Sunnudaginn 19. nóv. sl. hélt Judodeild Ármanns upp á sextugsafmæli sitt en það var stofnað 2. febrúar 1957 og er elsta judofélag landsins. Í tilefni áfangans var haldin opin sameiginleg æfing þar sem fjölmargir tóku þátt í henni bæði fyrrverandi og núverandi iðkendur deildarinnar sem og iðkendur annara klúbba. Að lokinni æfingu var haldið kaffisamsæti þar sem félagsmenn voru heiðraðir fyrir vel unnin störf til margra ára.
Það er ekki sjálfsagt mál að íþróttafélag nái sextíu ára aldri. Til þess að það gerist þá þarf félagið að hafa öflugt bakland, öfluga og fórnfúsa félaga sem leggja á sig mikla og óeigingjarna vinnu í áraraðir. Judodeild Ármanns hefur verið lánsamt hvað það varðar. Frá upphafi hafa þeir haft á að skipa frábærum mannskap sem lifði og hrærðist fyrir íþróttina. Judodeild Ármanns hefur verið öflugasta judo félag landsins í áraraðir og hefur unnið til flestra Íslandsmeistaratitla bæði í karla og kvenna flokkum fullorðinna.
Judofélag Reykjavíkur óskar Judodeild Ármanns og félagsmönnum þess til hamingju með áfangann og óskar ykkur alls hins besta í framtíðinni.
Birkir Hrafn 1. dan

Birkir Hrafn Jóakimsson tók svarta beltið 15. nóv. sl. eftir að hafa verið með það brúna í rúm 20 ár svo það var lögu orðið tímabært að fara í 1. dan. Uke hjá Birki var Gísli Vilborgarson 2. dan. Til hamingju með áfangann Birkir.
JR Íslandsmeistarar 2017 í Sveitkeppni karla

Sveitakeppni karla fór fram í gær og var hún haldin í Skelli hjá Judodeild Ármanns. Það voru óvenjufáar sveitir mættar til leiks að þessu sinni en keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni. Fullt var af flottum viðureignum og köstum sem sjá má hér og má nefna sópið hans Breka Bernharðssonar gegn Birgi Arngrímssyni í -81 kg flokknum, kastið hans Dofra Bragasonar gegn Hauki Ólafssyni í -66 kg flokknum og kastið hans Loga Haraldssonar í -81 kg flokknum JR gegn KA svo eitthvað sé nefnt. Ekki var gólfglíman síðri og mátti sjá frábæra vinnslu þar eins og hjá Agli Blöndal gegn Adam Þórarinssyni í -90 kg flokknum og Hermanni Unnarssyni gegn gegn Arnari Björnssyni í -73 kg flokknum. Sú viðureign sem var þó kanski hvað mest spennandi var milli þeirra Egils Blöndal frá Selfossi og hins unga og efnilega Árna Lund í JR. Þeir kepptu í -90 kg þyngdarflokki og varði sú viðureign allan glímutíman og var gríðalega spennandi en fór svo að lokum að Egill sem er Íslandsmeistari bæði í -90 kg og opnum flokki 2017 og einn okkar sterkasti judomaður í dag sigraði Árna á wazaari eftir hörkuviðureign. Leikar fóru þó þannig þegar upp var staðið að sveit JR sigraði og er Íslandsmeistari 2017, í öðru sæti varð sveit Selfoss og í því þriðja sveit KA. Hér má sjá riðilinn og allar viðureignirnar.

Landsliðsæfing að lokinni Sveitakeppni
Það verður landsliðsæfing U21 og seniora laugardaginn 18. nóv. í beinu framhaldi af Sveitakeppninni sem lýkur um kl. 14:00. Allir 15 ára og eldri judomenn og konur eru velkomin en skyldumæting er hjá þeim sem hafa hug á því að komast í landsliðshóp. Æfingin fer fram hjá Judodeild Ármanns í Laugardal. Landsliðsþjálfarar.
