Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfarai fór með sex keppendur til Tékklands en þeir munu keppa á Prag Open 2018 næsta sunnudag en mótið hefst á morgun í léttari flokkum. Þátttakendur eru frá Íslandi eru þeir Árni Lund, Breki Bernharðsson og Logi Haraldsson sem allir keppa í -81 kg flokki, Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura í -90 kg og Þormóður Jónsson í +100 kg. Að loknu móti fara þeir í OTC æfingabúðirnar í Nymburk en þar verða samankomnir flestir bestu judomenn heims. Hér er keppendalistinn og drátturinn og hér má fylgjast með mótinu í beinni útsendingu og hefst það kl. 9 að Íslenskum tíma báða dagana.
Úrslit Góumóts JR
Góumótið sem halda átti fyrir viku en var frestað vegna veðurs var haldið í dag. Yfir fjörtíu keppendur voru upphaflega skráðir til keppni en breytt dagsetning hefur eflaust haft eitthvað með það að gera að ekki skiluðu sér allir í dag en keppendur voru þrjátíu og komu frá eftirfarandi judoklúbbum, Grindavík, ÍR, JR, Selfossi og Þrótti. Góumótið er keppni yngstu iðkendanna (8-10 ára) og þar eru allir sigurvegarar og fá gullverðlaun fyrir þátttökuna. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir saman í flokkum. Mótið í dag var frábær skemmtun og börnin sýndu oft á tíðum ótrúlega flott judo miðað við unga aldur. Það má ljóst vera að mikil gróska er hjá öllum klúbbum landsins í yngstu aldursflokkunum eins og sjá mátti á Góumótinu í dag og afmælismóti JSÍ í gær en tæplega hundrað og fimmtíu keppendur voru skráðir til leiks frá níu klúbbum á þessi mót. Hér eru úrslitin frá Góumótinu og nokkrar myndir.
Úrslit Afmælismóts JSÍ í yngri aldursflokkum
Afmælismót Judosambands Íslands í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 var haldið um helgina í JR. Við vorum með með 10 keppendur og gekk okkar mönnum bara nokkuð vel en við unnum fimm gullverðlaun og þrjú silfurverðlaun. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.
Dagskrá Afmælismóts yngri og Góumótið
Þar sem metþátttaka (100 keppendur) er í Afmælismóti JSÍ (U13/U15/U18/U21) sem haldið verður laugardaginn 17. feb. og ekki hægt að færa mótið í annað húsnæði verður það haldið í JR eins og áætlað var. Mótið hefst kl. 10 og lýkur um kl 16:00 en ekki um kl. 14 eins og reiknað var með.
Vigtun á keppnisdegi á mótsstað frá 9-9:30 hjá U13 og U15 og kl. 11-11:30 hjá U18 og U21.
Keppni U13 og U15 (62 viðureignir) hefst kl. 10 og lýkur um kl 12 og þá hefst keppni U18 (46 viðureignir) sem lýkur um kl. 14 og þá tekur við U21 (28 viðureignir) sem lýkur þá um kl 15:30 og mótslok um kl. 16:00.
Þar sem fyrirsjánlegt er að Afmælismótinu ljúki ekki fyrr en um kl 16:00 er ekki forsvaranlegt að halda Góu mótið (40 keppendur + aðstandendur) í framhaldi af því ef tímasetningar færu úr skorðum.
Góumótið (8-10 ára) verður því haldið daginn eftir þ.e. sunnudaginn 18 febrúar hjá JR og eru tímasetningar eins og áður. Vigtun á keppnisdegi á mótsstað frá 9-9:30 og mótið hefst svo kl.10 en mótslok verða fyrr en áætlað var eða um kl. 12:00.
