EM 2020 úrslit

Þá hafa þeir Sveinbjörn Iura og Egill Blöndal lokið keppni á Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Prag dagana 19-21 nóv. Sveinbjörn Iura drógst á móti Marcel Cercea frá Rúmeníu í -81 kg. flokknum. Þetta var hörku viðureign og jöfn, báðir fengu refsistig eftir eina mínútu fyrir aðgerðarleysi og tæpri mínútu síðar fék Marcel aftur refsistig og nú fyrir ólögleg handtök en Sveinbjörn hafði pressað vel á hann og var kominn í góða stöðu. Marcel var kominn með tvö shido og hefði tapað glímunni ef hann fengi eitt til viðbótar og sótti nú stíft á Sveinbjörn en hann varðist með því að halda í beltið hjá Marcel og ýta honum frá sér en hélt of lengi og fékk sitt annað shido. Marcel var nú öllu ákveðnari og pressaði Sveinbjörn að endimörkum keppnissvæðiðsins og reyndi að fá hann til að stíga út fyrir það en þá hefði Sveinbjörn fengið sitt þriðja shido og tapað. Sveinbjörn reyndi að verjast því en við það opnaðist hann og Marcel var fljótur að átta sig og sópaði undan honum fótunum með Deashi harai og skoraði waza-ari og vann á því að lokum því ekki var meira skorað þegar glímutíminn rann út. Egill Blöndal mætti ofjarli sínum í -90 kg flokki en hann mætti Beka Gviniashvili gríðasterkum keppanda frá Georgíu. Hann er fyrrum heimsmeistari juniora og margfaldur verðlaunahafi á Grand Slam og Grand Prix mótunum og situr nú í 10 sæti heimslistans. Beka var öllu sterkari í tökunum og varð viðureign þeirra ekki löng því hann skoraði Ippon eftir skamman glímutíma en endaði sjálfur í þriðja sæti í flokknum síðar um daginn.

Evrópumótið er eitt allra sterkasta mótið sem haldið er ár hvert og engir veikir hlekkir þar. Í judo er keppt í fjórtán þyngdarflokkum, sjö kvennaflokkar og sjö karlaflokkar. Af þessum fjórtán flokkum eru tíu stigahæstu keppendur í heiminum í dag frá Evrópu og skiptist hnífjafnt á milli kynja, fimm í kvennaflokkum og fimm í karlaflokkum. Í hinum fjórum flokkunum sem eftir eru á Evrópa keppendur í fjórða og fimmta sæti í kvennaflokkum og öðru og þriðja sæti í karlaflokkum. Allir stigahæstu keppendur karla voru með á þessu Evrópumeistaramóti og þrjár af stigahæstu keppendum kvenna.