Þeir Logi Haraldsson og Árni Lund komu heim s.l. föstudag eftir viku æfingabúðir í Mittersill í Austurríki. Þátttakendur voru nálægt 1000 manns frá fimm heimsálfum. Hér er umfjöllun um þessar æfingabúðir.
Dómararáðstefna EJU í Mittersill
JSÍ dómararnir þeir Birki Jóakimsson og Björn Sigurðarson taka nú þátt í IJF dómara og þjálfararáðstefnu sem haldin er í Mittersill samhliða OTC æfingabúðunum þar. Þar er farið yfir allar helstu áherslur í dómgæslu og breytingar á dómarareglunum sem nú taka gildi og munu þeir félagar síðan koma þeim upplýsingum áfram á dómara og þjálfaranámskeiði JSÍ. Á myndinni sem hér til hliðar má greina þá félaga en hér eru fleiri myndir frá ráðstefnunni
Árni og Logi á OTC æfingabúðir
Þeir Árni Lund og Logi Haraldsson fóru í morgun til Austurríkis þar sem þeir munu taka þátt í viku OTC æfingabúðum í Mittersill en þær eru með þeim sterkustu sem haldnar eru ár hvert og að venju allir bestu judomenn og konur heims á meðal þátttakenda. Þessar æfingabúðir hjá þeim ættu að koma sér vel í undirbúningi þeirra fyrir Reykjavík Judo Open sem haldið verður í Laugardalshöllinni 27. janúar.
Æfingar á nýju ári
Æfingar hjá meistaraflokki hefjast aftur miðvikudaginn 3. janúar 2018 en byrjendur og framhaldsflokkar í öllum aldursflokkum hefjast 8. og 9. janúar, sjá nánar hér.
Íþróttamaður ársins 2017
Í hófi sem Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands héldu í Hörpu 28. desember þar sem kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur var kjörinn íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna veitti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands einnig viðurkenningar til íþróttakvenna og íþróttamanna ársins 2017 í sérgreinum íþrótta. Þar fengu judomaður og judokona ársins þau Þormóður Árni Jónsson, JR og Anna Soffía Víkingsdóttir, KA sínar viðurkenningar afhentar. Þar sem að Anna Soffía komst ekki til að taka við sinni viðurkenningu tók Jóhann Másson formaður JSÍ við henni fyrir hennar hönd. Óskum við þeim til hamingju með þessar viðurkenningar og sérstakar hamingjuóskir sendum við til Ólafíu með titilinn íþróttamaður ársins 2017, hún er vel að því komin.
Lokahóf JSÍ 2017
Á lokahófi Júdósambands Íslands 16. desember 2017 var Þormóður Árni Jónsson úr JR valinn Judomaður ársins og Anna Soffia Víkingsdóttir úr KA judokona árins. Efnilegustu voru þau Aleksandar Lis úr ÍR og Alexander Heiðarsson úr KA. Dómari ársins er Jón Kristinn Sigurðsson og var hann einnig heiðraður með bronsmerki JSÍ fyrir uppbyggingu dómaramála en hann hefur verið afar ötull við það starf. Einngi var Edda Ósk Tómasdóttir úr KA heiðruð með bronsmerki JSÍ fyrir þjálfun og félagsstörf hjá Judodeild KA. Þeir fyrstu sem luku Þjálfari I. hjá JSÍ fengu Diploma því til staðfestingar en það voru þeir Ásgeir Erlendur Ásgeirsson úr ÍR, Einar Örn Hreinsson úr Tindastól og Guðmundur Björn Jónasson úr JR. Það voru þrettán aðilar sem tóku 1. dan á árinu og sex sem tóku 2. dan og auk þeirra voru þeir Bjarni Skúlason úr Ármanni og Hans Rúnar Snorrason úr KA, heiðursgráðaðir í 2. dan. Hér eru allar dan gráðurnar. Sigurður Helgi Jóhannsson úr JR var kjörinn heiðursformaður JSÍ á ársþingi þess 2015. Á uppskeruhátíðinni var honum afhent áletrað stuðlaberg og viðurkenningarskjal því til staðfestingar en hann hafði ekki haft tök á að veita því móttöku fyrr en nú.
Fleiri svartbeltar
Ingunn Rut Sigurðardóttir úr JR og þeir félagar Bjarni Darri Sigfússon og Ægir Már Baldvinsson úr Judodeild Njarðvíkur tóku 1. dan í kvöld og stóðu þau sig öll af stakri prýði. Bjarni Darri og Ægir Már eru fyrstu iðkendurnir hjá UMFN sem taka svartabeltið og Ingunn er fimmta konan hjá JR sem það gerir. Oddur Kjartansson var uke hjá Ingunni og Ægir og Bjarni hjá hvor öðrum. Til hamingju öll með áfangann.
Reykjavík Judo Open 2018
Dan gráðupróf JSÍ
JSÍ verður með dan gráðupróf mánudaginn 11. desember kl. 20:15 og verður það haldið hjá Judofélagi Reykjavíkur að Ármúla 17.
Þeir sem hyggjast þreyta prófið þurfa að sækja um það fyrir 10. desember og senda umsóknina á jsi@jsi.is.
Næsta laugardag þ.e 9. des. verður tækniráð JSÍ með kata námskeið fyrir þá sem ætla sér að fara í dan gráðun og verður það haldið hjá Judofélagi Reykjavíkur frá kl. 11-13.
Hér má finna gráðureglur JSÍ, umsóknarform og aðrar upplýsingar um dan gráðanir eins og Nage no kata.
Egill komst ekki áfram
Egill Blöndal átti hörkuglímu í Tokyo á sunnudaginn er hann mætti Jose Luis Arroyo Osorno frá Perú. Egill byrjaði mjög vel og átti ágætis sóknir en því miður skiluðu þær ekki árangri en þó munaði ekki miklu snemma í viðureigninni og bjargaði Jose sér á magann. Jose sótti hinsvegar ekki mikið en þegar hann gerði það þá voru þær sóknir beittar og skiluðu honum wazaari þegar viðureignin var rúmlega hálfnuð og öðru ekki löngu seinna. Egill bætti í og sótti stíft það sem eftir lifði viðureignar og hefði ekki verið ósanngjarnt að Jose hefði verið búinn að fá að minnsta kosti eitt ef ekki tvö shido þegar yfir lauk þar sem hann eiginlega lagðist í vörn til að halda sínu. Að móti loknu tekur Egill þátt í alþjóðlegum æfingabúðum í Tokyo. Hér má sjá viðureignina hans Egils.