Árni Pétur Lund Júdomaður JR 2019

Þrátt fyrir að Júdofélag Reykjavíkur sé meira en 50 ára gamalt félag en það var stofnað 1965, þá hefur einhverrahluta vegna ekki verið komið á þeirri hefð að velja júdomann ársins hjá félaginu en nú hefur orðið breyting á því. Ákveðið var að velja ekki einungis júdomann ársins heldur einnig júdomann ársins í U21 árs og þann efnilegasta. Við valið er ekki einungis tekið mið af árangri heldur einnig ástundun, framkomu og virðingu fyrir íþróttinni. Einungis er valinn einn júdomaður ársins og er það annaðhvort kvenmaður eða karlmaður hverju sinni og það sama á við í U21 og þann efnilegasta.

Árni Pétur Lund sem keppir í -81 kg flokki var valinn júdomaður JR 2019. Hann tók þátt í fjórum alþjóðlegum mótum á árinu og vann þrettán viðureignir af tuttugu. Hann varð Norðurlandameistari og sigraði þar fjóra andstæðinga með yfirburðum. Varð í þriðja sæti á Smáþjóðaleikunum í Monmtenegro og á Matsumae Cup í U21 árs varð hann þriði eftir að hafa lagt sex andstæðinga af velli. Hann varð í þriðja sæti á Reykjavík Intl. games, Íslandsmeistari í 81 kg flokki karla og í þriðja sæti í Opnum flokki. Íslandsmeistari í -90 kg flokki U21 árs og Íslandsmeistari með félagi sínu JR í liðakeppni karla og U21 árs og auk þess vann hann Haustmót karla -81 kg og Afmælismót JSÍ -90 kg í U21.

Árni Pétur Lund

Kjartan Hreiðarsson sem er 16 ára og keppir í -73 kg flokki var valinn júdomaður JR 2019 í U21 árs aldursflokki. Hann vann nánast öll þau mót sem hann tók þátt í á árinu, Íslandsmeistari bæði í U18 og U21 árs og liðakeppni, varð þriðji á Íslandsmeistaramóti karla og silfur á Opna Finnska svo eitthvað sé tiltekið. Kjartan hefur tekið mjög miklum framförum og verður spennandi að fylgjast með honum á júdovellinum á komandi árum.

Kjartan Hreiðarsson

Skarphéðinn Hjaltason sem er 15 ára og keppir í -81 kg flokki var valinn Efnilegasti Júdomaður JR 2019 í aldursflokki U18/U21 árs. Skarphéðinn hefur tekið miklum framförum á árinu og er öðrum til fyrirmyndar hversu vel hann sækir æfingar og leggur sig fram á þeim. Hann er alveg óhræddur við að glíma við sér eldri og reyndari júdomenn og þyngri ef því er að skipta og eftir því tekið að hann tekur alltaf þátt í stuttri auka æfingu með félögum sínum að lokinni venjulegri æfingu.

Skarphéðinn Hjaltason
F.v. Skarphéðinn Hjaltason, Kjartann Logi Hreiðarsson og Árni Pétur Lund

Þórarinn Rúnarsson tók 1. kyu í gær

Þórarinn Rúnarsson tók 1. kyu (brúnt belti) í gær og gerði það vel. Nú getur hann farið að vinna í því að fá svartabeltið en til þess þarf hann að vera í verðlaunasæti á Íslandsmóti seniora eða Reykjavík Judo Open og hafa unnið ákveðinn fjölda andstæðinga á þeim mótum eða öðrum senioramótum. Til hamingju með áfangann.

Þórarinn Rúnarsson 1. kyu

Jólafrí 2019

Síðasta æfing fyrir jól hjá 8-10 ára og 11-14 ára verður föstudaginn 20. des. en þá verður haldin sameiginleg æfing með báðum þessum aldursflokkum og er mæting kl. 17. Að lokinni æfingu verður boðið í kaffi/gos og kökur. Reglulegar æfingar hefjast svo aftur 2020 samkvæmt stundaskrá. Þriðjudaginn 7. janúar hefjast æfingar hjá 8-10 ára og miðvikudaginn 8. janúar hjá 11- 14 ára.

Síðasta æfing fyrir Jól hjá framhaldi 15 ára og eldri er í dag 19. des. og æfingar hefjast svo aftur þriðjudaginn 7. janúar 2020. Æfingar hjá meistaraflokki verða fram að áramótum sem hér segir, föstudaginn, 20. des, 27. des. og mánudaginn 30 des. Fyrsta æfing á nýju ári verður svo föstudagurinn 3. janúar.

