Á OTC í Mittersill

Stór hópur landsliðsmanna dvelur nú við æfingar í Mittersill í Austurríki. Þetta eru alþjóðlegar æfingabúðir og með þeim sterkustu sem haldnar eru ár hvert. Að venju eru allir bestu judomenn og konur heims á meðal þátttakenda. Þessar æfingabúðir koma sér vel í undirbúningi okkar manna fyrir Reykjavík Judo Open sem haldið verður í Laugardalshöllinni 26. janúar og að sjálfsögðu önnur verkefni sem fyrirhuguð eru í framhaldi af því eins og Grand Slam í París og Dusseldorf og svo Matsumae Cup í Danmörku. Hér neðar er mynd af þátttakendum okkar í Mittersill.

Aftari röð fv. Sveinbjörn, Hrafn, Úlfur, Árni, og Ægir og fremri röð fv. Alexander, Breki og Oddur

Byrjenda og framhaldsnámskeið 2019

Starfssemin hefst á ný á morgun 7. janúar samkvæmt stundaskrá. Ný byrjenda og framhaldsnámskeið eru að hefjast. Námskeiðin eru fyrir konur og karla og í aldursflokkum 8-10 ára, 11-14 ára og 15 ára og eldri. Helstu upplýsingar og skráningarform má finna hér. Myndirnar hér neðar eru frá starfinu og JR-ingum á æfingu og í keppni. Myndband á facebook.

Fyrsta æfing 2019

Það mættu tæplega þrjátíu manns í gær frá fjórum klúbbum á fyrstu æfingu ársins. Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru í lok æfingar. Næsta æfing verður á morgun kl. 18:30 og eru allir velkomnir.

Júdomenn ársins 2018

29.12.2018

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands veitir viðurkenningar til íþróttamanna sérsambanda ár hvert á sameiginlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í tengslum við kjör á Íþróttamanni ársins. Í gær fór afhendingin fram fyrir árið 2018 í Silfurbergi í Hörpu og þar fengu þau Ingunn Rut Sigurðardóttir (JR) og Sveinbjörn Jun Iura (JDÁ) sínar viðurkenningar.

Æfingar til áramóta

Það er komið jólafrí í öllum aldursflokkum nema 15 ára og eldri og verða æfingar á eftirtöldum dögum til áramóta.

Fimmtudaginn 20. des og föstudaginn 21. des kl. 18:30-20:00

Fimmtudaginn 27. des og föstudaginn 28. des. kl. 18:30-20:00

Fyrstu vikuna á nýju ári verða æfingar miðvikudaginn 2. jan og föstudaginn 4. jan. kl. 18:30-20:00

Reglulegar æfingar 2019 í öllum aldursflokkum hefjast svo aftur samkvæmt stundaskrá mánudaginn 7. jan. Nánar auglýst síðar.

Helena, gull, Matas, brons, Mikael í 4. sæti

Helena Bjarnadóttir náði glæsilegum árangri í dag á Open Twents Judo Championship. Hún sigraði í aldursflokknum U12 ára í +48 kg flokknum og fékk því gullverðlaunin. Hún glímdi mjög vel og sigraði örugglega. Matas Naudziunas vann einnig til verðlauna en hann fékk bronsið í sama aldursflokki í +57 kg. Mikael Máni Ísaksson glímdi einnig mjög vel í dag en hann vann nokkra glímur og keppti um bronsverðlaunin í U12 -42 kg flokknum og fór viðureign hans í dómaraúrskurð sem féll honum í óhag og voru þjálfarar okkar afar óhressir með þá niðustöðu en Mikael var mun sterkari aðilinn að þeirra mati og átti bronsið skilið. Emma Tekla og Aðalsteinn Karl unnu fyrstu viðureign en töpuðu næstu tveimur og komust ekki á verðlaunapall.  Elías Funi, Jónas Björn og Daron Karl töpuðu sínum viðureignum og það gerði reyndar Skarphéðinn Hjaltason einnig en hann keppti í U15 +66 kg flokknum.  Hann fékk tvær glímur og voru andstæðingar hans ekki af verri endanum því þeir urðu í öðru og þriðja sæti í flokknum síðar um daginn svo hann hefði getað verið heppnari með dráttinn. Þjálfarar okkar voru ekkert sérstaklega ánægðir með dómgæsluna í dag því þær sérreglur sem áttu að gilda á mótinu, ákveðnin brögð og aðferðir sem áttu að vera bönnuð í barnaflokkunum, var ekki fylgt eftir en það hafði verið sérstaklega brýnt fyrir okkar krökkum að fara eftir þeim og kom það því niður á þeim. Heilt yfir voru þeir þó ánægðir mótið og frammistöðu krakkana en mótið var gríðasterkt og eitt það sterkasta sem haldið er í þessum aldursflokkum og höfum við því háleitt markmið sem þarf að ná á næstu árum en það eru fleiri JR ingar á verðlaunapall á þessu móti.