Gull, silfur og brons á NM 2019

Norðurlandamótinu 2019 í Finnlandi lauk í dag og stóðu okkar menn sig misvel eins og gengur en bestum árangri náðu þeir Árni Pétur Lund, Daníel Dagur Árnason og Guðmundur Stefán Gunnarsson en þeir unnu samtals til fernra verðlauna. Í gær var keppt í U18 og seniora flokkum karla og kvenna. Því miður gekk okkar mönnum í U18 ekki nógu vel og komust ekki á pall. Guðmundur S. Gunnarsson stóð sig flott og tók bronsverðlaunin í +100 kg flokki karla en óhætt að segja að Árni Lund hafi verið maður dagsins er hann sigraði sextán manna -81 kg flokk karla með algjörum yfirburðum og glímdi aðeins í umþað bil tvær mínútur í fjórum viðureignum og náði sínum fyrsta Norðurlandameistaratitli í karlaflokki. Í dag sunnudag var keppt í Veterans flokkum, U21 árs flokkum og liðakeppni. Guðmundur Stefán Gunnarsson keppti í Veterans flokki 40-49 ára í +100 kg og sigraði örugglega og tók gullið og sín önnur verðlaun á mótinu, vel gert hjá honum. Fastlega var búist við því að Árni Lund myndi landa öðrum titli og nú í U21 árs -81 kg flokki en það gekk ekki eins vel í dag og í gær. Hann vann þó tvær viðureignir en tapaði tveimur og endaði í sjöunda sæti. Það má þó segja að sigur hafi verið tekinn af honum annari viðureign og jafnvel titill því hann var mun betri aðilinn í þeirri glímu og var yfir. Hann reyndi þegar um tvær mínútur voru eftir, Ippon seoinage sem andstæðingur hans náði að verjast og komst í mótbragð og skoraði gegn Árna og hefði hann alveg mátt fá wazaari fyrir það en ekki ippon þar sem Árni lendir á hliðinni. Dómnum var mótmælt við eftirlitsdómara og óskað eftir að upptaka dómarakerfisins yrði skoðuð eins og venja er þegar vafamál koma upp en þá sögðust þeir ekki hafa upptökuna og sögðu að ekkert væri hægt að gera og niðurstaða eins dómara sem var illa staðsettur á vellinum stæði. Þetta var afar súrt og tók örugglega bitið úr Árna því að vonin um önnur gullverðlaun var búin. Svipað atvik átti sér stað í brons glímunni hans Ingólfs Rögnavaldssonar í U21 árs -66 kg en hann var búinn að standa sig feyki vel og sigra þrjár viðureignir og tapa einni og keppti því um bronsverðlaunin. Þar varð hann fyrir því að honum er kastað og hann lendir nánast á maganum og ekkert skor ætti að vera gefið fyrir það en dómarinn dæmdi skor og það var látið standa þrátt fyrir mótmæli og Ingólfur tapaði bronsviðureigninni og endaði því í fimmta sæti. Daníel Dagur Árnason vann sín fyrstu verðlaun á Norðurlandamóti er hann tók bronsverðlaunin í U21 árs flokki -55 kg en aðrir keppendur okkar komust ekki á pall en voru samt að vinna eina til þrjár viðureignir hver. Í liðakeppninni varð Ísland í öðru sæti á eftir Finnum en hér eru öll úrslitin.