Góumót JR var haldið laugardagin 25. febrúar og er það æfingamót fyrir yngstu iðkendurna (7-10 ára) þar sem allir fá þátttökuverðlaun. Keppnin hófst kl. 13 en á æfingu barna 5-6 ára fyrr um morguninn var haldið lítið æfingamót fyrir þau og er mynd af þeim hér neðar á verðlaunapalli með þáttttökuverðlaunin sín. Keppendur voru fjörtíu og fimm frá fimm klúbbum og voru það JR, Judodeild Grindavíkur, Judodeild Ármanns, Judofélag Reykjanesbæjar (JRB) og Judodeild Selfoss sem öttu kappi saman. Flestir þátttakendanna voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þau sig alveg frábærlega og höfðu þjálfarar þeirra í nógu að snúast við að undirbúa þau og leiðbeina. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum ef þannig stendur á. Einnig þarf stundum að færa keppendur á milli aldursflokka til að þyngd keppenda sé sem jöfnust. Dómgæslan var í höndum okkar bestu yngri keppnismanna og leystu þeir verkið vel af hendi en það voru þeir Aðalsteinn Björnsson, Jónas Guðmundsson og Kjartan Hreiðarsson sem sáu um dómgæsluna og svo var það Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason sáu um góða og örugga mótsstjórn. Mótið var frábær skemmtun og ótrúlega flott judo sem þessir ungu iðkendur sýndu. Hér er stutt videoklippa frá mótinu og hér eru úrslitin .