Baltic Sea Championship 2024

Um helgina verða sex keppendur frá JR á meðal þátttakenda á alþjóðlegu móti í Finnlandi, Baltic Sea Championships sem haldið verður í Orimattilla dagana 6-8 des. Allir keppendur okkar keppa í tveimur aldursflokkum U20 ára og U17 nema Daron en hann keppir í U20 og seniora flokki. Keppendur okkar eru, Elías Þormóðsson og Orri Helgason sem keppa í -66 kg flokki, Daron Hancock, Gunnar Tryggvason og Jónas Guðmundsson sem keppa í -73 kg flokki og Viktor Kristmundsson sem keppir í +90 kg í U17 og -100 kg í U20. Þjálfarar og fararstjórar eru þeir Zaza Simonishvili, Þormóður Jónsson og Helgi Einarsson. Hér eru nánari upplýsingar um mótið.

Baltic Sea Championship er afar sterkt mót en skráðir keppendur eru 675 frá ellefu þjóðum. Fyrir utan keppendur frá norðurlöndunum eru keppendur frá Brasilíu, Eistlandi, Þýskalandi, Ísrael, Lettlandi og Póllandi. Keppt er í aldursflokkum, U15, U17, U20 og seniora. Laugardaginn 7.des. verður keppt í U15 og U20 ára aldursflokkum og á sunnudaginn í U17 og senioraflokkum. Hér er hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu.

Adam með verðlaun í Póllandi

Adam Komendera sem æfir hjá JR í 7-10 ára hópnum okkar keppti á barnamóti í Póllandi síðastliðna helgi og stóð sig afar vel og varð í 3-5 sæti. Hér neðar eru nokkrar myndir frá mótinu, mynd af Adam með verðlaunapeninginn í JR og með Weroniku systir sinni og Janusz pabba þeirra. Vel gert Adam og til hamingju.

Reykjavíkurmeistaramótið 2024

Reykjavíkurmeistaramótið 2024 verður haldið í ÍR heimilinu Skógarseli 12 þann 30. nóvember og hefst það kl 13:00 og áætluð mótslok kl. 16:00. Þátttakendur eru frá Reykjavíkurfélögunum Judodeild Ármanns, Judodeild ÍR og Judofélagi Reykjavíkur (JR). Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og seniora flokkum. Nánari upplýsingar og tímasetning verður tilkynnt að loknum skráningarfresti sem er til miðnættis mánudaginn 25. nóvember í skráningarkerfi JSÍ.

Nokkrar kyu gráðanir í vikunni

Í gær þreyttu nokkrir iðkendur úr byrjendahópi 15 ára og eldri gráðupróf fyrir 5. kyu (gult belti) og gerðu það með glæsibrag. Þeir sem misstu af gráðuninni í gær þurfa ekki að örvænta því fleiri gráðupróf verða haldnin á næstu vikum. Hér neðar er mynd af hópnum ásamt Zaza Simonishvili þjálfara JR. Til hamingju með áfangann.

Beltapróf hjá 5-6 og 7-10 ára börnum

Í síðustu viku og þesari voru beltapróf haldin í aldursflokkum 5-6 ára og 7-10 ára og voru fjörtíu börn sem tóku prófið. Það voru átján börn í aldursflokknum 5- 6 ára og tuttugu og tvö í aldursflokknum 7-10 ára og stóðst þessi frábæri hópur prófið með glæsibrag og fengu strípu í beltið sitt í viðeigandi lit en liturinn fer eftir aldri barns. Sum barnanna voru að fá sína fyrstu strípu en önnur sína aðra eða þriðju og nokkur sína tíundu strípu sem þýðir að viðkomandi er búinn að æfa judo í fimm ár en það eru gefnar tvær strípur á ári eða ein á önn. Verkefnin eru mismunandi eftir aldri en þau eru að að sýna kastbrögð og fastatök, hvernig á að losna úr þeim og hvernig á að detta. Auk þess er farið yfir merki dómara, grunn judo reglur og hneigingar. Hér má sjá litakerfi belta fyrir 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Það voru allnokkur börn sem komust ekki í beltaprófið svo að þau sem ekki komust munu taka sitt beltapróf á næstu vikum en það verður passað uppá það að enginn missi af því.

Sveitakeppni JSÍ 2024 úrslit

Íslandsmótið 2024 í sveitakeppni (liðakeppni klúbba) fór fram hjá Judofélagi Reykjavíkur föstudaginn 15. nóv. Mótið átti upphaflega að fara fram 16. nóv. í Laugardalshöllinni en sökum þátttökuleysis annara klúbba en JR var hún færð fram um einn dag og til JR. Sveitakeppni karla var fyrst haldin 1974 og var þetta í 48 skipti sem keppnin fór fram en mótið féll niður 1993, 2002 og 2020. Fyrst var keppt í Sveitakeppni kvenna 1999. Hér má sjá hvaða lið hafa sigrað í þessari keppni.

