Haustmót JSÍ 2018 – Yngri flokkar

Gullverðlaunahafar JR á Haustmóti JSÍ yngri flokka 2017

Haustmót JSÍ í yngri aldursflokkum þ.e. U21/U18/U15/U13 verður haldið í Grindavík laugardaginn 6. okt. næstkomandi, sjá nánar hér
Skráningarfrestur til miðnættis þriðjudagsins 2. okt.
Myndin er af Hákoni Garðarssyni, Kjartani Hreiðarssyni og Skarphéðni Hjaltsyni en þeir unnu allir gullverðlaun á Haustmótinu 2017.

Andlát

Sigurður H. Jóhannsson fyrrum formaður Judofélags Reykjavíkur lést Laugardaginn 15. september síðastliðinn 88 ára að aldri. Siguður var upphafsmaður og brautryðjandi að judo íþróttinni á Íslandi en það var hann sem kom með hugmyndina að byrja að æfa judo þegar hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956. Ásamt fyrrum hnefaleikamönnum Glímufélagsins Ármanns stofnaði Sigurður Judodeild Ármanns árið 1957 og var þjálfari deildarinnar en 1965 gékk hann úr Ármanni og stofnaði Judofélag Reykjavíkur ásamt nokkrum fyrrum Ármenningum. Sigurður fór bæði til Danmerkur og Englands til að nema judo og æfði meðal annars í elsta og þekkasta judoklúbbi Evrópu, Budokwai í London. Þar kynntist hann mörgum af bestu judomönnum heims á þeim tíma sem að margir hverjir fyrir tilstuðlan hans heimsóttu Ísland og leiðbeindu og aðstoðuðu við uppbyggingu íþróttarinnar á Íslandi. Sigurður var ekki bara þjálfari hjá JR hann var einnig formaður félagsins fyrstu árin og kom því einnig mikið að félagsmálum.

Sigurður sem var 4. dan var sæmdur gullmerki Judosambands Íslands árið 2003 og gerður að heiðursformanni JSÍ 2015.

Judomenn þakka Sigurði H. Jóhannssyni að leiðarlokum hans ómetanlega starf og áralanga samveru og kveðja vin og félaga með söknuði og virðingu og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Útför Sigurðar fer fram í Fossvogskirkju, föstudaginn 5. október kl. 15.

Sigurður H. Jóhannsson heiðursformaður JSÍ

Egill tapaði fyrir verðandi heimsmeistara

Egill Blöndal keppti í 90 kg flokknum í morgun á heimsmeistaramótinu í Baku og mætti þar Qaisar Khan (PAK). Egill var vel stemmdur og stjórnaði þeirri viðureign frá upphafi og eftir umþað bil eina og hálfa mínútu var hann búinn að sigra Qaisar en hann sótti inn í bragð sem misheppnaðist og lentu þeir í gólfglímu sem að Egill vann vel úr og komst í fastatak sem að Quaisar náði að losa sig úr á síðustu stundu en Egill var ekki búinn því hann sleppti ekki takinu á andstæðingi sínum og hélt áfram að vinna í gólfinu og náði armlás á Qaisar sem að gafst þá upp. Næsti andstæðingur Egils var Nikoloz Sherazadishvili (ESP) sem er í þriðja sæti heimslistans. Þar mætti Egill ofjarli sínum líkt og Sveinbjörn í gær og tapaði hann þeirri viðureign eftir tæpar tvær mínútur og er fallin úr keppni en Nikoloz varð heimsmeistari síðar um daginn eins og annar andstæðingur Sveinbjörns í -81 kg flokknum. Keppni Íslendinga á HM er lokið að þessu sinni.

Sveinbjörn komst í þriðju umferð á HM

Sveinbjörn Iura keppti í morgun í 81 kg flokknum á heimsmeistaramótinu í Baku og mætti þar Cedrick Kalonga (COD) í annari umferð en þeir sátu báðir hjá í fyrstu. Cedrick fékk snemma í glímunni refsistig fyrir stöðuga vörn en skoraði þó skömmu síðar wazaari þegar hann sótti óvænt í vinstra seoinage sem Sveinbirni tókst ekki að verjast. Eftir það tók Sveinbjörn alla stjórn á vellinum og sótti stíft en náði þó ekki að skora. Ekki munaði samt miklu í eitt skiptið þegar Sveinbjörn tók Tai-otoshi á Cedrick sem féll á hliðina en ekkert var gefið fyrir það. Sveinbjörn átti einnig ágætis tækifæri í gólfglímunni og ekki langt frá því að komast í fastatak en Cedrick slapp í öll skiptin með skrekkinn. Cedrick var orðin þreyttur og ekki leið á löngu þar til hann fékk næsta refsistig og nú fyrir ólögleg handtök og skömmu áður en tíminn rann út fékk hann sitt þriðja refsistig fyrir gervisókn “false attack” og var þar með búinn að tapa glímunni. Sveinbjörn féll úr keppni er hann tapaði næstu viðureign í þriðju umferð en þar mætti hann ofjarli sínum er hann lenti á móti efsta manni heimslistans, Saeid Mollaei (IRI) sem síðar um daginn varð heimsmeistari í flokknum.  

Sveinbjörn og Saeid Mollaei