Góumót JR 2022 – Úrslit

Góumót JR, sem er æfingamót iðkenda 7-10 ára þar sem allir keppendur fá verðlaun, var haldið sl. laugardag (26. feb.) og voru keppendur frá JR, Judodeild Grindavíkur, Judodeild ÍR, Judodeild Ármanns, JRB (Judofélag Reykjanesbæjar) og Judodeild Selfoss. Á síðasta Góumóti voru keppendur tuttugu og einn í aldursflokkum U8-U11 en í ár voru þeir fjörtíu og sjö sem er ánægjulegt og sýnir gróskuna í barna og unglingastarfi flestra klúbba í dag. Keppendur um helgina hefðu getað verið fleiri því allnokkrir sem skráðir voru til leiks forfölluðust á síðustu stundu af ýmsum ástæðum, meðal annars út af covid smitum. Mótið var fyrst haldið árið 2009 og var nú haldið í þrettánda skiptið en það féll niður 2020 vegna Covid 19. Þátttaka á mótinu í gegnum tíðina hefur jafnan verið góð en hér er hægt að sjá þátttökuna frá 2012 til dagsins í dag. Eins og áður sagði er Góumótið fyrir 7-10 ára en undantekning var gerð 2019 og 2021 og keppti þá einnig aldursflokkur 11-14 ára.

Margir þátttakendanna voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þeir sig mjög vel sem og aðrir keppendur og höfðu þjálfarar þeirra í nógu að snúast við að undirbúa þá og hafa tilbúna þegar þeir voru kallaðir upp. Börnunum er raðað saman eftir aldri og þyngd eins og venja er og keppa stúlkur og drengir stundum saman í flokkum ef þannig stendur á og einnig þarf stundum að færa keppendur á milli aldursflokka til að þyngd keppenda sé sem jöfnust. Þau sem sáu um dómgæsluna eru ungir og óreyndir sem dómarar en eru hinsvegar á meðal bestu yngri keppnismanna landsins og leystu þau verkið vel af hendi. Dómarar voru þau Aðalsteinn Björnsson, Helena Bjarnadóttir, Jónas Guðmundsson, Nökkvi Viðarsson og Kjartan Hreiðarsson sem hélt utan um dómgæsluna. Svo var það Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason sáu um góða og örugga mótsstjórn. Mótið var frábær skemmtun og börnin sýndu oft á tíðum ótrúlega flott judo. Hér neðar eru myndir frá mótinu og stutt videoklippa en hér eru úrslitin.