Gráðudómaranámskeið JSÍ

Þátttakendur á gráðudómaranámskeiði JSÍ 7. sept. 2018

Föstudaginn 7. september hélt JSÍ/tækniráð námskeið fyrir verðandi gráðudómara og var það í umsjón Björns Halldórssonar og Bjarna Friðrikssonar. Mættir voru þátttakendur frá fimm klúbbum en fleiri höfðu tilkynnt þátttöku en komust ekki að þessu sinni. Þeir sem mættu voru Jóhann Másson, Gísli Vilborgarson, Gunnar Jóhannesson, Ásgeir E. Ásgeirsson, Jón H. Guðjónsson, Halldór Guðbjörnsson, Guðmundur B. Jónasson, Víkingur Þ. Víkingsson, Jón Þór Þórarinsson og Egill Blöndal. Eins og fram kom í tilkynningunni um þetta námskeið sem send var á alla klúbba þá er ráðgert að halda eitt í viðbót fyrir þá sem kæmust ekki á föstudaginn og verður það haldið í október.

Úr gráðureglum JSÍ.
1.6 
Gráðudómarar er útnefndir af JSÍ að loknu námskeiði. Hvert judo félag tilnefnir dómara hjá sér fyrir tvö ár í senn. Sá aðili þarf að vera orðinn 21 árs og að lágmarki með 1.dan og hafa tekið námskeið hjá JSÍ sem haldið er einu sinni á ári.
1.7 Þegar gráðun er lokið, (heilt belti) skal gráðudómari senda gögn þess efnis í gagnagrunn JSÍ ásamt gráðugjaldi og tekur gráðunin gildi þegar fulltrúi tækniráðs hefur staðfest hana í gagnagrunni JSÍ og gráðugjald hefur verið greitt. Ekki er rukkað gráðugjald fyrir hálfu beltin einungis þegar heilt belti er klárað og ekki þarf að senda prófskýrslur vegna þeirra.

Keppni lokið í Bratislava

Þá er European Judo Cup í Bratislava lokið, þetta var geysisterkt mót og fjölmennt en keppendur voru alls 365 frá 36 þjóðum. Egill mætti Olle Mattsson frá Svíþjóð í -90 kg flokknum, þegar um ein og hálf mínúta var liðinn af glímunni reyndi Olle fórnarbragð sem að mistókst og komst Egill í ákjósanlega stöðu og var að vinna í því að festa hann og komast í fastatak en einhvernveginn snerist dæmið við og Olle komst í fastatak og vann viðureignina og Egill þar með úr leik þar sem Olle tapaði næstu. Sveinbjörn mætti Hannes Conrad frá Þýskalandi í -81 kg flokknum og varð að játa sig sigraðann eftir að hafa fengið á sig tvö wazaari með stuttu millibili eftir rúmar tvær mínútur. Þess má geta að Hannes Conrad tók silfrið síðar um daginn. Þar sem Hannes komst þetta langt þá fékk Sveinbjörn uppreisnarglímu og mætti Rússanum Turpal Tepkaev. Sú viðureign stóðu út allan glímutímann og tapaði Sveinbjörn á wazaari. Turpal tók bronsið síðar um daginn. Þormóður mætti Pólverjanum Patryk Broniec í +100 kg flokknum. Patryk skoraði wazaari snemma í viðureigninni og annað um mínútu seinna. Þar sem Patryk komst í fjórðungs úrslit þá fékk Þormóður uppreisnarglímu og mætti Leonid Gasyuk frá Úkraníu. Þormóður mætti sterkur til leiks og virtist ætla að éta hann í tökunum og var ekki langt frá því að skora með mótbragði þegar Leonid  reyndi uchimata snemma í viðureigninni en stuttu seinna reyndi Leonid uchimata aftur og þá tókst það og Þormóður þar með úr leik. Drátturinn er hér og neðar má sjá glímurnar þeirra og tíma. 
Sveinbjörn völlur-1 tími 2:21:17 og seinni glíman 5:16:10
Þormóður völlur-1 tími 2:03:17 og seinni glíman 4:35:50
Egill völlur-3 tími 2:24:24

