Æfingar til áramóta

Það er komið jólafrí í öllum aldursflokkum nema 15 ára og eldri og verða æfingar á eftirtöldum dögum til áramóta.

Fimmtudaginn 20. des og föstudaginn 21. des kl. 18:30-20:00

Fimmtudaginn 27. des og föstudaginn 28. des. kl. 18:30-20:00

Fyrstu vikuna á nýju ári verða æfingar miðvikudaginn 2. jan og föstudaginn 4. jan. kl. 18:30-20:00

Reglulegar æfingar 2019 í öllum aldursflokkum hefjast svo aftur samkvæmt stundaskrá mánudaginn 7. jan. Nánar auglýst síðar.

Helena, gull, Matas, brons, Mikael í 4. sæti

Helena Bjarnadóttir náði glæsilegum árangri í dag á Open Twents Judo Championship. Hún sigraði í aldursflokknum U12 ára í +48 kg flokknum og fékk því gullverðlaunin. Hún glímdi mjög vel og sigraði örugglega. Matas Naudziunas vann einnig til verðlauna en hann fékk bronsið í sama aldursflokki í +57 kg. Mikael Máni Ísaksson glímdi einnig mjög vel í dag en hann vann nokkra glímur og keppti um bronsverðlaunin í U12 -42 kg flokknum og fór viðureign hans í dómaraúrskurð sem féll honum í óhag og voru þjálfarar okkar afar óhressir með þá niðustöðu en Mikael var mun sterkari aðilinn að þeirra mati og átti bronsið skilið. Emma Tekla og Aðalsteinn Karl unnu fyrstu viðureign en töpuðu næstu tveimur og komust ekki á verðlaunapall.  Elías Funi, Jónas Björn og Daron Karl töpuðu sínum viðureignum og það gerði reyndar Skarphéðinn Hjaltason einnig en hann keppti í U15 +66 kg flokknum.  Hann fékk tvær glímur og voru andstæðingar hans ekki af verri endanum því þeir urðu í öðru og þriðja sæti í flokknum síðar um daginn svo hann hefði getað verið heppnari með dráttinn. Þjálfarar okkar voru ekkert sérstaklega ánægðir með dómgæsluna í dag því þær sérreglur sem áttu að gilda á mótinu, ákveðnin brögð og aðferðir sem áttu að vera bönnuð í barnaflokkunum, var ekki fylgt eftir en það hafði verið sérstaklega brýnt fyrir okkar krökkum að fara eftir þeim og kom það því niður á þeim. Heilt yfir voru þeir þó ánægðir mótið og frammistöðu krakkana en mótið var gríðasterkt og eitt það sterkasta sem haldið er í þessum aldursflokkum og höfum við því háleitt markmið sem þarf að ná á næstu árum en það eru fleiri JR ingar á verðlaunapall á þessu móti.   

Keppni lokið hjá U17 á Open Twents

Open Twents í Enschede er orðið eitt fjölmennasta mótið sem haldið er í Hollandi með 1100 þátttakendum frá sex þjóðum og í dag kepptu 400 þeirra í aldursflokknum U17.  Allir bestu keppendur Hollands voru á meðal þáttakenda en þetta er úrtökumót fyrir þá til þess að komast í landslið og fá rétt til þess að keppa á Europen Cup á næsta ári.  Okkar keppendur stóðu sig öll vel eða svipað og búast mátti við miðað við styrkleika mótsins en samanborið við td. NM unglinga eða SWOP juniora þá er þetta í allt öðrum klassa og er kanski nær EYOF að styrk. Í stuttu máli þá komust okkar keppendur ekki áfram en fengu þó öll  tvær viðureignir sem því miður töpuðust. Flokkarnir voru misfjölmennir en flestir voru þó í -66 kg flokknum eða 46 keppendur en Ísak Freyr Hermannsson keppti í þeim flokki en hann tapaði  í  sínum viðureignum eftir harða keppni. Kjartan Logi Hreiðarsson -73 kg tapaði fyrstu viðureign á þremur shido gegn Hollendingi sem varð í öðru sæti síðar um daginn og Andri Fannar Ævarsson -81 kg tapaði einnig fyrir silfur verðlaunahafa í fyrstu viðureign eftir hörku glímu. Skarphéðinn Hjaltason sem er 14 ára gamall og keppti í -81 kg flokknum er á yngsta ári í aldursflokknum U17  (14-16 ára). Hann var ekki langt frá því að vinna sína fyrstu viðureign þegar hann var kominn með andstæðing sinn í shime-waza en sá slapp með skrekkinn.  Hákon Garðarsson-73 kg tapaði einnig sínum viðureignum eftir hörku átök sem og Helga Aradóttir í -70 kg flokknum en hún tapaði fyrir stúlku í fyrstu viðureign sem vann bronsið síðar um daginn. Þó svo að engar viðureigni hafi unnist í dag þá mun reynslan af þátttökunni og upplifunin af svona sterku og fjölmennu móti örugglega skila sér til þeirra. Öll eru þau hörku keppendur og góðir júdo menn en hafa ekki mikla reynslu af keppni erlendis en hafa metnað til að ná langt og það þarf því að leggja enn harðar af sér við æfingar og keppni til að ná árangri á móti sem þessu. Hér er linkur á úrslitin.

