Tilkynnt var um val á Judomanni ársins 2022 hjá Judofélagi Reykjavíkur föstudaginn 16. desember. Judomaður JR var valinn í fyrsta skipti árið 2019 og er verður sá fyrir valinu sem bestum árangri hefur náð á árinu í senioraflokki. Þá er einnig valinn judomaður ársins í U21 árs aldursflokki og sá efnilegasti í U18/21 en hann getur aðeins verið valinn einu sinni. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Aðeins er valinn einn judomaður ársins hverju sinni, kona eða karl og það sama á við í U21 og þann efnilegasta. Sjálfboðaliðar hvers félags eru ákaflega mikilvægir fyrir starfsemi þess en þeir eru oft ekki mjög sjáanlegir og því ekki margir sem taka eftir þeirra störfum. Því var ákveðið að bæta úr því og taka upp þann sið að velja einn sjálfboðaliða úr hópi fjölmargra og heiðra hann samhliða því er judomenn ársins verða heiðraðir.
Zaza Simonishvili er Judomaður JR 2022 og er það í annað sinn sem hann hlýtur þann heiður en hann var einnig judomaður JR 2020. Zaza sem keppir jafnan í -73 kg flokki stóð sig vel á árinu og er hér hans helsti árangur. Norðurlandameistari í -73 kg flokki og gullverðlaun á sama móti með sveit Íslands í liðakeppninni. Sigurvegari í -73 kg flokki á Reykjavík Judo Open (RIG) og Íslandsmeistari í -73 kg flokki og í opnum flokki og jafnframt sá léttasti sem hefur sigrað þann flokk.
Kjartan Hreiðarsson sem er 19 ára var valinn Judomaður JR 2022 í U21 árs aldursflokki og er það í þriðja sinn sem hann hlýtur þann titil en hann varð einnig fyrir valinu 2019 og 2020. Helsti árangur Kjartans á árinu í U21 árs aldursflokki eru bronsverðlaun á Norðurlandameistaramótinu í -73 kg flokki, silfur á Íslandsmeistaramótinu í – 81 kg flokki og gull með sveit JR í liðakeppninni. Gullverðlaun á Afmælismóti JSÍ -81 kg flokki og einnig gullverðlaun á Vormóti og Haustmóti JSÍ í -73 kg flokki og Reykjavíkurmeistari í sama flokki. Auk þess vann hann fjölda verðlauna í senioraflokkum eins bronsverðlaun í -73 kg á Reykjavík Judo Open, silfur á Íslandsmeistaramótinu í -73 kg og brons í opna flokknum og var í sigursveit JR í liðakeppninni. Gull á Haustmóti JSÍ -73 kg flokki og Reykjavíkurmeistari í sama flokki og að lokum gullverðlaun í liðakeppni karla á Norðurlandameistaramótinu.
Daron Karl Hancock sem er 16 ára var valinn efnilegasti Judomaður JR 2022. Hann stóð sig vel á árinu og er hér stiklað á hans helsta árangri en hann keppti í -73 kg flokki. Á evrópumeistaramóti smáþjóða (EM/GSSE) varð hann í öðru sæti í aldursflokki U18, á Norðurlandameistaramótinu var hann í 7. sæt í U18 og í 5. sæti í U21 árs aldursflokki. Hann fékk silfurverðlaun á Íslandsmeistaramótinu og á Vormóti JSÍ í U18 og U21 árs vann hann einnig til silfurverðlauna. Daron stóð sig einnig vel í senioraflokkum en hann varð í 7. sæti á Reykjavík Judo Open, fékk bronsverðlaun á Íslandsmeistaramóti karla og varð í 7. sæti í opna flokknum. Auk þess var hann í bronsverðlaunasveit JR í liðakeppni karla á Íslandsmeistaramótinu og fékk silfur í liðakeppni U21 árs.
Helgi Einarsson var valinn sjálfboðaliði ársins 2022. Það voru margir tilnefndir en aðeins einn skyldi útnefndur og valið því erfitt því allir voru vel að heiðrinum komnir. Helgi hefur komið að starfseminni með ýmsum hætti en hann á börn sem æfa hjá félaginu og hafa gert í mörg ár. Helgi hefur verið rútubílstjóri í æfinga og keppnisferðum, aðstoðarfararstjóri í ferðum bæð innanlands og erlendis, hjálpað til við mótahald, dýnuburð, kaffiveitingar og fleira sem til hefur fallið og meira segja komið færandi hendi með húsgögn í setustofuna.