Á leið til Bratislava

Egill, Þormóður og Sveinbjörn

Þá er æfingabúðunum lokið í Papendal (umfjöllun og myndir) þar sem saman voru komnir margir af bestu judomönnum heims sem þarna eru í sínum lokaundirbúningi fyrir heimsmeistaramótið í Baku í næsta mánuði. Æfingarnar gengu vel hjá okkar mönnum ef undan er skilið að Logi Haraldsson meiddis illa á öxl fyrsta daginn. Hann fór í myndatöku í Hollandi og er óbrotinn og sinar í lagi en liðbönd hafa orðið fyrir hnjaski. Hann er kominn heim og fer í nánari skoðun og kemur þá í ljós hvernig staðan er en hann missir auðvitað af mótinu í Bratislava vegna þessa. Ægir Valsson kom heim í dag en hann ætlaði ekki að keppa á European Judo Cup í Bratislava eins og þeir Egill Blöndal, Sveinbjörn Iura og Þormóður  Jónsson sem eru á leið þangað og keppa þar á sunnudaginn. Dregið verður í riðla annað kvöld og verður drátturinn birtur hér. Hér eru linkar á beina útsendingu, hér má sjá Þormóð og Sveinbjörn á velli-1 og Egil á velli-3 og hér er svo  völlur-2.

Europen Judo Cup – Bratislava 2018

EJU æfingabúðir í Papendal

Á sunnudaginn fóru þeir Egill Blöndal, Logi Haraldsson, Sveinbjörn Iura, Þormóður Jónsson og Ægir Valsson til Hollands þar sem þeir munu taka þátt í EJU æfingabúðunum í Papendal. Á föstudaginn halda svo allir nema Ægir til Slóvakíu og keppa þar á sunnudaginn á European Judo Cup í Bratislava en meira um það þegar nær dregur. Hér neðar er mynd sem tekinn var í Budapest nýlega af hluta þátttakenda í Papendal.

Sveinbjörn, Logi, Jón Þór og Egill

Kvennaæfing á Króknum

Um síðustu helgi var opinn landsliðsæfing kvenna haldin á Sauðárkróki í umsjón Önnu S. Víkingsdóttur landsliðsþjálfara. Æfingarnar voru fjórar og var sú fyrsta á föstudagskvöldið, tvær á laugardaginn og ein á sunnudag. Mættar voru bestu judokonur landsins sem æfðu þar ásamt ungum og efnilegum stúlkum.  







Opin landsliðsæfing kvenna
á Króknum í ágúst 2018

Búið í Budapest

Strákarnir höfðu ekki lánið með sér í Ungverjalandi á Budapest Grand Prix  en þeir féllu allir úr keppni í fyrstu umferð. Logi var lítið kominn inní glímuna þar sem hann hafði ekki náð ekki góðum handtökum á Nicon Zaborosciuc (MDA) sem virtist vera sterkari í þeim en það var þó ekkert farið að reyna á það að ráði því eftir aðeins rúma mínútu nær hann góðu taki á Loga og fer eldsnöggt inn í bragð með annari hendinni og fylgir vel eftir og Logi endaði á bakinu. Það var eitthvað svipað hjá Agli því þegar viðureignin var um það bil hálfnuð og eftir hörku baráttu þar sem ekki mátti á milli sjá hvor hafði betur þá nær Rafal Kozlowski  frá Póllandi skyndilega að festa hægri hendina á Agli og lagðist svo í seoi-nage en Egill náði ekki að stöðva sóknina og féll á bakið og ippon var dæmt. Það verður að segjast eins og er að bæði köstin þ.e. gegn Loga og Agli voru vel útfærð og falleg. Viðureign Sveinbjörns gegn Medickson Del Orbe (DOM) var nokkuð jöfn og hafði Sveinbjörn yfirhöndina fyrstu tæpar tvær mínúturnar en Medickson var þá kominn með shido fyrir sóknarleysi en þá var komið að Sveinbirni að fá refsistig. Þegar um tvær mínútur eru eftir fær hann sitt fyrsta shido fyrir “False Attack” (gervisókn) og annað aðeins hálfri mínútu síðar. Hann mátti því ekki fá fleiri refsistig því þá væri hann búinn að tapa. Eins og áður sagði voru þeir mjög jafnir og börðust vel og þegar um tuttugu sekúndur eru eftir að viðureigninni þá gerðist það, Sveinbjörn fær sitt þriðja shido og tapaði þar með glímunni.

