Kepptu í Bratislava

Ægir Valsson og Egill Blöndal kepptu á European Senior Judo Cup í Bratislava í dag. Báðir keppptu þeir í -90 kg flokki þar sem keppendur voru alls þrjátíu og einn. Ægir mætti Ihor Knysh frá Úkraníu og byrjaði sú viðureign vel hjá Ægi en hann virkaði sterkari aðilinn fyrstu tvær mínúturnar en í einni sókninni hjá Ihor þá flækstust fingur Ægis í búningi hans og fór einn fingur Ægis úr lið en small strax í aftur en það var nóg til þess að Ægir gaf glímuna og var þar með dottinnn úr keppninni sem var algjör synd því hann virtist til alls líklegur.
Egill Blöndal mætti Jorda Kouros frá Ástralíu, Egill var mun sterkari aðilinn og sigraði örugglega með fastataki þegar um ein og hálf mínúta var eftir en hafði þá áður skorað wazaari. Í annari umferð mætti hann Radim Knapek frá Tékklandi. Egill byrjaði vel og var ekki langt frá því að sigra hann með armlás en Tékkinn rétt slapp. Eftir það var Tékkinn varari um sig en hann var með lúmskt vinstra makkikomi sem Egill réði ekki við og náði hann Agli á ippon þegar um þrjátíu sekúndur voru eftir af viðureigninni en var reyndar búinn að skora tvívegis áður með sama bragði. Þar með var Egill fallinn úr keppninni eins og Ægir því það eru engar uppreisnarviðureignir nema menn komist í átta manna úrslit.