Keppni lokið á EYOF 2022

Þá eru EYOF leikunum 2022 lokið. Judokeppnin hófst 26 júlí og lauk 30 júlí með blandaðri liðakeppni þar sem Azerbaijan fór með sigur af hólmi. Þeir Skarphéðinn Hjaltason, JR og Jakub Tomczyk, UMFS kepptu 28. júlí og drógust báðir á móti mjög sterkum andstæðingum í fyrstu umferð. Jakub mætti Stanislav Korchemliuk frá Úkraníu í -81 kg flokki og tapaði Jakub þeirri viðureign en Stanislav stóð uppi sem sigurvegari í lok dags og það var eins hjá Skarphéðni en hann tapaði gegn Miljan Radulj frá Serbíu í fyrstu umferð og sigraði Miljan -90 kg flokkinn síðar þann dag. Bæði Skarphéðinn og Jakub fengu uppreisnarglímu, Skarphéðinn mætti keppanda frá UKR og Jakub keppanda frá Tyrklandi en því miður töpuðust þær einnig og þar með var þátttöku okkar manna á mótinu lokið. EYOF er gríðasterkt judomót og ekkert sjálfgefið að vinna viðureign á því en það vissu þeir félagar sem lögðu sig alla fram en það dugði ekki að þessu sinni. Eins og áður hefur komið fram þá hafa allmargir fyrrum sigurvegarar á EYOF unnið verðlaun á stórmótum eins og t.d. Ólympíuleikum ekki svo löngu seinna og verður því áhugavert að fylgjast með sigurvegurum frá EYOF 2022 á komandi árum. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari var strákunum okkar til aðstoðar í þessari ferð.

Keppa á EYOF 2022

Sunnudaginn 24. júlí hófust í Banská Bystrica í Slóvakíu EYOF leikarnir 2022 eða Ólympíuhátíð æskunnar sem er íþróttahátíð sem haldin er annað hvert ár fyrir aldurshópinn 14-18 ára. Hátíðin í ár átti að fara fram 2021 en var frestað vegna Covid svo það verða aftur EYOF leikar 2023 í Maribor í Slóveníu.  Á leikunum núna eru um 3000 þátttakendur frá 48 evrópuþjóðum og er keppt í tíu íþróttagreinum sem eru ásamt judo, badminton, blak, fimleikar, frjálsar, handbolti, hjólreiðar, körfubolti, sund og tennis og verða íslendingar þátttakendur í öllum greinum nema körfu og blaki. Þetta mót er gríðasterkt og hafa allmargir fyrrum sigurvegarar þess unnið verðlaun á Ólympíuleikum ekki svo löngu seinna eins og t.d. judomaðurinn Ilias Iliadis frá Grikklandi (áður Jarij Zviadauri, GEO) en hann vann gullverðlaun á EYOF 2001 í Murcia þá 15 ára gamall en keppti þá fyrir GEO og hann verður Ólympíumeistari karla tveimur árum síðar í Aþenu 2004 aðeins 17 ára gamall.

Til þess að tenglarnir hér neðar virki sem skyldi þá þarf að stofna (IJF account) sem er frír og notast aftur á næstu IJF viðburðum. Judokeppnin hófst í dag en hún stendur yfir frá 26-30 júlí og er keppt í liðakeppni síðasta daginn. Þátttakendur í judo fyrir Íslands hönd eru þeir Skarphéðinn Hjaltason, JR sem keppir í -90 kg flokki og Jakub Tomczyk, UMFS sem keppir í -81 kg flokki og munu þeir báðir keppa 28. júlí. Með þeim í för er landsliðsþjálfarinn Zaza Simonishvili. Búið er að draga og fá þeir öfluga andstæðinga sem eru báðir ofarlega á heimslistanum í U21 árs aldursflokki. Skarphéðinn mætir keppanda frá Serbíu, Miljan Radulj sem er í 39. sæti listans og Jakub mætir keppanda frá Ukraníu, Stanislav Korchemliuk sem er í 41. sæti listans. Hér er PDF skjal með drættinumn í öllum flokkum.

Hér er linkur á beina útsendingu og frekari upplýsingar. Mæli með að nota IJF Live síðuna til að horfa á beina útsendingu en henni fylgja allar upplýsingar um mótið og keppendur. Til að nota hana þarf að stofna (IJF account) sem er frír og notast aftur og aftur. Keppnin hefst kl. 10 að staðartíma sem er þá kl. 8 að morgni hjá okkur þar sem tímamunurinn er 2 tímar.

