Sveinbjörn á meðal 100 efstu

Sveinbjörn Iura er kominn í 86 sæti heimslistansSveinbjörn komst í þriðju umferð á heimsmeistaramótinu í september og skaust upp um mörg sæti á heimslistanum við það og um helgina náðist mikilvægur árangur hjá honum því Sveinbjörn komst aftur í þriðju umferð og nú á Osaka Grand Slam og því bættust við 160 punktar á heimslistann og við það færist Sveinbjörn í 86 listans sem eykur enn líkurnar á Ólympíuþátttöku í Tokyo 2020.

Sveit JR Íslandsmeistarar 2018

Íslandsmót 2018 í sveitakeppni karla fór fram í gær og var það haldið hjá Júdofélagi Reykjavíkur að þessu sinni. Keppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 43 skiptið sem keppt var en hún féll niður 1993 og 2002. Því miður sendu ekki öll félög sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan er og skipar einn stærstan sess í sögu hvers félags og er það áhyggjuefni. Það voru aðeins fjórar sveitir skráðar til leiks en á síðustu stundu forfallaðist einn keppandinn hjá KA og ekki náðist í varamann og  KA varð að hætta við þátttöku svo sveitirnar sem kepptu voru JR-A og JR -B og sveit Selfoss. Hvorugt félagið gat stillt upp sýnu sterkasta liði að þessu sinni þar sem nokkrir keppendur þeirra (Breki Bernhardsson, Egill Blöndal og Ægir Valsson) eru í Japan við æfingar og keppni og eins er Logi Haraldsson ekki búinn að ná sér að fullu af meiðslum frá því í haust. Keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni og margar skemmtilegar viðureignir sem gjarnan enduðu á ippon kasti. Leikar fóru þannig þegar upp var staðið að sveit JR-A sigraði og er Íslandsmeistari 2018 í sjötta skipti í röð og í 18 skipti alls. Í öðru sæti varð sveit Selfoss og í því þriðja sveit JR-B.  Hér neðar eru úrslitin  og  nokkarar myndir frá mótinu. 

Osaka Grand Slam 2018 lokið

Það var frábær árangur hjá Sveinbirni Iura (-81 kg) er hann komst í þriðju umferð á Osaka Grand Slam í nótt. Hann byrjaði á því að leggja Turciosel frá El Salvador í hörku glímu og sigraði hann þegar um ein mínúta var eftir en var þá komin með Turciosel í fastatak sem gafst hann upp. Sveinbjörn mætti næst Baker frá Jórdaníu og sigraði hann einnig örugglega og var þar með kominn í 16 manna úrslit. Þar mætti Sveinbjörn ofjarli sínum Takeshi Sasaki frá Japan sem er í 28 sæti heimslistans og varð að játa sig sigraðann eftir stutta viðureign en Takeshi stóð uppi sem sigurvegari í flokknum síðar um daginn. Þetta var flottur og mikilvægur árangur hjá Sveinbirni og fullt af punktum sem hann ávann sér sem fleytir honum ofar á heimslistann og eykur enn líkurnar á Ólympíuþátttöku í Tokyo 2020. Til hamingju með árangurinn Sveinbjörn. Hér má sjá glímurnar hans. 

Sveinbjörn í fyrstu viðureign gegn Turciosel


Ægir Valsson (-90 kg) átti fyrstu viðureign í nótt á Grand Slam Osaka og þar mætti hann Hatem Abd El Akher frá Egyptalandi sem er í 61 sæti heimslistans í  flokknum. Viðureignin byrjaði vel og var Ægir síst lakari aðilinn og virkaði sterkari ef eitthvað var. Hann átti ágætis sókn þegar um ein og hálf mínúta var liðinn er hann sótti eldsnöggt í Harai goshi sem tóks ekki alveg en hann náði samt kasti og Hatem virðist lenda á lenti á hliðinni en Ægi fékk ekkert fyrir kastið. Viðureignin var jöfn en Ægir var þó kominn með eitt shido fyrir varnartilburði. Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir komst Hatem í góð grip sem hann náði að halda og Ægir gætti ekki að sér og var kastað á fallegu  Harai goshi og þar með var keppni hans lokið á Grand Slam að þessu sinni. Ægir hefur litla reynslu af þátttöku í sterkustu mótum heims eins og Grand Slam er svo ef hún hefði verið til staðar þá er ekki ólíklegt að hann hefði hann borið sigur úr býtum því ekki vantar styrk, úthald og kunnáttu, það sem hann skortir er fyrst og fremst keppnisreynslan. Hér má sjá glímuna hans.

