Það voru fimmtán þátttakendur frá Judofélagi Reykjavíkur sem kepptu á Reykjavík Judo Open sem haldið var 30. jan. 2021 í Laugardalshöllinni og þar af voru sex þeirra á aldrinum 15-16 ára að keppa á sínu fyrsta senioramóti og stóðu þeir sig frábærlega. JR-ingar unnu fimm gullverðlaun, þrenn silfurverðlauna og þrenn bronsverðlaun.
Viðureignirnar á mótinu voru flestar bæði spennandi og skemmtilegar og auk þess enduðu margar þeirra á fallegu og hreinu ippon kasti. Eitt flottasta og best útfærða kastið er þó líkast til í úrslitaviðureigninni í +100 kg flokki á milli þeirra Bjarna Skúlasonar og Karls Stefánssonar en þar er Bjarni með frábæra tímasetningu (RUV spilari, tími 01.03) þegar hann fer eldsnöggt inn í tai-otoshi og Karl liggur á bakinu eins og hendi væri veifað og Bjarni skorar ippon.
Eins og áður sagði voru flestar viðureignirnar spennandi og skemmtilegar og væri hægt að tilgreina margar en viðureign þeirra Sveinbjörns Iura og Árna Lund í -81 kg flokki var sú viðureign sem beðið var eftir. Þeir félagar hafa æft mikið saman og gjörþekkja hvorn annan og var viðureignin hnífjöfn frá uppphafi til enda. Þegar venjulegum keppnistíma lauk hafði hvorgur skorað en Sveinbjörn var með eitt refsistig en Árni tvö og mátti hann ekki fá það þriðja því þá myndi hann tapa viðureigninni. Í framlengingu (gullskori) pressar Sveinbjörn á Árna þannig að hætta er á að hann stígi út fyrir keppnissvæðið sem má ekki en við það gæti hann fengið sitt þriðja refsistig en Árni var klókur og þegar Sveinbjörn pressaði þá sneri hann sér snöggt inn í seoi-nage og Sveinbjörn sveif yfir hann og Árni fékk waza-ari fyrr kastið og gullverðlaunin voru hans. (RUV spilari, tími 01.22)
Sigurvegarar í öðrum flokkum unnu nokkuð örugglega, Daníel Árnason í -60 kg flokki og Ingólfur Rögnvaldsson í -66 kg flokki unnu viðureignir sínar á ippon og það gerði Kjartan Hreiðarsson einnig í -73 kg flokki en hann mætti gríða einbeittur til leiks, Egill Blöndal -90 kg var eins og kóngur í ríki sínu og sigraði með yfirburðum sem og Ingunn Rut Sigurðardóttir gerði í -70 kg flokki. Í mótslok vor Ingunn Rut Sigurðardóttir og Árni Pétur Lund valin judokona og maður mótsins.
Þetta var í níunda skiptið sem JSÍ stóð að þessu móti í samvinnu við ÍBR og hafa erlendir þátttakendur jafnan verið fjölmennir fram að þessu og á meðal þeirra Ólympíu og heimsmeistarar en í ár var því miður lítið um þá vegna Covid-19 en flestir okkar sterkustu keppendum vor þó með. Judosamband Íslands gaf þó engan afslátt af framkvæmd mótsins og umgjörðin hefur líklega aldrei verið flottari. Nýr glæsilegur keppnisvöllur var vígður, streymt var frá öllu mótinu á youtube og RÚV var með beina útsendingu frá úrslitum. Fjöldi sjálfboðaliða stóð vaktina og allar stöður voru vel mannaðar eins og dómarar, mótsstjórn, tíma og stigaverðir, gæslumenn og sóttvarnarfulltrúar svo eitthvað sé nefnt. Vel gert JSÍ.
Úrslit: 2013, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018, 2019, 2020, 2021