Keppa á EYOF 2023

Í kvöld halda af stað til Slóveníu þeir Daron Hancock og Mikael Ísaksson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og taka þar þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) sem fer fram í Maribor 23.-29. júlí næstkomandi en keppnin er fyrir evrópsk ungmenni á aldrinum 14 -18 ára. Judokeppnin fer fram dagana 25-28 júlí og keppa þeir báðir 27. júlí og hefst keppnin þá kl. 8 að morgni á okkar tíma. Daron keppir í -73 kg flokki þar sem keppendur eru 23 og á hann 12 glímu á velli 2 og Mikael keppir í -81 kg flokki þar sem keppendur eru 26 og á hann 2 glímu og einnig á velli 2. Nánari upplýsingar má finna hér hjá EJU og hér hjá IJF og fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á JudoTV.

Sumarfrí hjá JR

Á morgun hefst sumarfrí hjá JR og verða því engar skipulagðar judoæfingar fyrr en starfsemin hefst aftur 21. ágúst nema hjá æfingahópnum Gólfglíma 30+ þeir þurfa ekki á fríi að halda 🙂

Úrslit Paks Junior European Cup 2023

Helgina 8-9 júlí var Paks Junior European Cup 2023 haldið í Ungverjalandi og voru fjórir þátttakendur frá Íslandi á meðal keppenda. Það voru þeir Kjartan HreiðarssonDaron HancockMikael Ísaksson og Skarðhéðinn Hjaltason og með var Zaza Simonishvili landliðsþjálfari. Þessi European Cup mót eru gríðalega sterk og fjölmenn en í Paks voru 26 þjóðir og tæplega 400 keppendur og eru þau líkast til sterkustu mót sem haldin eru í þessum aldursflokki. Því miður komust okkar menn ekki áfram að þessu sinni en þeir fá keppnisreynslu sem nýtist þeim seinna meir. Í síðasta mánuði kepptu þeir á EC í Birmingham og tóku svo þátt í tveggja daga æfingabúðum og það gera þeir einning núna og koma svo heim á miðvikudag reynslunni ríkari eftir að hafa keppt og æft með mörgum af bestu judomönnum heims. Til þess að komast í fremstu röð og vera meðal þeirra bestu þá þarf að sækja reglulega æfingabúðir og sterk mót og taka tapi með jákvæðu hugarfari og læra af reynslunni og þá kemur að því að hlutirnir fara að snúast við og vinningar fara að hlaðast inn og sigrar á mótum ekki lengur fjarlægur draumur. Hér eru upplýsingar um mótið úrslit, video og fleira og einnig er hægt að finna allar upplýsingar um keppnina á vef IJF.

PAKS JUNIOR EUROPEAN CUP 2023

Um næstu helgi þ.e. dagana 8-9 júlí munu fjórir keppendur frá Íslandi taka þátt í Paks Junior European Cup 2023 í Ungverjalandi. Það eru þeir Kjartan Hreiðarsson og Daron Hancock sem keppa á laugardaginn í -73 kg flokki og Mikael Ísaksson í -81 kg flokki og Skarðhéðinn Hjaltason í -90 kg flokki sem keppa á sunnudaginn og með þeim í för er Zaza Simonishvili landliðsþjálfari. Keppnin hefst báða dagana kl. 7 að morgni að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Einnig er hægt að finna allar upplýsingar um keppnina, úrslit og fleira á vef IJF. Að lokinni keppni taka við tveggja daga æfingabúðir hjá strákunum.

Síðasta æfingin Lisu hjá JR í bili

Síðastliðna sex mánuði hefur Lisa Margarete Naeve frá Þýskalandi æft hjá JR en hún kom hingað til lands í janúar til að vinna og hefur síðan þá æft nánast daglega með okkur. Lisa er mjög öflug judokona en hún keppti á Reykjavik Judo Open (RIG) í janúar og vann til tvennra verðlauna en hún vann silfurverðlaun í -57 kg flokki og bronsverðlaun í opnum flokki. Það hefur verið frábært að hafa hana í klúbbnum og hún verið mikil lyftistöng og hvatning fyrir aðra iðkendur. Því miður er dvöl hennar hér á landi lokið í bili og er hún farin heim til Þýskalands en við vonumst samt til að sjá hana aftur á æfingu hjá okkur einhvern daginn eða kanski á næsta RIG. Takk fyrir heimsóknina Lisa.

Daníela kominn með 1. dan.

Daníela Rut Daníelsdóttir tók gráðuna 1. dan í dag og stóðst það með glæsibrag. Uke hjá henni var Lisa Margarete Naeve sem hefur æft í JR frá síðustu áramótum. Daníela uppfyllti skilyrði til prófs fyrir nokkrum árum síðan og átti þá að taka það þá en þurfti og hefur þurft að fresta því vegna meiðsla þar til nú.

Daníela Rut og Lisa Margarete

Úrslit EC Juniora Birmingham

Því miður tókst okkur mönnum ekki vel upp á mótinu Birmingham Junior European Cup) en þeir töpuðu allir fyrstu glímu en þó eftir mislangan tíma og voru þar með fallnir úr keppni nema Daron en hann fékk uppreisnarglímu (sem hann tapaði) þar sem að andstæðingur hans í fyrstu glímu komst í átta manna úrslit. Allir sem tapa fyrir þeim sem komast í átta manna úrslit eða lengra fá uppreisnarglímu og ef þeir vinna þá glímu halda þeir áfram en annars eru þeir endanlega fallnir úr keppni. Þó svo að ekki hafi gengið sem skyldi eru drengirnir þó reynslunni ríkari og munu taka þátt í tveggja daga æfingabúðum áður en lagt verður af stað heim.

Keppni lokið á EM Cadett

Evrópumeistaramót 2023 í Cadett aldursflokki (15-17 ára) var haldið í Portugal dagana 22. til 24. júlí og var Arnar Arnarsson frá Selfossi á meðal keppenda og með honum í för var Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Arnar keppti í -90 kg flokki og mætti Emil Jabiyev frá Svíþjóð sem er í 37 sæti heimslistans og varð Arnar að lúta í lægra haldi gegn honum. Þar sem að Emil tapaði næstu viðureign þá var ekki lengur möguleiki á uppreisnarglímu fyrir Arnar og þátttöku hans þar með lokið. Hægt er að kaupa áskrift að JudoTv en þar er hægt að sjá allar glímur mótsins og fjölda annara móta.

EM Cadett Portugal 2023

Helena Bjarna að flytja til Serbíu

Helena Bjarnadóttir sem hefur æft og keppt fyrir JR frá því hún var barn og unnið til fjölda verðlauna mun flytja ásamt foreldrum sínum til Serbíu á næstu dögum og vera þar um einhver ókomin ár en móðir hennar hún Marija er þaðan. Helena mun æfa þar og keppa en stefnir jafnframt á að taka þátt í helstu mótum á Íslandi eins og RIG og ÍM en hún á titil að verja en hún varð Íslandsmeistari 2023 í seniora flokki bæði í -70 kg og opnum flokki. Við óskum Helenu og foreldrum hennar þeim Bjarna og Mariju alls hins besta og að þeim muni farnast vel á nýjum stað en þeirra verður sárt saknað í JR. Hér neðar eru nokkrar myndir frá ýmsum tímum.