Í æfingabúðir í Danmörku

Í nótt fóru fimm íslenskir Judomenn ásamt þjálfara til Danmerkur þar sem þeir munu taka þátt í alþjóðlegum æfingabúðum í Amager en þær eru ætlaðar drengjum og stúlkum fædd 2004-2007. Þessar æfingabúðir eru liður í undirbúniningi fyrir EYOF (European Youth Olympic Festival) sem fram fer  í lok júlí í Slóvakíu og þar verða tveir judomenn frá Íslandi á meðal þátttakenda. Þeir sem taka þátt í æfingabúðunum eru (sjá mynd frá v-h) Zaza Simionishvili, (þjálfari) Skarphéðinn Hjaltason, Nökkvi Viðarsson, Mikael Ísaksson, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson en þeir hafa verið afar duglegir við æfingar í sumar. (Frétt af heimasíðu JSÍ)

Zaza Simonishvili nýr landsliðsþjálfari JSÍ

Frétt af heimasíðu JSÍ. Zaza Simonisvhili hefur verið ráðin landsliðsþjálfari Judosambands Íslands og kemur til með að annast þjálfun cadet, Junior og senior landsliða karla og kvenna. Zaza er frábær judomaður, ákaflega vel liðinn og stanslaust að miðla og gefa af sér til annara iðkenda. Judofélag Reykjavíkur óskar stjórn JSÍ til hamingju með þessa ákvörðun og Zaza með stöðuna og hlakkar til að vinna með þeim að komandi verkefnum. Á myndinni hér að ofan er Zaza ásamt Þormóði Jónssyni framkvæmdastjóra JSÍ og Jóhanni Mássyni formanni JSÍ.

Æfingar í sumar

Síðasta æfing á vorönn hjá 11-14 ára var í gær og síðasta æfing hjá framhaldi 15 ára og eldri verður í dag þriðjudaginn 31. maí. Æfingar þeirra hefjast svo aftur seinnipart ágúst.

Meistaraflokkur æfir í sumar, líkast til fram í miðjan júlí (nánar tímasett síðar) en þá tökum við smá sumarfrí. Öllum iðkendum úr framhaldi 15 ára eldri og iðkendum sem eru 13 og 14 ára á árinu er velkomið að mæta á þær æfingar ef áhugi er fyrir því og verður að sjálfsögðu tekið tillit til ungs aldurs þeirra. Breyting verður á æfingadögum og tíma en þær verða á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum og hefjast kl. 17:30 og lýkur kl. 19:00.

Ævintýraferð JR

Laugardaginn 28. maí fór allstór hópur JR-inga í algjöra ævintýraferð að Meðalfellsvatni og var það Mámi Andersen og fjölskylda sem tók á móti hópnum sem taldi rúmlega tuttugu manns. Ýmislegt var gert sér til skemmtunnar og meðal annars farið í ógleymanlegt klettastökk og síðar um daginn fóru krakkarnir út á vatnið og voru þar dregin eftir því á blöðru sem þau þurftu að halda sér á. Hér eru nokkrar myndir frá ferðinni og videoklippa. JR þakkar Mána og fjölskyldu kærlega fyrir móttökurnar.

Þrjú systkin í judo

Að systkin æfi saman judo er ekki óalgengt en að þau séu þrjú kemur fyrir en er ekki jafn algengt. Þau Edda, Elva og Jóhann Kristjánsbörn æfa öll judo í JR. Elva sem æfir með aldursflokki 7-10 ára fékk í lok vorannar viðurkenningarskjal til staðfestingar á sinni gráðu en börn 10 ára og yngri fá strípu í beltið sitt en þegar þau ná 11 ára aldri fá þau ný belti. Jóhann og Edda sem æfa með aldursflokki 11-14 ára luku vorönninni með beltaprófi fyrir gult belti. Þau stóðu sig öll með sóma.

Jóhann, Elva og Edda

Komið sumarfrí hjá 5-10 ára börnum

Síðasta æfing fyrir sumarfrí hjá börnum 5-6 ára og 7-10 ára var haldin þriðjudaginn 24 maí s.l. og var það sameiginleg æfing þessara aldursflokka. Að lokinni æfingu fengu þau smá gjöf (handklæði) frá JR og viðurkenningarskjal til staðfestingar á því að hafa lokið judonámskeiði og beltaprófi á vorönn. Því miður vantaði allmarga á þessa æfingu þar sem mikið var um að vera þennan dag bæði í skólum og leikskólum svo þau sem komust ekki en vilja nálgast gjöfina og skjalið sem bíður eftir þeim í JR þá er best að hafa samband í gegnum jr@judo.is eða hringja. Það var ákaflega skemmtilegt og ánægulegt að starfa og leika með börnunum á önninni og vonandi að þau hafi einning skemmt sér vel og haft gagn og gaman af. Æfingar hefjast aftur seinnipartinn í ágúst og verður auglýst hér á judo.is og vonumst við til þess að sjá þau sem flest aftur.

JR með 11 gullverðlaun á ÍM yngri 2022

Íslandsmeistaramót í yngri aldursflokkum fór fram laugardaginn 21. maí. Keppt var í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs og voru keppendur tæplega sextíu frá átta klúbbum. Keppnin var oft á tíðum jöfn og spennandi og fullt af flottum tilþrifum og glæsilegum ippon köstum. Þátttakendur frá JR voru tuttugu og fjórir og unnu þeir ellefu gullverðlaun, sjö silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun og er þeim hér óskað til hamingju frábæran árangur sem við hjá JR erum stoltir af. Keppt var á tveimur völlum og streymdi JSÍ frá mótinu. Hér má sjá glímurnar á velli 1. og velli 2. og hér er stutt videoklippa og úrslitin.