Reykjavíkurmótið 2023 – Úrslit

Reykjavíkurmeistaramótið 2023 sem var í umsjón JR var haldið föstudaginn 10. nóvember en mótið var fært fram um einn dag. Keppendur eru eingöngu frá Reykjavíkurfélögunum þremur, Judofélagi Reykjavíkur, Judodeild ÍR og Judodeild Ármanns en því miður var þátttaka annara klúbba en JR nánast engin og er það áhyggjuefni hvernig á því stendur. Keppt var í eftirfarandi fimm aldursflokkum, U15, U18, U21, senioraflokki karla og Veteransflokki karla og voru keppendur alls þrjátíu og einn. Vegna veikinda var töluvert um að keppendur afboðuðu sig sem varð til þess að aldursflokkar U13 og U15 voru sameinaðir og stúlkum og drengjum blandað saman í flokka. Einnig voru þyngdarflokkum blandað saman í eldri aldursflokkum. Viðureignirnar voru margar hverjar mjög jafnar og spennandi og enduðu alloft í gullskori. Dómarar voru þeir Arnar Jónsson (UMFG), Ármann Sveinsson (UMFG) og Björn Sigurðarson (Ármanni) og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir dómgæsluna. Hér eru úrslitin og myndir frá mótinu og videoklippa.