Haustmót JSÍ 2021 – JR með níu gull

Haustmóti JSÍ í öllum aldursflokkum (U13/U15/U18/U21 árs og senioraflokkum) fór fram í gær laugardaginn 2. október. Þátttakendur voru fjörtíu og átta frá átta klúbbum. Judofélag Reykjavíkur var með um helming keppenda eða tuttugu og fjóra sem stóðu sig vel og unnu níu gullverðlaun, átta silfur og sex bronsverðlaun. Margir okkar keppenda voru að keppa í fyrsta skipti og stóðu sig frábærlega sem og hinir sem meiri reynslu hafa. Ánægjulegt var að sjá hversu miklum framförum margir okkar keppenda eru að taka eins og t.d. Alli Kalli, Nökkvi, Daron, Helena og Weronika svo einhver nöfn séu nefnd en fleiri mætti nefna. Nokkrir af okkar sterkustu keppendum gátu ekki verið með að þessu sinni eins og Árni Lund, Zaza Simonishvili og Andri Fannar og þeir Kjartan Hreiðars og Ingólfur Rögnvalds voru lagðir af stað til Ítalíu til að taka þátt í heimsmeistaramóti U21 árs sem haldið verður í vikunni. Þeir Eyjólfur Orri (karlar -90) og Garðar Sigurðsson (karlar -81) létu sig hinsvegar ekki vanta þrátt fyrir að vera eitthvað eldri en andstæðingarnir en þeir æfa vel og eru í fínu formi og eiga heiður skilið fyrir þátttökuna. Hermann Unnarsson sem ekki hefur keppt í mörg ár ákvað að taka þátt og þrátt fyrir mikla keppnisreynslu þá dugði það ekki til því æfingaleysið setti strik í reikninginn og Jakub frá Selfossi sigraði 81 kg flokk karla en hann hafði einnig sigrað sama flokk í U21 árs. Daníel úr JRB átti góðan dag og vann einnig tvöfalt er hann sigraði 66 kg flokkinn í U21 og karlaflokk. Hannes úr KA sem keppti í U21 -81 kg meiddist því miður og ákvað að hætta keppni en var þá búnn að sigra allar sínar viðureignir og átti aðeins eina eftir. Það varð til þess að allar hans glímur þurkuðust út og aðrir færðust til í flokknum en vegna rangs innsláttar í tölvu voru röng úrslit tilkynnt á mótinu en það hefur verið leiðrétt. Mikið var af spennandi og flottum viðureignum sem oft enduðu með fallegu ippon kasti eða þá með uppgjöf í gólfglímunni og var gaman að sjá hversu snjallir og útsjónarsamir margir eru orðnir þar. Hægt er að sjá flestar glímurnar á YouTube en hér eru úrslitin og hér neðar myndir af verðlaunahöfum. Fleiri myndir og video munu birtast á judo.is og facebook næstu daga.