Sveinbjörn keppir á morgun á EM í Minsk.

Evrópuleikarnir eru haldnir í Minsk þessa dagana og hefst Evrópumeistaramótið í júdo nú um helgina. Við erum því miður aðeins með einn keppanda að þessu sinni á meðal 393 þátttakanda. Staða Sveinbjörns Iura á heimslistanum í -81 kg flokknum gaf honum keppnisrétt en hann var í 31 sæti af 38 keppenda kvóta. Egill Blöndal stefndi einnig á þátttöku í -90kg flokknum þar sem kvótinn var 35 keppendur en þar sem hann var það lengi frá keppni vegna meiðsla gékk það ekki upp. Dregið var í gær og hófst keppnin í dag laugardag í kvennna flokkum -48kg, -52kg, -57kg og karlaflokkum -60kg, -66kg. Á sunnudaginn verður keppt í -63kg og -70kg flokkum kvenna og -73kg og -81kg flokkum karla. Á mánudaginn verður svo keppt í -78kg og +78kg kvenna og í -90kg, -100kg, +100kg flokkum karla og á þriðjudag verður liðakeppnin. Sveinbjörn keppir á morgun í –81 kg flokknum og er óhætt að segja að hann hefði getað verið heppnari með dráttinn en hann mætir Ivaylo Ivanov frá Búlgaríu sem er í tólfta sæti heimslistans, silfur og gullverðlaunahafi á Grand Slam og Grand Prix mótum 2018 og 2019. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 7:30 að íslenskum tíma. Keppnisröðin er hér en Sveinbjörn á tuttugustu viðureign á velli þrjú sem ætti að vera um kl. 8:40. Faðir Sveinbjörns, Yoshihiko Iura er honum til aðstoðar.

Glæsileg frammistaða í Luxembourg

Þá er fimmta Challenge International de la Ville de Differdange mótinu lokið í Luxembourg. Keppendur, þjálfarar og foreldrar alls tuttugu og tveir aðilar flugu til Brussel og keyrðu þaðan í bílaleigubílum til Luxemborgar og eru væntanleg aftur heim á morgun. JR- ingar voru með tíu keppendur og unnu þeir til fimm verðlauna, fjögur gull og eitt brons og urðu einnig í fjórða til fimmta sæti í nokkrum flokkum. Glæsileg frammistaða það. Emma Thueringer og Orri Helgason unnu gullverðlaun í U11, Helena Bjarnadóttir og Matas Naudziunas unnu gullverðlaun í U13 og Daniele Kucyte vann bronsverðlaunin í U15 ára. Þau Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson, Romans Psenicnijs, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson stóðu sig einnig mjög vel og unnu nokkrar viðureignir en það dugði þeim þó ekki til verðlauna. Marija Dragic Skúlason dæmdi á mótinu og stóð sig vel og fékk þar dýrmæta reynslu sem mun nýtast henni í dómgæslu hér heima. Þjálfarar JR þeir Guðmundur B. Jónasson, Þormóður Árni Jónsson og Bjarni Skúlason eiga hrós skilið fyrir frammistöðu barnanna en þeir hafa sinnt þjálfun þeirra af ótrúlega mikilli elju og áhuga. Foreldrum barnanna skal einnig hrósað en þeir hafa verið mjög virkir og tekið þátt í starfinu hér heima með ýmsum hætti og einnig þegar þeir hafa haft tök á fylgt keppendum á erlend mót og aðstoðað þjálfarana við að halda utan um hópinn og eiga þeir þakkir skildar fyrir það. Til hamingju með árangurinn.

Keppa í Luxembourg um helgina

Fjölmennt lið úr yngsta aldursflokki JR lagði af stað í dag til Luxemborgar. Þar munu þau keppa á alþjóðlegu móti sem haldið verður á morgun, laugardaginn 8. júní í Differdange. Þau kepptu á þessu móti í fyrsta skipti í fyrra og náðu þá glæsilegum árangri en þá unnu þau fimm gullverðlaun í aldursflokki U11 ára. Mótið heitir Challenge International  de la Villa Differdange og er fyrir bæði kynin í aldursflokkum U9 – U11 – U13 – U15 og U18. Við keppum í  aldursflokkum U11, U13 og núna einnig í U15. Í fyrra vorum við með sex keppendur en í ár verða þeir tíu og þeim fylgja  þjálfarar og foreldrar en hópurinn telur alls tuttugu og tvo aðila. Keppendur okkar í U11 eru þau Emma Thueringer og Orri Helgason, í U13 eru þau Helena Bjarnadóttir, Elías Þormóðsson, Jónas Guðmundsson, Matas Naudziunas og Romans Psenicnijs og í U15 þau Daniele Kucyte, Daron Hancock og Aðalsteinn Björnsson. Því miður komust þau Weronika Komendera og Mikael Ísaksson ekki með að þessu sinni en þau voru með í fyrra. Þetta er í fimmta sinn sem þetta mót er haldið og hefur keppendum og þátttökuþjóðum fjölgað verulega frá því að það var fyrst haldið2015 en þá voru keppendur 107 frá þremur þjóðum (LUX, FRA, GER) og keppt á tveimur völlum. Í fyrra var keppt á fjórum völlum og þátttökuþjóðirnar orðnar tíu og keppendur vel yfir þrjúhundruð. 

