Keppa í Svíþjóð og Hollandi

Hollandsfararnir 2017 fv. Emma, Hugi, Anna, Helena, Elías, Jónas, Mikael, Aðalsteinn

Í morgun fór stór hópur keppenda úr JR til að taka þátt í móti í Svíþjóð annarsvegar og í Hollandi hinsvegar og verður keppt á morgun laugardaginn 25. nóv. Mótið í Hollandi heitir International Den Helder Open Judo Championships og fer fram í samnefndri borg. Við keppum þar í  aldursflokkum 8-11 ára og erum við með sjö keppendur og þeim fylgja þrír þjálfarar og foreldrar. Keppendur okkar eru Aðalsteinn Björnsson E-38, Elías Þormóðsson C-34, Emma Thuringer D-25, Helena Bjarnadóttir D+42, Hugi Kristjánsson E-34, Jónas Guðmundsson C-34 og Mikael Ísaksson E-38 og fyrir hópnum fara þjálfararnir Guðmundur Jónasson, Emil Emilsson og Þormóður Jónsson. Því miður hef ég ekki fundið neinn tengil þar sem hægt er að fylgjast með mótinu en set hann hér inn ef hann finnst.

Södra Open 2017 fv. Skarphéðinn, Kjartan, Emilíen, Kári, Hákon

Mótið í Svíþjóð heitir Södra Judo Open  og keppum við í aldurshópnum U15 þ.e. 13-14 ára. Keppendur okkar þar eru fimm þeir Kári Egilsson -55kg, Hákon Garðarsson -60kg, Kjartan Hreiðarsson -66kg, Emilían Ingimundarson -73kg og Skarphéðinn Hjaltason -73kg.  Þjálfarar og fararstjórar eru þeir Garðar Sigurðsson og Heimir Kjartansson. Hér er hægt að fylgjast með gangi mála í Svíþjóð og sjá úrslit mótsins. Bolirnir sem JR ingarnir eru í voru gefnir af Inter Medica og þökkum  við kærlega fyrir styrkinn.

 

 

Judodeild Ármanns 60 ára

Sunnudaginn 19. nóv. sl. hélt Judodeild Ármanns upp á sextugsafmæli sitt en það var stofnað 2. febrúar 1957 og er elsta judofélag landsins. Í tilefni áfangans var haldin  opin sameiginleg æfing þar sem fjölmargir tóku þátt í henni bæði fyrrverandi og núverandi iðkendur deildarinnar sem og iðkendur annara klúbba. Að lokinni æfingu var haldið kaffisamsæti þar sem félagsmenn voru heiðraðir fyrir vel unnin störf til margra ára.
Það er ekki sjálfsagt mál að íþróttafélag nái sextíu ára aldri. Til þess að það gerist þá þarf félagið að hafa öflugt bakland, öfluga og fórnfúsa félaga sem leggja á sig mikla og óeigingjarna vinnu í áraraðir. Judodeild Ármanns hefur verið lánsamt hvað það varðar. Frá upphafi hafa þeir haft á að skipa frábærum mannskap sem lifði og hrærðist fyrir íþróttina. Judodeild Ármanns hefur verið öflugasta judo félag landsins í áraraðir og hefur unnið til flestra Íslandsmeistaratitla bæði í karla og kvenna flokkum fullorðinna.
Judofélag Reykjavíkur óskar Judodeild Ármanns og félagsmönnum þess til hamingju með áfangann og óskar ykkur alls hins besta í framtíðinni.

Birkir Hrafn 1. dan

Gísli Vilborgar og Birkir Hrafn   (Mynd BAF)

Birkir Hrafn Jóakimsson tók svarta beltið 15. nóv. sl. eftir að hafa verið með það brúna í rúm 20 ár svo það var lögu orðið tímabært að fara í 1. dan.  Uke hjá Birki var Gísli Vilborgarson 2. dan. Til hamingju með áfangann Birkir.