HM Open 2017 á YouTube
Heimsmeistaramótið OPINN flokkur
Eitt mest spennandi mót ársins verður haldið um helgina en heimsmeistaramót karla og kvenna í OPNUM flokki verður haldið í Marrakesh í Marokkó. Keppni karla verður á morgun laugardaginn 11. nóv. og konurnar keppa svo á sunnudaginn og hefst keppni báða dagana kl. 10:00. Allir bestu judomenn og konur heimsins eru á meðal þátttakenda. Þar sem ekki var forraðað gátu þeir bestu lent strax saman og það var einmitt það sem gerðist eins og sjá má hér því Teddy Riner og Guram Tushishvili mætast að öllum líkindum í annari umferð en Guram var “næstum” búinn að sigra Teddy á HM í Budapest í september. Hér er umfjöllun um mótið en það má fylgjast með því í beinni útsendingu.
EM U23 2017
Evrópumeistaramót U23 hófst í dag en það er haldið í Podgorcia í Montenegro og stendur yfir dagana 10-12 nóv. Hægt er að horfa á beina útsendingu frá mótinu og hér má sjá öll úrslit.
Allskonar upplýsingar
Hef tekið saman mér til gamans ýmiskonar upplýsingar um judo á Íslandi. Þessar upplýsingar hafa fæstar verið til í tölvutæku formi og hef ég fundið þær í árskýrslum JSÍ, dagblöðum og tímaritum og fleiri stöðum og sett í aðgengilegt form þar sem hægt er að leita t.d. eftir nöfnum, þyngdarflokkum, árum eða gráðum. Þarna er listi yfir alla Íslandsmeistara karla og kvenna frá upphafi, allar dan gráður og formenn JSÍ svo eitthvað sé nefnt og ætlunin að bæta einhverju við. Þetta eru ekki tæmandi listar og á eftir að uppfæra nokkra þeirra en það er allt í vinnslu. JSÍ er að láta útbúa fyrir sig forrit/gagnabanka þar sem allar þessar og fleiri upplýsingar munu verða aðgengilegar á heimasíðu JSÍ og standa vonir til þess að það verði komið í gagnið fyrir næstu áramót en fram að því má notast við þetta.
Hér fyrir ofan undir Ýmis gögn og JSÍ gögn má finna ofangreint.
Sveitakeppni karla og kvenna 2017
Sveitakeppni karla og kvenna 2017 verður haldin í Skelli í Laugardal hjá Judodeild Ármanns laugardaginn 18. nóvember næstkomandi og hefst kl. 13:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00.
Grindavíkurferðin 2017
Laugardaginn 28. okt. fóru þjálfarar barna 6-10 ára þeir Guðmundur Björn Jónasson og Emil Þór Emilsson í hina árlegu heimsókn til Grindavíkur. Þar hittast judo krakkar UMFG og JR og er haldin keppni fyrir þau og mini æfingabúðir að keppni lokinni. Þar koma reyndir keppnismenn og miðla af reynslu sinni til barnanna. Þeir félagar Arnar Már Jónsson þjálfari UMFG og Guðmundur og Emil hafa staðið fyrir þessum viðburði í nokkur ár fyrir þennan aldursflokk. Þetta er frábært framtak þeirra félaga til að byggja upp starfsemi og hlúa að þessum aldursflokki því þau eru framtíðin. Judodeild Tindastóls hefur verið með árlegan viðburð að vori og æskilegt væri ef fleiri klúbbar gerðu slíkt hið sama þannig að meira væri um að vera hjá börnunum og meiri líkur að þau endist lengur í íþróttinni. Þetta er mjög þarft verk og til fyrirmyndar hvernig staðið er að þessum viðburði og á gestgjafinn UMFG hrós skilið fyrir framkvæmdina.
Hér er pistill Guðmundar Björns Jónassonar þjálfarar barna 6-10 ára hjá JR.
