Judomenn JR 2025

Það var ekki fyrr en 2019 sem JR tók upp á því að heiðra judomenn félgsins fyrir árangur þeirra. Judomaður JR er sá eða sú sem bestum árangri náði á árinu í senioraflokki, þá er einnig valinn judomaður ársins sem bestum árangri náði í  U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti sem bestum árangri náði í U18 og U21 árs aldursflokkum en hann getur aðeins verið kjörinn einu sinni. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn judomaður ársins hverju sinni, kona eða karl og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Sjálfboðaliði ársins var fyrst valinn 2022 og er hann heiðraður samhliða judomönnum ársins.

Aðalsteinn Björnsson er Judomaður JR 2025. Aðalsteinn sigraði á Smáþjóðaleikunum í Andorra í -90 kg flokki en átta ár eru síðan Íslendingar unnu síðast gull á þeim leikum en það var í San Maríno 2017. Aðalsteinn vann brons á Matsumae Cup U21 -90 kg, varð Íslandsmeistari í opnum flokki karla, silfur á Reykjavík Judo Open í -90 kg flokki og á Íslandsmeistaramótinu í sama flokki. Gull á vormóti JSÍ í -90 kg flokki karla og gullverðlaun í U21 árs aldursflokki bæði á Íslandsmeistaramóti og Afmælismóti JSÍ.

Mikael Ísaksson var kjörinn Judomaður JR 2025 í U21 árs aldursflokki. Hann keppti fyrri hluta ársins í -81 kg flokki en seinni hlutan í -90 kg. Hann vann öll mót innanlands sem hann tók þátt í á árinu í U21árs flokki. Í -81 kg þyngdarflokki varð hann Íslandsmeistari, vann gull á Afmælismóti JSÍ og Vormóti JSÍ og gull í -90 kg flokki á Haustmóti JSÍ. Hann stóð sig einnig frábærlega í senioraflokkum en hann varð Íslandsmeistari í -81 kg flokki og gull á Vormóti JSÍ í sama þyngdarflokki, gull á Haustmóti JSÍ  í -90 kg flokki og núna í desember kórónaði hann árið er hann varð í öðru sæti á Baltic Sea Championship í U21 árs aldursflokki í -90 kg flokki eftir að hafa lagt þrjá andstæðinga af velli.

Helena Bjarnadóttir  var kjörinn efnilegasti Judomaður JR 2025. Helena sem býr í Serbíu og keppti því ekkert hér heima en náði mjög góðum árangri erlendis. Á Smáþjóðaleikunum var hún með brons í senioraflokki og einnig brons á Norðurlandameistaramótinu í U18. Hún stóð sig frábærlega á European Cup Cadet í Riga er hún vann til silfurverðlauna og keppti um bronsverðlaunin í Grikklandi á European Cup Cadet í Þessalóníu.

Hilmar Arnarson var valinn sjálfboðaliði ársins 2025. Eins og oft vill verða voru margir tilnefndir en aðeins einn skyldi útnefndur og valið því erfitt því margir voru vel að heiðrinum komnir. Hilmar hefur komið að starfseminni JR með ýmsum hætti. Hann hefur verið mjög virkur í æfingum hjá Gólfglíma 30+ og sigraði einmitt í fyrra í opnum flokki á jólamóti JR í þeirri keppni. Hann á einnig börn sem hafa æft hjá félaginu sem náð hafa mjög góðum árangri í keppni fyrir JR. Hilmar  hefur verið rútubílstjóri í fjölmörgum æfinga og keppnisferðum bæð innanlands og erlendis og hafa keppendur notið sérþekkingar hans þegar meiðsl hafa komið uppá og þurft að hlúa að þeim og teipa, teygja og liðka skrokkinn.

Hér neðar eru myndir frá athöfninni en það var Jón H. Guðjónsson formaður JR sem afhenti viðurkenningarnar. Því miður var Helena ekki stödd á landinu og fær hún sína viðurkenningu afhenta síðar og myndir af henni verða settar hér inn.

Judomenn JR 201920202021202220232024, 2025