Á morgun verður keppt í yngri aldursflokkum en þá verða 700 keppendur sem munu eigast við í U15, U12 og U10.  Skarphéðinn keppir aftur og nú i aldursflokknum U15 +66 kg ásamt þeim Aðalsteini Karli Björnssyni -42 kg og Daroni Karli Hancock -46 kg. Í U12 ára keppir Jónas Björn Guðmundsson og Elías Funi Þormóðsson í -34 kg flokki, Mikael Máni Ísaksson -42 kg,  Matas Naudziunas +50 kg og Helena Bjarnadóttir +48 kg og Emma Tekla Thueringer í U10 ára í -32 kg. 

Keppa í Hollandi um helgina

Í morgun fór 27 manna hópur JR inga, (keppendur, foreldrar og þjálfarar) til Hollands þar sem þeir munu taka þátt í móti í Open Twents Judo Championship og er haldið í borginni Enschede. Þetta er í fyrsta skiptið sem þetta mót er haldið og langflestir keppendurnir koma frá Hollandi enda er þetta úrtökumót þeirra til að komast í landslið Hollendinga í U17. Fyrir utan Hollendinga og Íslendinga eru keppendur frá Þýskalandi, Canada, Frakkland, Belgía og fleiri löndum  svo þetta verður gríðasterkt mót og líkast til það sterkasta í þessum aldursflokkum sem við höfum tekið þátt. Þau munu örugglega upplifa skemmtilegt mót og vonandi ánægjulega reynslu frá því.  Á morgun verður keppt í U17 (14-16 ára) og keppa þá þeir Andri Fannar Ævarsson og Skarphéðinn Hjaltason báðir í -81 kg, Hákon Garðarsson og Kjartan Logi Hreiðarsson báðir í -73 kg og Ísak Freyr Hermannsson í -60 kg og Helga Aradóttir í -70 kg.  Á sunnudaginn verður keppt í yngri aldursflokkum og mun Skarphéðinn þá keppa aftur og nú i aldursflokknum U15 ásamt þeim Aðalsteini Karli Björnssyni og Daroni Karl Hancock. Aðrir sem verða í eldlínunni þennan dag eru Jónas Björn Guðmundsson, Elías Funi Þormóðsson, Matas Naudziunas, Mikael Máni Ísaksson og Helena Bjarnadóttir og keppa þau öll í U12 ára aldursflokki og síðast en ekki síst Emma Tekla Thueringer í aldursflokknum U10 ára. Þjálfarar og fararstjórar í ferðinni eru þeir Guðmundur Björn Jónasson og Þormóður Árni Jónsson. Hér má sjá alla keppendur í hverjum flokki og hér neðar er myndir frá ferðalaginu til Enschede.

Breki komst í 16 manna úrslit í Hong Kong

Síðasta mót ársins erlendis hjá okkar keppendum var þátttaka þeirra Breka Bernhardssonar (-73 kg) og Sveinbjörns Iura (-81 kg) á Asian Judo Open Hong Kong 2018. Breki sem keppti á laugardeginum var þarna líklegast að keppa á sínu sterkasta móti til þessa og byrjaði mjög vel en hann mætti heimamanninum Ho Ting Lee (HKG) sem hann sigraði örugglega á ippon. Næst mætti hann Keise Nakano (PHI) en varð að lúta í lægra haldi fyrir honum og féll úr keppni í sextán manna úrslitum. Þetta var vel gert hjá Breka og fékk hann sextán punkta og er kominn á heimslistann í -73 kg flokknum.  Sveinbjörn keppti á sunnudaginn og mætti Gwanghui Lee (KOR). Sveinbjörn tapaði þeirri viðureign og var þar með fallinn úr keppni en 
Gwanghui fór alla leið og stóð uppi sem sigurvegari í flokknum í lok dags. Það er ótrúlegt en satt en þetta var í þriðja sinn í röð að Sveinbjörn fellur úr keppni fyrir þeim sem sigrar flokkinn síðar um daginn, það skeði á HM í Baku í sept, á Grand Slam Osaka fyrir tveimur vikum og svo núna. Það fer væntanlega að verða áhugavert fyrir einhverja að fá að glíma við Sveinbjörn á komandi mótum og vonast eftir sigri því þá er gullið nánast öruggt fyrir viðkomandi. Nú er komið keppnishlé fram í janúar en þá hefst mikil törn sem lýkur ekki fyrr en í maí 2020 en þá er öllum mótum lokið sem gefa punkta á heimslistann sem ákvarðar hvort keppandi náði að skora nógu hátt til að öðlast þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Japan 2020.

Breki Bernhardsson og Sveinbjörn Iura

ASIAN JUDO OPEN HONG KONG 2018

Þá er komið að síðasta móti ársins erlendis hjá okkar keppendum en það verða þeir Breki Bernhardsson (-73 kg) og Sveinbjörn Iura (-81 kg) sem munu keppa á laugardaginn á Asian Judo Open Hong Kong 2018. Það verður dregið á morgun í öllum flokkum og keppir Breki á laugardaginn en Sveinbjörn á sunnudaginn og er tímamismunur 8 tímar þannig að kl. 2 eftir miðnætti á morgun föstudaginn 30. nóv. er klukkan 10 að morgni á laugardegi í Hong Kong og kominn 1. des. en þá hefst keppni hjá Breka og alveg eins hjá Sveinbirni þ.e. kl. 2 eftir miðnætti á laugardaginn. Eins og áður hefur komið fram keppir Egill ekki í Hong Kong eins og til stóð þar sem hann er enn að jafna sig á meiðslunum sem hann varð fyrir í nóvember og Ægir keppir ekki heldur en það stóð reyndar ekki til. Hér verða settir inn linkar um beina útsendingu ef hún verður.