Laugardaginn síðastliðinn (28.10) fóru 9 framtíðar júdógoðsagnir í hina árlegu heimsókn til Grindavíkur. Markmið ferðarinar er ávalt fyrst og fremst að hafa gaman, kynnast hvort öðru, iðkendum og aðstandenda annara júdódeilda. Ég og hinn mikli hugsuður Emil sem að þjálfar þessa dáðadrengi og stúlkur trúum á það að ef þú hefur gaman og líður vel hjá okkur þá hefurðu meiri löngun að mæta og taka þátt. Þá gerist það sjálfkrafa að þú bætir þig í júdó og það er einmitt það sem þessir krakkar eru sífellt að gera. Við höfum fengið frábær viðbrögð hjá foreldrum og Bjarna Friðriksyni til að koma alls konar hugmyndum í gegn eins og t.d að bæta við fleiri æfingum og fara að minnsta kosti einu sinni á önn í ferðalög með hópinn. Þessir krakkar sem við erum að þjálfa hafa æft sum þeirra saman í nokkur ár og ávalt komið með í þessi ævintýra ferðalög þó var einn nýr iðkandi með í fyrsta sinn núna og smellpassaði í hópinn. Ekkert þeirra eru saman í skóla og teljum við því að þetta tengi þau betur saman og virki sem gulrót.
En nóg með mikilvægi þess að fara í ferðalög er sennilega búinn að selja flestum þá hugmynd. Viðtökurnar hjá Arnari þjálfara Grindavíkur og Voga ásamt aðstandendum iðkenda þar á bæ hefði passað hvaða aðalsborna eða hreinlega konungsborna einstakling sem er, það vantaði bara rauðan dregil fyrir utan íþróttahúsið. Mótið hófst klukkan 12.00 og mætti Daníel í jakkafötunum og dæmdi eins og herforingi. Glímurnar voru mun flottari en maður hefur átt að venjast og ég hélt mig betur á mottunni á hliðarlínunni. Krakkarnir héldu hópinn saman í upphituninni og á meðan mótinu stóð og voru lítið að hlaupa til foreldra. Sem er frábært því það er það sem við Emil ætlumst til, hvort þau vinni eða tapi skiptir minna máli sem ég er alltaf að átta mig betur á. Eftir mótið fórum við svo í sund með hinum liðunum og þar sannaðist sú kenning að júdó sameinar. Þess má geta að upplifun mín sé reyndar sú að þessi hópur hjá JR sé tengdur einstökum böndum og allir virðast vera með hlutverk. T.d þá hafa þeir Jónas og Elías æft saman síðan á leikskóla aldri og eru miklir vinir. Elías tekur það altaf að sér óumbeðinn að passa upp á Jónas, að hann geri hlutina rétt, gangi vel frá eftir sig og svo framvegis og hefur meira lag á því en nokkur annar. Að sundinu loknu voru foreldrar iðkanda frá Grindavík búin að baka serbneskar pönnukökur sem brögðuðust ansi vel og réðust krakkarnir á þær eins og Packman á punktana. Eftir pönnuköku átið var komið sér fyrir upp í skóla þar sem við gistum. Í kvöldmat var pítsuhlaðborð og bíó eftir það. Að lokum eftir smá tuð og þras tókst öllum að sofna.
Næsti dagur var ekki af verra taginu heldur. Hafragrautur og ávextir voru á morgunnverðar matseðlinum og til allra lukku fyrir hinn langþreytta þjálfara JR afa Guðmund rjúkandi kaffi líka sem virkaði eins og lífs elixír á hann. Svo var farið í galla og sameiginleg æfing haldin. Á þeirri æfingu mættu hinir reynslu miklu júdómenn Þormóður Árni Jónsson og Bjarni Skúlason sem gestaþjálfarar og sýndu tækni. Að fá þessa tvo virkaði vel á stemninguna og var en einn liður í að fá sem flottasta umgjörð. Eftir æfinguna var haldið heim á leið og allir kvöddust með gleði í hjarta. Það fréttist svo að þjálfari JR hafi verið svo þreyttur að hann svaf fram eftir hádegi næsta dag en um leið og hann vaknaði fór hann víst að spá í næstu ferð sem hann gæti skipulagt.
Það sem stendur upp frá mínum bæjardyrum séð er að við Emil erum með frábæran hóp af iðkendum og foreldrum sem gera svona lagað mögulegt. Við viljum þakka Bjarna sérstaklega fyrir að treysta okkur að fara okkar leiðir en vera ávalt til í að leiðbeina okkur ef þarf (og það þarf). Svo erum við með fleiri ansi góða hauka í horni sem við getum leitað til varðandi þjálfunar ráð Þormóð, Bjarna Skúla, Jón Þór og fleiri. Takk fyrir mig!