Fréttir af HM í Baku – Dagur 5
Andlát
Sigurður H. Jóhannsson fyrrum formaður Judofélags Reykjavíkur lést Laugardaginn 15. september síðastliðinn 88 ára að aldri. Siguður var upphafsmaður og brautryðjandi að judo íþróttinni á Íslandi en það var hann sem kom með hugmyndina að byrja að æfa judo þegar hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956. Ásamt fyrrum hnefaleikamönnum Glímufélagsins Ármanns stofnaði Sigurður Judodeild Ármanns árið 1957 og var þjálfari deildarinnar en 1965 gékk hann úr Ármanni og stofnaði Judofélag Reykjavíkur ásamt nokkrum fyrrum Ármenningum. Sigurður fór bæði til Danmerkur og Englands til að nema judo og æfði meðal annars í elsta og þekkasta judoklúbbi Evrópu, Budokwai í London. Þar kynntist hann mörgum af bestu judomönnum heims á þeim tíma sem að margir hverjir fyrir tilstuðlan hans heimsóttu Ísland og leiðbeindu og aðstoðuðu við uppbyggingu íþróttarinnar á Íslandi. Sigurður var ekki bara þjálfari hjá JR hann var einnig formaður félagsins fyrstu árin og kom því einnig mikið að félagsmálum.
Sigurður sem var 4. dan var sæmdur gullmerki Judosambands Íslands árið 2003 og gerður að heiðursformanni JSÍ 2015.
Judomenn þakka Sigurði H. Jóhannssyni að leiðarlokum hans ómetanlega starf og áralanga samveru og kveðja vin og félaga með söknuði og virðingu og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.
Útför Sigurðar fer fram í Fossvogskirkju, föstudaginn 5. október kl. 15.
Egill tapaði fyrir verðandi heimsmeistara
Egill Blöndal keppti í 90 kg flokknum í morgun á heimsmeistaramótinu í Baku og mætti þar Qaisar Khan (PAK). Egill var vel stemmdur og stjórnaði þeirri viðureign frá upphafi og eftir umþað bil eina og hálfa mínútu var hann búinn að sigra Qaisar en hann sótti inn í bragð sem misheppnaðist og lentu þeir í gólfglímu sem að Egill vann vel úr og komst í fastatak sem að Quaisar náði að losa sig úr á síðustu stundu en Egill var ekki búinn því hann sleppti ekki takinu á andstæðingi sínum og hélt áfram að vinna í gólfinu og náði armlás á Qaisar sem að gafst þá upp. Næsti andstæðingur Egils var Nikoloz Sherazadishvili (ESP) sem er í þriðja sæti heimslistans. Þar mætti Egill ofjarli sínum líkt og Sveinbjörn í gær og tapaði hann þeirri viðureign eftir tæpar tvær mínútur og er fallin úr keppni en Nikoloz varð heimsmeistari síðar um daginn eins og annar andstæðingur Sveinbjörns í -81 kg flokknum. Keppni Íslendinga á HM er lokið að þessu sinni.
Fréttir af HM í Baku – Dagur 4
Sveinbjörn komst í þriðju umferð á HM
Sveinbjörn Iura keppti í morgun í 81 kg flokknum á heimsmeistaramótinu í Baku og mætti þar Cedrick Kalonga (COD) í annari umferð en þeir sátu báðir hjá í fyrstu. Cedrick fékk snemma í glímunni refsistig fyrir stöðuga vörn en skoraði þó skömmu síðar wazaari þegar hann sótti óvænt í vinstra seoinage sem Sveinbirni tókst ekki að verjast. Eftir það tók Sveinbjörn alla stjórn á vellinum og sótti stíft en náði þó ekki að skora. Ekki munaði samt miklu í eitt skiptið þegar Sveinbjörn tók Tai-otoshi á Cedrick sem féll á hliðina en ekkert var gefið fyrir það. Sveinbjörn átti einnig ágætis tækifæri í gólfglímunni og ekki langt frá því að komast í fastatak en Cedrick slapp í öll skiptin með skrekkinn. Cedrick var orðin þreyttur og ekki leið á löngu þar til hann fékk næsta refsistig og nú fyrir ólögleg handtök og skömmu áður en tíminn rann út fékk hann sitt þriðja refsistig fyrir gervisókn “false attack” og var þar með búinn að tapa glímunni. Sveinbjörn féll úr keppni er hann tapaði næstu viðureign í þriðju umferð en þar mætti hann ofjarli sínum er hann lenti á móti efsta manni heimslistans, Saeid Mollaei (IRI) sem síðar um daginn varð heimsmeistari í flokknum.