JR Íslandsmeistarar 2017 í Sveitkeppni karla

Sigursveit JR 2017. Hermann, Logi, Þormóður, Árni, Oddur og Janusz. (Mynd BAF)

Sveitakeppni karla fór fram í gær og var hún haldin í Skelli hjá Judodeild Ármanns. Það voru óvenjufáar sveitir mættar til leiks að þessu sinni en keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni. Fullt var af flottum viðureignum og köstum sem sjá má hér og má nefna sópið hans Breka Bernharðssonar gegn Birgi Arngrímssyni í -81 kg flokknum, kastið hans Dofra Bragasonar gegn Hauki Ólafssyni í -66 kg flokknum og kastið hans Loga Haraldssonar í -81 kg flokknum JR gegn KA svo eitthvað sé nefnt. Ekki var gólfglíman síðri og mátti sjá frábæra vinnslu þar eins og hjá Agli Blöndal gegn Adam Þórarinssyni í -90 kg flokknum og Hermanni Unnarssyni gegn gegn Arnari Björnssyni í -73 kg flokknum. Sú viðureign sem var þó kanski hvað mest spennandi var milli þeirra Egils Blöndal frá Selfossi og hins unga og efnilega Árna Lund í JR. Þeir kepptu í -90 kg þyngdarflokki og varði sú viðureign allan glímutíman og var gríðalega spennandi en fór svo að lokum að Egill sem er Íslandsmeistari bæði í -90 kg og opnum flokki 2017 og einn okkar sterkasti judomaður í dag sigraði Árna á wazaari eftir hörkuviðureign. Leikar fóru þó þannig þegar upp var staðið að sveit JR sigraði og er Íslandsmeistari 2017, í öðru sæti varð sveit Selfoss og í því þriðja sveit KA. Hér má sjá riðilinn og allar viðureignirnar.

Gull, silfur og brons sveitir 2017 (Mynd BAF)

 

Landsliðsæfing að lokinni Sveitakeppni

Það verður landsliðsæfing U21 og seniora laugardaginn 18. nóv. í beinu framhaldi af Sveitakeppninni sem lýkur um kl. 14:00. Allir 15 ára og eldri judomenn og konur eru velkomin en skyldumæting er hjá þeim sem hafa hug á því að komast í landsliðshóp. Æfingin fer fram hjá Judodeild Ármanns í Laugardal. Landsliðsþjálfarar.

Heimsmeistaramótið OPINN flokkur

Eitt mest spennandi mót ársins verður haldið um helgina en heimsmeistaramót karla og kvenna í OPNUM flokki verður haldið í Marrakesh í Marokkó. Keppni karla verður á morgun laugardaginn 11. nóv. og konurnar keppa svo á sunnudaginn og hefst keppni báða dagana kl. 10:00.  Allir bestu judomenn og konur heimsins eru á meðal þátttakenda. Þar sem ekki var forraðað gátu þeir bestu lent strax saman og það var einmitt það sem gerðist eins og sjá má hér því Teddy Riner og Guram Tushishvili mætast að öllum líkindum í annari umferð en Guram var “næstum” búinn að sigra Teddy á HM í Budapest í september. Hér er umfjöllun um mótið en það má fylgjast með því  í beinni útsendingu.

Allskonar upplýsingar

Hef tekið saman mér til gamans ýmiskonar upplýsingar um judo á Íslandi. Þessar upplýsingar hafa fæstar verið til í tölvutæku formi og hef ég fundið þær í árskýrslum JSÍ, dagblöðum og tímaritum og fleiri stöðum og sett í aðgengilegt form þar sem hægt er að leita t.d. eftir nöfnum, þyngdarflokkum, árum eða gráðum.  Þarna er listi yfir alla Íslandsmeistara karla og kvenna frá upphafi, allar dan gráður og formenn JSÍ  svo eitthvað sé nefnt og ætlunin að bæta einhverju við. Þetta eru ekki tæmandi listar og á eftir að uppfæra  nokkra þeirra en það er allt í vinnslu. JSÍ er að láta útbúa fyrir sig forrit/gagnabanka þar sem allar þessar og fleiri upplýsingar munu verða aðgengilegar á heimasíðu JSÍ  og standa vonir til þess að það verði komið í gagnið fyrir næstu áramót en fram að því má notast við þetta.

Hér fyrir ofan undir Ýmis gögn og JSÍ gögn má finna ofangreint.