JR sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi sendi níu sveitir til leiks, tvær karlasveitir í U18, U21 og senioraflokki karla og eina í U15 drengir. Einnig var JR með eina kvennasveit seniora og eina í U15 stúlkur. Því miður voru engir þátttakendur skráðir frá öðrum klúbbum í keppnina og er það líklega í þriðja skiptið (líka 2021 og 2022) í rúmlega fimmtíu ára sögu keppninnar sem það gerist er það umhugsunarefni hvernig á því stendur.

Þar sem enginn var mótherjinn gegn JR þá kepptu sveitir JR innbyrðis nema hjá drengjum U15 og stúlkunum þar var JR bara með eina sveit svo ekki var hægt að keppa innbyrðis. Til þess að keppnin yrði meira jöfn og spennandi var ekki raðað í A og B sveitir heldur drógu keppendur miða úr potti sem merktir voru sveit A eða B og röðuðust í sveitir samkvæmt því.

Á ársþingi 2023 var samþykkt að hvert félag mætti fá lánsmann hvort heldur innlendan eða erlendan til þess að auka líkurnar á því að ná lágmarksfjölda í sveit og gera mótið fjölmennara og sterkara en það dugði hvorki til nú né þá. Á mótinu 2023 voru aðeins tvö félög, JR og UMFS skráð til leiks.

JR notaði tækifærið núna og fékk lánsmenn frá JS í U21 árs aldursflokkinn og einnig í U18 en það voru þeir bræður Arnar Arnarsson (U18) og Böðvar Arnarsson (U21). Sveit JR-B í karlaflokki sigraði sveit JR-A með þremur vinningum gegn tveimur. Í U21 árs flokki sigraði JR-B sveit JR-A með þremur vinningum og 21 tæknistigi gegn tveimur vinningum og 20 tæknistigum og í U18 sigraði sveit JR-A sveit JR-B en báðar sveitir voru með tvo vinninga en sveit JR-A með 20 tæknistig gegn 11. Sem sagt viðureignirnar voru sumarhverjar jafnar og spennandi og engin leið að átta sig á hvaða sveit myndi bera sigur úr býtum. Dómarar voru þeir Björn Sigurðarson og Gunnar Jóhannesson og mótsstjórar þeir Ari Sigfússon og Þorgrímur Hallsteinsson sem allir leystu sitt verkefni vel af hendi og þökkum við þeim fyrir þeirra framlag.

Þetta var í tuttugusta og þriðja skipti sem JR sigrar í sveitakeppninni og ellefta árið í röð. Hér eru úrslitin, U18, U21, Karlar og videoklippa og myndir frá mótinu.

Sveitakeppni JSÍ 2024 (breyttur staður og dagsetning)

Íslandsmótið 2024 í sveitakeppni (liðakeppni) sem halda átti á morgun hefur verið færð fram um einn dag og verður haldið hjá JR föstudaginn 15. nóvember og hefst kl. 18:15 og mótslok áætluð um kl. 19:30. Keppt verður í aldursflokkunum U18, U21 og senioraflokki karla. Hér má sjá úrslitin frá 2023.

Julien Brulard kom í heimsókn

Julien Brulard franskur þjáfari heimsótti Judofélag Reykjavíkur í dag og sá hann um æfingu barna 11-14 ára og síðan hjá meistaraflokki/framhaldi síðar sama dag. Það var afar skemmtilegt, áhugavert og lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig hann byggði æfinguna upp og leiddi hana áfram. Julien sem er á ferð um heiminn og hefur það að markmiði að heimsækja öll aðilarlönd að IJF sem eru 197 og judoklúbba þar, hefur nú þegar heimsótt rúmlega fjörtíu þeirra. Við óskum honum góðs gengis á þessari vegferð og þökkum kærlega fyrir heimsókn hans til JR og vonumst til þess að sjá hann aftur í klúbbnum einhvern daginn.

Formannsskipti á ársþingi JSÍ 2024

Á 53. ársþingi Judosambands Íslands sem haldið var í dag undir öruggri stjórn Valdimars Leó Friðrikssonar þingforseta, var Gísli Egilson kosinn nýr formaður sambandsins en Jóhann Másson, sem gegnt hefur formennsku í tæp tólf ár samfleytt sagði af sér vegna veikinda sem hann hefur verið að kljást við og er að ná sér af. Kári Mímisson, formaður Íþróttamannanefndar ÍSÍ sæmdi Jóhann gullmerki ÍSÍ og jafnframt var hann kosinn heiðursformaður JSÍ og er hann sá sjötti sem hlýtur þann heiður. Frá félagi sínu JR fékk hann áletraðan grip með þökkum fyrir samstarfið og vel unnin störf sem hafa verið ákaflega gefandi og skemmtileg þó þau hafi ekki alltaf verið dans á rósum. Um leið og við óskum nýjum formanni til hamingju með kjörið þá óskum við Jóhanni skjóts og góðs bata og vitum að hann mun vera Gísla og öðrum stjórnarmönnum JSÍ til staðar ef á þarf að halda.