Ægir og Hatem

Keppa á Grand Slam í kvöld og á morgun

Sveinbjörn Iura (-81 kg) keppir í kvöld á Grand Slam Osaka um kl. 1:15 í nótt að Ísl. tíma og á hann fjórðu viðureign á velli 1 og mætir Juan Diego Turcios frá El Salvador. Hér er tengill á beina útsendingu og aðrar upplýsingar. Ægir Valsson (-90 kg) keppir aðra nótt,  um kl. 1 eftir miðnætti á laugardaginn og mætir hann Hatem Abd El Akher frá Egyptalandi. Ekki er enn vitað númer hvað viðureign hans er en upplýsingar um það verða settar hér inn á morgun. Egill Blöndal keppir ekki  eins og til stóð þar sem hann varð fyrir þvó óláni að úlnliðsbrotna og verður því frá keppni í um fjórar vikur og Breki keppir einungis í Hong Kong ásamt Sveinbirni næstu helgi

Sveitakeppni karla og kvenna 2018 og sameiginleg æfing

Íslandsmót í Sveitakeppni karla og kvenna verður haldið í JR laugardaginn 24. nóv og hefst kl. 11. og lýkur um kl. 12:30. Að keppni lokinni verður Jón Þór með sameiginlega æfingu sem hefst kl. 13 og lýkur kl. 14:30 og eru allir 15 ára og eldri júdomenn og konur eru velkomin.

Reykjavíkurmeistaramótið 2018 – Úrslit

Reykjavíkurmótið var haldið í dag hjá Judódeild Ármanns í Laugardal. Keppendur voru frá Reykjavíkurfélögunum þremur þ.e. Judódeild Ármanns, Judódeild ÍR  og Judófélagi Reykjavíkur. Keppt var í öllum aldursflokkum og voru þátttakendur tuttugu og fimm sem var í slakara lagi eins og reyndar undanfarin ár og þurfum við að gera skurk í því að iðkendur taki þátt í þessu móti sem og öðrum. Í karlaflokki var einn sameinaður flokkur, -73 og -81 kg og sigraði Gísli Egilson þann flokk örugglega og í kvennaflokki -70 kg sigraði Ingunn Sigurðardóttir og Árni Lund sem keppti í U21 sigraði einnig örugglega sameinaðann flokk -90 og -100 kg svo eitthvað sé nefnt en hér eru öll úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Grindavíkurheimsóknin 2018