Sveinbjörn, Logi, Jón Þór og Egill

Budapest Grand Prix 2018

Í morgun lögðu af stað til Budapest þeir Sveinbjörn Iura, Egill Blöndal og Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari. Þar munu þeir hitta fyrir Loga Haraldsson sem ásamt þeim tveim fyrstnefndu munu keppa á Budapest Grand Prix um næstu helgi. Keppendur koma frá fimm heimsálfum og níutíu þjóðum og eru þeir alls 626, karlarnir eru 371 og konurnar 255. Logi og Sveinbjörn keppa í -81 kg flokki laugardaginn 11. ágúst og Egill í -90 kg flokki á sunnudaginn og hefst keppni báða dagana kl. 8 að morgni að Íslenskum tíma. Í 81 kg flokknum eru sextíu keppendur og á Logi þriðju viðureign og mætir hann Nicon Zaborosciuc (MDA), Sveinbjörn á níundu eða tuttugustu og þriðju viðureign og mætir hann Medickson Del Orbe (DOM). Egill á tólftu eða tuttugustu og fimmtu viðureign í -90 kg flokknum þar sem keppendur eru fimmtíu og sjö og  mætir hann Rafal Kozlowski  frá Póllandi en hann keppti og vann -90 kg flokkinn á Reykjavík Judo Open 2018. Hér er hægt að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu og hér er drátturinn og gamla útgáfan er hér.

Æfa í Gerlev í Danmörku

Á mánudaginn fóru fimm þátttakendur á æfingabúðirnar í Gerlev í Danmörku og verða þar út vikuna en æft verður tvisvar á dag. Öll Dönsku landsliðin (Seniors, Juniors og Cadett) verða með en auk þeirra er búist við um eitt hundrað þátttakendum víðs vegar úr Evrópu. Þau sem fóru frá Íslandi eru, Ásta Lovísa Arnórsdóttir, Breki Bernhardsson, Dofri Bragason, Edda Tómasdóttir og Ingunn Rut Sigurðardóttir.

Úrslit Grand Prix Zagreb og Junior European Cup Berlín


Það voru fimm íslenskir judomenn sem kepptu erlendis síðustu helgi þ.e. dagana 27 til 29 júlí en það voru þeir Grímur Ívarsson og Úlfur Böðvarsson sem kepptu á Junior European Cup í Berlín  og á Grand Prix í Zagreb kepptu þeir Egill Blöndal -90 kg, Logi Haraldsson og Sveinbjörn Iura báðir í -81 kg. Berlín í beinni útsendingu og hér er drátturinn. Grand Prix í Zagreb í beinni útsendingu og hér er drátturinn.

Það verður að segjast eins og er að okkar menn í Berlín áttu ekki góðan dag  og kanski ekki nema von því þeir eru eflaust orðnir þreyttir eftir fjórar keppnishelgar í röð og erfiðar æfingabúðir á milli en þetta er langhlaup og á þessi fjögurra vikna keppnis og æfingaferð örugglega eftir að skila sér síðar meir. Grímur átti fyrstu viðureign í -90 kg flokknum á sunnudaginn og mætti hann Luka Fettkoether frá Þýskalandi. Glíman var nokkuð jöfn og voru báðir aðilar komnir með tvö shido en Luka náði að skora Wazaari eftir rúma mínútu og ippon þegar tæp mínúta var eftir af viðureignini. Glíman hans Úlfs var öllu styttri og varla byrjuð þegar andstæðingur hans, Giovani Ferreira frá Brasilíu fór eldsnöggt inn í bragð og skoraði ippon með uchimata. Hér eru klippur úr viðureignum þeirra í Berlín.