Silfur og brons á Danish Open 2018
Danish Open 2018 var haldið í Vejle í Danmörku dagana 10 – 13 febrúar 2018. Keppendur frá Íslandi voru þeir, Hrafn Arnarson, U18 og U21 -81kg, Alexander Heiðarsson, U21 og senioraflokki -60kg, Úlfur Böðvarsson, U21 og senioraflokki -90kg, Grímur Ívarsson, U21 og senioraflokki -100kg, Breki Bernharðsson -81kg, Egill Blöndal -90kg og Sveinbjörn Iura -90kg. Ásamt þeim fóru landsliðsþjálfararnir Jón Þór Þórarinsson og Hermann Unnarsson og einnig var með í för Heiðar Jónsson formaður KA. Egill Blöndal komst lengst allra en hann keppti um gullverðlaunin gegn Oliver Nelmark frá Danmörku og var sú viðureign gríðalega jöfn og spennandi. Eftir venjulegan glímutíma (4 mín) fór hún í gullskor og var það ekki fyrr en á 5 mínútu gullskorsins að Oliver náði að skora wazaari á Agli og tók þar með gullverðlaunin en fram að því mátti varla á milli sjá hvor myndi hafa betur. Það hafði ekki gengið vel hjá Breka í 81 kg flokknum og ákvað hann að skella sér í opna flokkinn og sá ekki eftir því en þar byrjaði hann á því að vinna sinn riðil örugglega og var kominn í undaúrslit þegar hann tapaði gegn sterkum Dana sem keppir í -100 kg flokki og sem vann síðar opnaflokkinn en Breki tók bronsverðlaunin. Það voru fleiri með bronsverðlaun en þeir félagar Úlfur Böðvarsson og Grímur Ívarsson sem búa í Danmörku eins og er fengu brons í U21 árs aldursflokkum, Úlfur í -90 kg og Grímur í -100kg. Aðrir unnu færri viðureignir og komust ekki á verðlaunapall. Hér eru úrslitin og hér er hægt að skoða upptökur frá mótinu.
Grímur kominn með svartabeltið
Grímur Ívarsson var staddur á landinu í janúar og tók þátt í Reykjavík Judo Open en hann býr nú sem stendur í Danmörku. Hann notaði tækifærið og tók 1. dan prófið í dag en hann hafði ekki komið því við fyrr en nú en hann var fyrir löngu búinn að uppfylla öll skilyrði sem til þurftu. Prófið stóðs Grímur með glæsibrag. Uke hjá honum var Hrafn Arnarsson. Til hamingju með áfangann Grímur.
Úrslit Reykjavík Judo Open 2018
Reykjavik Judo Open 2018 – Result 2018 Úrslit 2018
RIG Open 2018 – Schedule & result
Reykjavik Judo Open 2018 – Result
Time schedule/dagskrá.
10:00 -13:00 Preliminary/forkeppni
Mat 1.
10:00-13:00 M-60, M-81, M-100, M+100, W-70 kg
Mat 2.
10:00-13:00 M-66, M-73, M-90, W-63 kg
13:00 -14:15 Break/Hlé
14:15 -15:30 Bronze match/Brons viðureignir
15:30 -16:00 Final match/Úrslitaviðureignir
16:00 Awards and closing ceremony /verðlaunaafhending og mótslok.
Egill með brons í Skotlandi
Þeir félagar Egill Blöndal og Breki Bernharðsson frá Judodeild Selfoss kepptu á Opna Skoska í gær og stóðu sig býsna vel en Egill varð í þriðja sæti sem er frábært. Egill sem keppir í -90 kg flokki vann fyrstu tvær viðureignirnar og var þar með kominn í undanúrslit en þar tapaði hann því miður og komst ekki í úrslitin. Hann keppti því síðar um daginn um bronsverðlaunin og vann þar sína þriðju viðureign og þar með bronsverðlaunin. Breki keppti í -81 kg flokki en þar voru keppendur tuttugu og einn. Hann vann fyrstu viðureign en tapar þeirri næstu. Hann fær þó uppreisnarglímu sem hann vinnur en tapar svo þeirri fjórðu og var þar með úr leik. Hér er -90 kg flokkurinn og hér er -81 kg flokkurinn.
Reykjavik Judo Open 2018
Reykjavík Judo Open er alþjóðlegt judo mót sem haldið verður í Laugardalshöllinni 27. janúar næstkomandi. Það er met þátttaka erlendra keppenda og margir þeirra eru verðlaunahafar frá Grand Slam og Grand Prix mótunum. Það verður því erfiður róðurinn hjá okkar mönnum en allir okkar bestu judo menn og konur verða með. Komið og sjáið heimsklassa judo sem er bæði standandi viðureignir og gólfglíma sem gæti verið áhugavert fyrir þá sem stunda jiu-jitsu.