Garðar Hrafn Skaftason 4. dan

Garðar Hrafn Skaftason UMFS tók í dag gráðuna 4. dan og gerði það með glæsibrag. Óskum við honum til hamimgju með gráðuna. Uke hjá Garðari var Arnar Ólafsson varaformaður JSÍ. Garðar er einn af sjö Íslendingum með þessa gráðu. Hér neðar er mynd af þeim félögum Arnari og Garðari að lokinni gráðun í dag.

F.v. Arnar Ólafsson og Garðar Hrafn Skaftason

Ásta júdokona ársins og Kjartan efnilegastur

Á uppskeruhátíð JSÍ í dag voru veittar ýmsar viðurkenningar eins og fyrir þjálfaranám, dómari ársins, staðfesting á dan gráðum, bronsmerki JSÍ og síðast en ekki síst tilkynnt um val á júdomanni og konu ársins og þau efnilegustu í U18/U21. Ásta Lovísa Arnórsdóttir úr JR var útnefnd júdokona ársins 2019 og Sveinbjörn Iura úr Ármanni Júdomaður ársins og efnilegust voru þau Kjartan Hreiðarsson úr JR og Heiðrún Pálsdóttir úr UMFN og óskum við þeim til hamingju með útnefninguna. Á myndunum hér neðar afhendir varaformaður JSÍ Arnar Ólafsson þeim Ástu og Kjartani viðurkenningar sínar.

Jólamót/Afmælismót JR 2019 senioraflokkur

Jólamót JR/Afmælismót í senioraflokkum var haldið föstudaginn 13. desember. Keppt var í tveimur flokkum karla og tveimur kvenna. Þetta mót var fyrst haldið 2006 og er þetta þá það fjórtánda. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem sumir hverjir eru hættir keppni og voru okkar bestu júdomenn þess tíma. Það hefur verið frekar létt yfir þessu móti og enginn að kippa sér upp við það þó að áhorfendur eða jafnvel dómarinn “rétti sínum manni hjálparhönd” í miðri viðureign en alltaf fer þó réttur sigurvegari af velli. Ásta Lovísa Arnórsdóttir sigraði í -57 kg, Ingunn Rut Sigurðardóttir sigraði í +57 kg. Þyngdarflokkar karla -73 og -81 kg voru sameinaðir og sigraði Zaza Simonishvili þann flokk og Jón Þór Þórarinsson sigraði sameiginlegan flokk -90 /+90 kg og að lokum þá sigraði gamla kempan Halldór Guðbjörnsson sinn flokk örugglega þar sem að mótherjar hans þeir Bjarni Skúlason og Karel Halldórsson voru hvergi sjáanlegir og mættu ekki til leiks. Dómarar voru þeir Eiríkur Kristinsson og Andres Palma og þökkum við þeim kærlega fyrir hjálpina. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Jólaæfing JSÍ hjá 11-14 ára

Það voru fjórtán JR ingar sem mættu á Jólaæfingu Júosambands Íslands ásamt þjálfurum um helgina og auk þeirra voru iðkendur frá Ármanni, UMFG og JG ásamt þjálfurum. Þormóður Jónsson framkvæmdastjóri JSÍ sá um skipulagningu og Andres Palma stjórnaði æfingunni og gerði það afar vel og voru krakkanir mjög ánægðir með hana. Að lokinni æfingu var öllum þátttakendum boðið upp á léttar veitingar, pizzu og drykki. Hér eru nokkar myndir frá viðburðinum.

Jólaæfing Júdosambandsins fyrir 11-14 ára

Það verður ekki æfing í JR hjá 11-14 ára næsta föstudag því við munum taka þátt í Jólaæfingu Júdosambands Íslands sem haldin verður á sama tíma . JSÍ mun standa fyrir sameiginlegri Jólaæfingu allra klúbba í aldursflokknum 11-14 ára næsta föstudag þ.e. 13. desember og hefst hún kl. 17:30 og stendur í um 60 mín. Myndatökulið verður á staðnum og verður myndefni frá æfingunni notað til kynningar á íþróttinni. Að lokinni æfingu verður boðið upp á pizzu og drykki. Æfingin fer fram hjá Júdodeild Ármanns í Laugardal.