Þjálfarar og keppendur á síðustu æfingu fyrir Lux. á myndina vantar Orra og Romans.

Keppni lokið á Smáþjóðaleikunum

Þá er keppni lokið á Smáþjóðaleikunum að þessu sinni og unnum við til fernra verðlauna, eitt silfur og þrjú brons en það voru þeir Alexander Heiðarsson -60 kg, Árni Pétur Lund -81 kg og Þór Davíðsson -100 kg sem unnu til bronsverðlauna en Egill Blöndal -90 kg vann silfurverðlaunin. Breki Bernhardsson -73 kg keppti um bronsverðlaunin en tapaði þeirri viðureign og varð í fimmta sæti og í liðakeppninni urðu bæði karla og kvennaliðin í fimmta sæti. Hér eru öll úrslitin í einstaklingskeppninni og liðakeppninnni.

Liðakeppnin í dag á GSSE 2019

Liðakeppnin fer fram í dag á Smáþjóðaleikunum og er hægt að fylgjast með framvindu keppninnar hér. Eins og staðan er núna þá hefur kvennasveitin lokið keppni og endaði hún í fimmta sæti. Sveitir Íslands, Andorra og Luxemborg voru með jafn marga vinninga en fjöldi einstaklingsvinninga og innbyrðis viðureignir réði endanlegri niðurröðun. Síðar í dag keppa svo til úrslita sveitir Monako og Kýpur í kvennasveitum en í karlasveitum keppa til úrslita Svartfjallaland og Kýpur og um bronsverðlaunin keppa annarsvegar sveitir Andorra og Liechtenstein og hinsvegar sveit Íslands gegn Luxemborg.

Eitt silfur og þrjú brons á GSSE í dag

Þá er keppni lokið á GSSE 2019 í einstaklingskeppninni og unnum við til fernra verðlauna, eitt silfur og þrjú brons en það voru þeir Alexander Heiðarsson, Árni Lund og Þór Davíðsson sem unnu til bronsverðlauna en Egill Blöndal komst lengst okkar manna en hann vann silfurverðlaunin. Egill glímdi til úrslita í -90 kg flokki við Schwendinger frá Lichtenstein. Egill skoraði snemma í glímunni og var sókndjarfur alla glímuna og leiddi. Þegar 24 sekúndur voru eftir jafnaði andstæðingur hans og fór glíman í gull skor. Því miður bar andstæðingur hans sigur úr bítum eftir að hafa skorað wazaari. Breki Bernharðsson glímdi um bronsverðlaunin í -73 kg flokki á móti Cedric Bessi frá Mónakó. Breki leiddi glímuna og var kominn wazaari yfir og glímdi vel og allt stemmdi í sigur. En undirlokinn var hann óheppinn og hleypti Mónakó manninum og of nálægt sér sem nýtti það og kastaði honum á O sota gari og tapaði Breki þar með glímunni og endaði í 5. sæti. Árni Pétur Lund glímdi um bronsverðlaunin í -81 kg flokki við andstæðing frá Möltu sem heitir Camillieri. Árni glímdi vel og stjórnaði glímunni en var óvænt kastað en ekki á ippon og náði hann að vinna sig í fastatak þar sem hann hélt Möltu manninum og vann sigur og þar með bronsverðlaunin. Þór Davíðsson glímdi í – 100 kg flokknum við Bezzina frá Möltu og var það hörkuglíma og mjög jöfn. Andstæðingur Þórs var komin með 2 shido en Þór eitt. Í miðri glímu skoraði andstæðingur hans wazaari og Þór þá kominn undir í glímunni. Þegar um 20 sekúndur voru eftir af glímunni fór Þór í gólfið með andstæðing sinn og náði að snúa honum á síðustu sekúndu glímunar og hélt honum þar til hann sigraði og bronsið var hans. Alexander Heiðarsson og Dofri Bragason mættust í bronsglímum í -60 kg flokki sem endaði með sigri Alexanders. Aðrir keppendur stóðu sig með sóma en komust ekki á pall að þessu sinni. Nú verður hvílt í einn dag og svo keppt í liðakeppninni á fimmtudaginn.

Smáþjóðaleikarnir 2019

Það eru ellefu keppendur í júdo frá Íslandi sem keppa í dag á Smáþjóðaleikunum sem haldnir eru í Budva í Svartfjallalandi. Keppendur okkar eru Ingunn Sigurðardóttir -70, Ásta Arnórsdóttir -63, Alexander Heiðarsson -60, Dofri Bragason -60, Ingólfur Rögnvaldsson -66, Breki Bernhardsson -73, Gísli Egilson -73, Árni Lund -81, Egill Blöndal -90, Ægir Valsson -90 og Þór Davíðsson -100. Þjálfari er Jón Þór Þórarinsson, aðstoðarþjálfari er Logi Haraldsson og farastjóri Birgir Ómarsson. Í dag verður keppt í einstaklingskeppninni en liðakeppnin verður svo á fimmtudaginn. Því miður er ekki bein útsending frá mótinu en hægt er að fylgjast með framvindu keppninnar hér og hér. Fylgist einnig með JSÍ Instagram sem verður í gangi á mótinu.

