Egill tapaði fyrir verðandi heimsmeistara

Egill Blöndal keppti í 90 kg flokknum í morgun á heimsmeistaramótinu í Baku og mætti þar Qaisar Khan (PAK). Egill var vel stemmdur og stjórnaði þeirri viðureign frá upphafi og eftir umþað bil eina og hálfa mínútu var hann búinn að sigra Qaisar en hann sótti inn í bragð sem misheppnaðist og lentu þeir í gólfglímu sem að Egill vann vel úr og komst í fastatak sem að Quaisar náði að losa sig úr á síðustu stundu en Egill var ekki búinn því hann sleppti ekki takinu á andstæðingi sínum og hélt áfram að vinna í gólfinu og náði armlás á Qaisar sem að gafst þá upp. Næsti andstæðingur Egils var Nikoloz Sherazadishvili (ESP) sem er í þriðja sæti heimslistans. Þar mætti Egill ofjarli sínum líkt og Sveinbjörn í gær og tapaði hann þeirri viðureign eftir tæpar tvær mínútur og er fallin úr keppni en Nikoloz varð heimsmeistari síðar um daginn eins og annar andstæðingur Sveinbjörns í -81 kg flokknum. Keppni Íslendinga á HM er lokið að þessu sinni.