Í Zagreb áttu okkar menn hörku glímur sem þeir reyndar töpuðu en þær hefðu alveg getað farið á hinn veginn en einhvern veginn lagðist ekkert með okkur þennan daginn. Logi mætti Tamazi Kirakozashvili frá Georgíu sem er fyrrum Evrópumeistari juniora og silfurverðlaunahafi frá heimsmeistaramóti Juniora og gullverðlaunahafi frá Grand Prix í Tiblisi 2018. Logi byrjaði af krafti og hafði í fullu tré við hann, náði sínum tökum og átti góðar tilraunir með uchimata og lyfti Tamazai upp en náði ekki að klára bragðið. Tamazai var mjög ógnandi og sótti í soto tsurikomi, tsuru komi goshi og kosoto gake og í einni sókninni sem að Logi varðist til að byrja með komst Tamzai með mikilli eftirfylgni í beer hug og kastaði Loga á uranage og fékk ippon fyrir kastið sem var kröftugt, hratt og vel stýrt en ekki endilega víst að Logi hafi lent á bakinu heldur frekar á hliðinni og ef svo er þá var ippon full vel gefið en shit happens. Þá var það Sveinbjörn en hann  mætti Sumpor Dominick frá Króatíu.  Sveinbjörn var síst lakari aðilinn og var hann sífellt ógnandi en því miður á árangurs. Þegar viðureignin er umþað bil hálfnuð fer Dominick í arfaslakt tomonage og einhvern veginn nær hann að snúa Sveinbirni á hliðina og skorar wazaari. Við fyrstu sýn virðist þetta ekki vera neitt og og dómarinn dæmir ekkert fyrr en hann fær tiltal í eyrað en þá eu tölvudómarar búnir að skoða kastið og sjá út að Sveinbjörn lendir á hliðinni að hluta og samkvæmt reglunum telst það wazaari. Eftir þetta skor pressaði Sveinbjörn enn meira og var Dominick kominn í vörn og með eitt shido en það dugði ekki til  Sveinbjörn náði ekki að skora og tapar hann viðureigninni á fyrrgreindu wazaari eftir fullan glímu tíma. Þá var komið að Agli en hann mætti Cassar Harrisson frá Ástralíu. Egill var hér sterkari aðilinn en eins og áður sagði féll ekkert með okkar mönnum. Egill átti líklega einar átta sóknir sem hann náði ekki að skora úr en Cassar tvær og skorar úr báðum. Fyrra skorið kom snemma í viðureigninni en Egill sótti í seoinage sem misheppnast en Cassar nær að koma með mótbragð og skorar wazaari. Egill pressar á Cassar og ógnar honum með ýmsum brögðun sem hann nær að verjast en fær á sig refsistig fyrir ólöglega vörn og sóknarleysi og er kominn með tvö shido og ef hann hefði fengið það þriðja þá hefði hann tapað glímunni og þess var ekki langt að bíða því Egil sótti stíft og pressaði á hann og var ekki langt frá því að jafna leikinn þegar hann náði beer hug á Cassar og nær ágætist kasti  en hann bjargaði sér á magann og ekkert skor.  Þegar um 45 sekúndur voru eftir reyndi Egill kouchi gari en var ekki í góðu jafnvægi og Cassar nýtti sér það og komst í tanio toshi og skorar annað wazaari og þar með var glímunni lokið.  Heilt yfir glímdu allir strákarnir okkar feyki vel í Zagreb, engin minnimáttarkennd þrátt fyrir þekkta og öfluga mótherja, sterkir í tökunum og alltaf ógnandi og hefði það verið sanngjarnt að bera meira úr býtum en raunin varð. Ef þeir halda áfram að æfa og glíma með sama hætti og þeir hafa gert og af þessum krafti þá verður þess ekki langt að bíða að  einhver þeirra komist í topp átta  á Grand Prix móti. Hér eru klippur frá glímunum þeirra í Zagreb.