Sveinbjörn féll úr keppni í Kína

Því miður tapaði Sveinbjörn Iura viðureigninni á Grand Prix Hohhot í Kína gegn Rigaqi Nai.  Sveinbjörn byrjaði mjög vel og skoraði fljótlega wazaari. Hann virkaði sterkari aðilinn og stjórnaði glímunni en einhvernveginn þá tókst honum ekki að halda einbeitingunni og Rigaqi skoraði líka wazaari og jafnaði viðureignina og skoraði síðan aftur wazaari með seoinage kasti og var þar með búinn að sigra. Sveinbjörn heldur aftur til Japans og mun æfa þar fram í miðjan júní og kemur þá heim en hann mun taka þátt í Evrópuleikunum í Minsk 22-25 júní.

Sveinbjörn keppir á Grand Prix í Kína

Sveinbjörn Iura sem nú er staddur í Japan við æfingar mun taka þátt í Hohhot Grand Prix sem haldið er í Kína en mótið hófst í dag og stendur í þrjá daga og keppir Sveinbjörn á morgun laugardaginn 25. maí. Keppendur eru frá 43 þjóðum 159 karlar og 142 konur eða alls 301 keppandi. Búið er að draga og á Sveinbjörn þriðju viðureign í 81 kg flokknum  á velli 1 og mætir hann Rigaqi Nai frá Kína en hér er keppnisröðin. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst 10 að morgni í Kína sem er kl. 2:00 eftir miðnætti í kvöld að okkar tíma en þeir eru 8 tímum á undan okkur.

Frá Baku 2018

Gull, silfur og brons á NM 2019

Norðurlandamótinu 2019 í Finnlandi lauk í dag og stóðu okkar menn sig misvel eins og gengur en bestum árangri náðu þeir Árni Pétur Lund, Daníel Dagur Árnason og Guðmundur Stefán Gunnarsson en þeir unnu samtals til fernra verðlauna. Í gær var keppt í U18 og seniora flokkum karla og kvenna. Því miður gekk okkar mönnum í U18 ekki nógu vel og komust ekki á pall. Guðmundur S. Gunnarsson stóð sig flott og tók bronsverðlaunin í +100 kg flokki karla en óhætt að segja að Árni Lund hafi verið maður dagsins er hann sigraði sextán manna -81 kg flokk karla með algjörum yfirburðum og glímdi aðeins í umþað bil tvær mínútur í fjórum viðureignum og náði sínum fyrsta Norðurlandameistaratitli í karlaflokki. Í dag sunnudag var keppt í Veterans flokkum, U21 árs flokkum og liðakeppni. Guðmundur Stefán Gunnarsson keppti í Veterans flokki 40-49 ára í +100 kg og sigraði örugglega og tók gullið og sín önnur verðlaun á mótinu, vel gert hjá honum. Fastlega var búist við því að Árni Lund myndi landa öðrum titli og nú í U21 árs -81 kg flokki en það gekk ekki eins vel í dag og í gær. Hann vann þó tvær viðureignir en tapaði tveimur og endaði í sjöunda sæti. Það má þó segja að sigur hafi verið tekinn af honum annari viðureign og jafnvel titill því hann var mun betri aðilinn í þeirri glímu og var yfir. Hann reyndi þegar um tvær mínútur voru eftir, Ippon seoinage sem andstæðingur hans náði að verjast og komst í mótbragð og skoraði gegn Árna og hefði hann alveg mátt fá wazaari fyrir það en ekki ippon þar sem Árni lendir á hliðinni. Dómnum var mótmælt við eftirlitsdómara og óskað eftir að upptaka dómarakerfisins yrði skoðuð eins og venja er þegar vafamál koma upp en þá sögðust þeir ekki hafa upptökuna og sögðu að ekkert væri hægt að gera og niðurstaða eins dómara sem var illa staðsettur á vellinum stæði. Þetta var afar súrt og tók örugglega bitið úr Árna því að vonin um önnur gullverðlaun var búin. Svipað atvik átti sér stað í brons glímunni hans Ingólfs Rögnavaldssonar í U21 árs -66 kg en hann var búinn að standa sig feyki vel og sigra þrjár viðureignir og tapa einni og keppti því um bronsverðlaunin. Þar varð hann fyrir því að honum er kastað og hann lendir nánast á maganum og ekkert skor ætti að vera gefið fyrir það en dómarinn dæmdi skor og það var látið standa þrátt fyrir mótmæli og Ingólfur tapaði bronsviðureigninni og endaði því í fimmta sæti. Daníel Dagur Árnason vann sín fyrstu verðlaun á Norðurlandamóti er hann tók bronsverðlaunin í U21 árs flokki -55 kg en aðrir keppendur okkar komust ekki á pall en voru samt að vinna eina til þrjár viðureignir hver. Í liðakeppninni varð Ísland í öðru sæti á eftir Finnum en hér eru öll úrslitin.