Helgina 26-27 Október hélt Guðmundur B. Jónasson ásamt yngri hópnum hjá JR til Grindavíkur ásamt fylgdarliði fjórða árið í röð. Þessi hefð hefur reynst vel til að þróa góð tengsl á milli iðkanda ásamt því að bæta kunnáttu iðkenda á greininni. Guðmundur ásamt Arnari sem þjálfar judódeildina hjá Grindavík og Þrótt í Vogunum komu þessu á fyrir þremur árum síðan og hafa iðkendur ávallt haft gaman af. Þrátt fyrir þá tilviljun að það virðist alltaf þessa helgi þegar mótið er haldið vera kalt og eða vindasamt þá hefur Guðmundur ávalt fylgt því eftir að fara í þessa ferð og á hann hrós skilið fyrir það. Keppendur frá JR voru að þessu sinni 8 talsins en einhverjir forfölluðust. Gaman er að segja frá því að okkar yngsti iðkandi hann Fannar Þormóðsson var einn þeirra og var að keppa á sínu fyrsta móti. Þetta er sennilega í fyrsta sinn sem hann fær að glíma við einhvern í sinni stærð enda alltaf lang yngstur á æfingum. Það fór honum bara vel að bregðast við þegar “hajime” hljómaði fyrst þann daginn enda átti hann fyrstu glímu dagsins. Bróðir hans og faðir eru miklir júdómenn eins og flestum er kunnugt svo hann hefur ekki langt að sækja hæfileikana. Allir glímdu vel og var augljóst að eftir að haustak var bannað hjá yngri keppendum þá sér maður mun flottari tækni og ALLS EKKERT færri köst. Reyndar var þetta bara æfingamót svo ekki var raðað í sæti og einstaka úrslit úr glímum því kanski auka atriði. Allir fengu gullpening, meira að segja Guðmundur þjálfari og Maja sem kom og dæmdi upp á 10. Svo var farið í sund, étnar pönnukökur í boði UMFG og komið sér fyrir í gistiaðstöðunni en þar gistu einnig iðkendur úr Þrótti. Um kvöldið var svo boðið upp á flatbökur og popp sem var maulað á yfir mynd sem sýnd var. Að því loknu var haldið niður í gistiaðstöðu og farið að sofa. Eða öllu heldur farið að sofa eftir að Guðmundur hafði staðið í stappi við iðkendur í dálítinn tíma. Krakkarnir vöknuðu svo fyrir allar aldir við lítinn fögnuð Arnars þjálfara en þeim tókst að vekja hann og viljum við JR-ingar biðjast velvirðingar á því. Þormóður Árni Jónsson mætti svo og stjórnaði æfingu að morgunmati (sem boðið var upp á) loknum klukkan 10, eftir það var haldið heim.    Það er frábært að sjá hversu vel þessi hópur er samrýndur og foreldrar tilbúnir að leggjast á eitt til að krakkarnir fái sem mesta skemmtun og ánægju út úr þessu. Sem dæmi má nefna að Þormóður og Maja eru foreldrar iðkenda hjá okkur og svöruðu kallinu vel þegar óskað var eftir kröftum þeirra. Þessir krakkar hafa æft lengi saman, Jónas og Elías hafa t.d æft frá því að þeir voru á leikskólaaldri og virðast altaf meðvitaðir um að þegar einhver nýr kemur á æfingu þá þarf að passa upp á hann/hana og taka vel á móti viðkomandi. Eins þá fara þau í barna afmæli, heimsóknir, gistingar hvert hjá öðru og hafa farið í margar æfinga/keppnisferðir saman. Þetta gæti ekki gengið nema með aðstoð margra handa. Ég ætla að fullyrða að á bakvið þennan hóp er besti foreldrahópur sem um getur. Ef þessu starfi verður haldið áfram þá verða þar magnaðir judókeppendur á ferðinni í framtíðinni. Það er frábært hversu vel samstarfið hefur tekist við þessa klúbba Grindavík og Voga. Að geta nánast gengið að því vísu árlega að borga lítinn pening fyrir allt sem áður var upp talið er frábært og viljum við koma þakklætiskveðju til þeirra sem að því stóðu, sérstaklega Arnari Má þjálfara UMFG og UMFÞ.

Farnir til Japans

Þá eru þeir farnir í æfinga og keppnisferð til Asíu þeir Ægir Valsson, Egill Blöndal og Breki Bernhardsson en þeir lögðu af stað í dag til Japans þar sem þeir munu hitta fyrir Sveinbjörn Iura sem fór þangað í byrjun október og munu þeir æfa þar næsta mánuðinn. Sveinbjörn, Egill og Ægir munu taka þátt í Grand Slam Osaka 23. nóvember og síðan Egill, Sveinbjörn og Breki í Hong Kong Asian Open 1. desember. Þeir eru allir væntanlegir til Íslands aftur í byrjun desember og munu þá næst keppa á Reykjavík Judo Open í Laugardalshöllinni í lok janúar 2019.

Úrslit Haustmóts karla og kvenna 2018

Haustmót seniora 2018 var haldið á Selfossi 20. október s.l. Keppendur voru um þrjátíu manns frá fimm klúbbum. Úrslitin voru nánast eftir bókinni og unnu gullverðlaunahafarnir allar sínar viðureignir nokkuð örugglega ef frá eru taldar úrslitaviðureignirnar í -70 kg kvenna og -100 karla. Í -70 kg flokknum tapaði Ingunn Sigurðardóttir gegn Svenju  Meissner en eftir venjulegan glímutíma hafði hvorugri tekist að skora og voru því jafnar og fór viðureignin því í gullskors keppni og þar náði Svenja wazaari á Ingunni og vann þar með viðureignina. Í -100 kg flokknum börðust þeir félagar Þór Davíðsson og Grímur Ívarsson til úrslita og var glíma þeirra jöfn og spennandi en Þór hafði skorað wazaari tiltölulega snemma og reyndi Grímur sitt ítrasta til að jafna. Báðir sköpuðu sér ágætistækifæri til að gera út um glímuna en Þór glímdi öruggt og hélt sínu og stóð að lokum uppi sem sigurvegari eftir fullum glímutíma. Hér eru myndir af verðlaunahöfunum og úrslitin.