Andlát

Sigurður H. Jóhannsson fyrrum formaður Judofélags Reykjavíkur lést Laugardaginn 15. september síðastliðinn 88 ára að aldri. Siguður var upphafsmaður og brautryðjandi að judo íþróttinni á Íslandi en það var hann sem kom með hugmyndina að byrja að æfa judo þegar hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi árið 1956. Ásamt fyrrum hnefaleikamönnum Glímufélagsins Ármanns stofnaði Sigurður Judodeild Ármanns árið 1957 og var þjálfari deildarinnar en 1965 gékk hann úr Ármanni og stofnaði Judofélag Reykjavíkur ásamt nokkrum fyrrum Ármenningum. Sigurður fór bæði til Danmerkur og Englands til að nema judo og æfði meðal annars í elsta og þekkasta judoklúbbi Evrópu, Budokwai í London. Þar kynntist hann mörgum af bestu judomönnum heims á þeim tíma sem að margir hverjir fyrir tilstuðlan hans heimsóttu Ísland og leiðbeindu og aðstoðuðu við uppbyggingu íþróttarinnar á Íslandi. Sigurður var ekki bara þjálfari hjá JR hann var einnig formaður félagsins fyrstu árin og kom því einnig mikið að félagsmálum.

Sigurður sem var 4. dan var sæmdur gullmerki Judosambands Íslands árið 2003 og gerður að heiðursformanni JSÍ 2015.

Judomenn þakka Sigurði H. Jóhannssyni að leiðarlokum hans ómetanlega starf og áralanga samveru og kveðja vin og félaga með söknuði og virðingu og senda ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Útför Sigurðar fer fram í Fossvogskirkju, föstudaginn 5. október kl. 15.

Sigurður H. Jóhannsson heiðursformaður JSÍ