Gull og brons á SWOP í dag
Á Opna Sænska í dag í aldursflokki U21 árs sigraði Úlfur Böðvarsson 90 kg flokkinn og Árni Lund varð þriðji í -81 kg flokki. Þetta var öruggur sigur hjá Úlfi en hann lagði alla sína andstæðinga á ippon og var það vel gert því hann hafði meitt sig á öxl tveimur dögum fyrir mót og var óvíst hvort hann gæti keppt en hann ákvað að láta slag standa. Auk þess að vinna gullverðlaunin fékk Úlfur sérstakan bikar fyrir ippon kast dagsins.
Árni tapaði hinsvegar fyrstu viðureign sem hann var langt kominn með að vinna þar sem andstæðingur hans var kominn með tvö refsistig og hefði tapað á því þriðja. Í einni sókn sinni gerði hann mistök og var kastað á mótbragði og þar með var möguleiki á sigri úr sögunni. Hann fékk uppreisnarglímu og gerði þá engin mistök og vann næstu þrjár glímur öruggt og allar á ippon og tók bronsið.
Grímur Ívarsson sem keppti sama flokki og Úlfur barðist um bronsverðlaunin og var ekki langt frá því að innbyrða þau en hann var yfir á stigum og ekki mikið eftir þegar andstæðingi hans tókst að koma góðu bragði á hann og skoraði ippon og þar með var glímunnni lokið og Grímur endaði því í 5. sæti. Oddur Kjartansson einnig í U21 keppti í -73 kg flokki þar sem keppendur voru nítján og tapaði hann fyrstu glímu en þar sem mótherji hans komst áfram (brons) fékk Oddur uppreisnarglímu en tapaði henni líka og var úr leik.
Strákarnir í U18 þeir Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson eru aðeins 15 ára og því á yngsta ári í flokknum. Að sögn Hermann Unnarssonar landsliðasþjálfara sem var með hópnum þá börðust þeir vel en það dugði þó ekki til því þó svo að þeir séu útsjónarsamir judomenn og í góðu formi þá munaði of miklu á líkamlegum styrk þeirra og andstæðinga þeirra sem voru allt að tveimur árum eldri og töpuðu þeir sínum glímum og fengu ekki uppreisn.
Fréttir af HM í Baku – Dagur 3
Systkini heimsmeistarar
Ríkjandi heimsmeistari Hifumi ABE (JPN) vann sinn annan heimsmeistaratitil í dag fyrir Japan í 66 kg flokki en fyrr um daginn hafði hann horft frá upphitunnasvæðinu á systur sína Uta ABE vinna sinn fyrsta heimsmeistaratitil í -52 kg flokki. Sigur systkina á sama heimsmeistaramóti er eitt af ótrúlegustu afrekum í sögu þeirra en meira hér.
Keppa á SWOP 2018 á morgun
Í morgun lögðu af stað til Svíþjóðar sex keppendur sem munu taka þátt í Opna Sænska cadett og juniora sem haldið verður laugardaginn 22. september í Haninge. Hermann Unnarsson landsliðsþjálfari yngri liða valdi þá Árna Lund, Grím Ívarsson og Úlf Böðvarsson til fararinnar og eru þeir allir í U21 árs aldursflokki en sitthvorum þyngdarflokknum, Árni í -81 kg flokknum og Grímur og Úlfur í -90 kg flokki. Einnig munu þrír JR ingar taka þátt í mótinu en það eru þeir Oddur Kjartansson sem keppir í aldursflokki U21 árs í -73 kg þyngdarflokki og Hákon Garðarsson og Kjartan Hreiðarsson sem keppa báðir í aldursflokknum U18 ára og í -73 kg þyngdarflokki. Þátttakendur eru rúmlega 220 frá sex þjóðum, hér er keppendalistinn og hægt verður að fylgjast með gangi mótsin hér. Á meðfylgjandi mynd vantar Hermann og Árna.