miðvikudaginn 18. nóvember og eru eftirfarandi: Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni og úti. Til að slíkt starf geti farið fram eru engar takmarkanir settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman.

Starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar milli fólks verður leyfð með þeim skilyrðum að notast sé við andlitsgrímur. Þetta á við um s.s. hárgreiðslustofur, nuddstofur, öku- og flugkennslu og sambærilega starfsemi. Hámarksfjöldi viðskiptavina á sama tíma er 10 manns.

Í skólastarfi á framhaldsskólastigi mega nemendur og starfsmenn vera að hámarki 25 í hverju rými í stað 10 áður en ber að nota andlitsgrímur sé ekki unnt að halda 2 metra fjarlægð.

Veitt er undanþágu frá grímuskyldu þeim sem ekki geta notað grímur, t.d. af heilsufarsástæðum eða ef viðkomandi skortir þroska eða skilning til að bera grímu. Þeir sem fengið hafa COVID-19 eru einnig undanþegnir grímuskyldu geti þeir sýnt gilt vottorð þess efnis.

Minnisblað sóttvarnalæknis

Viðbót sóttvarnalæknis við minnisblaðið

Reglugerðir frá heilbrigðisráðherra sem gefa línur varðandi íþróttastarf á næstunni.