Reykjavíkurmeistaramótið 2019 er í umsjón JR í ár og verður haldið sunnudaginn 3. nóvember og hefst kl. 14:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Kepp verður í aldursflokkum U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum. Eins og nafnið bendir til er þetta mót eingöngu fyrir Reykjavíkurfélögin sem eru Ármann, ÍR og JR. Þeir sem ætla að keppa láti sinn þjálfara vita og félag viðkomandi keppanda sér síðan um að skrá hann í mótið og er lokaskráningardagur fimmtudagurinn 31. okt. í gegnum skráningarkerfi JSÍ.
Afmælismót JR yngri flokkar
Afmælismót JR í yngri flokkum var haldið síðastliðinn föstudag (25. okt.) Því miður var þátttakan ekki mjög mikil að þessu sinni og aðeins um þriðjungur iðkenda mætti en vetrarfrí í skóla hafði sitt að segja og voru margir sem afboðuðu sig vegna ferðalaga og annara ástæðna. En mótið var samt spennandi og skemmtilegt og gaman að fylgjast með upprennandi júdostjörnum sem sýndu flott tilþrif. Hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum og video klippa frá mótinu.
Ingunn og Kjartan með silfur á Opna Finnska
Ingunn Sigurðardóttir og Kjartan Hreiðarsson unnu til silfurverðlauna á Opna Finnska í Turku í dag. Keppendur okkar komu seint á keppnisstað í gær þar sem það stóð illa á flugi og höfðu því lítinn tíma til að ná vigt en það gerðu þó allir nema Ingunn og Kjartan sem voru tæplega kíló yfir og urðu því að keppa í næsta þyngdarflokki ofar. Það kom þó ekki að sök þegar upp var staðið því þau náðu flottum árangri og unnu til silfurverðlauna í þeim flokkum, Ingunnn í -78 kg flokki og Kjartan í U18 -81 kg flokki. Kjartan átti að keppa aftur síðar um daginn í U21 árs -81 kg en hætti við þátttöku þar sem hann lenti illa í úrslitaglímunni í U18 og var ekki búinn að jafna sig. Aðrir keppendur komust ekki á pall að þessu sinni en unnu þó nokkrar viðureignir. Á morgun taka keppendur okkar þátt í alþjóðlegum æfingabúðum sem haldnar eru í tengslum við mótið og koma svo heim á mánudaginn. Myndir frá mótinu verða settar hér inn um leið og þær berast.
Kjartan á æfingu í JR
Opna Finnska 2019
Níu keppendur frá Íslandi keppa á Opna Finnska 2019 í Turku í Finnlandi í dag 26. október og keppt er í aldursflokkum U18, U21 og seniora flokki. Keppendur okkar eru Daníel Árnason B18-55 og M21-55, Ingólfur Rögnavaldsson B18-66 og M21-66, Gylfi Edduson B18-66 og M21-66, Kjartan Hreiðarsson, B18-81 og M21 -81, Skarphéðinn Hjaltason B18-81 og M21-81, Oddur Kjartansson M21-81 og M-81, Logi Haraldsson M-81, Hrafn Arnarsson M21-90 og M-90 og Ingunn Sigurðardóttir -W78 kg. Með þeim í för er Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari og Þormóður Jónsson aðstoðarþjálfari og fararstjóri. Á sunnudaginn verður svo tekið þátt í alþjóðlegum æfingabúðum sem haldnar eru í tengslum við mótið. Hér er drátturinn og keppnisröðin og bein útsending.
Komust í aðra umferð á Abu Dhabi GS.
Þá er Abu Dhabi Grand Slam lokið en þeir Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura kepptu í dag og í gær og komust báðir í aðra umferð. Sveinbjörn mætti Sacha Denanyoh frá TOG og sigraði hann örugglega en Sacha fékk þrjú shido á innan við tveim mínútum og tapaði þar með viðureigninni. Næst mætti Sveinbjörn Vedat Albayrak frá Tyrklandi en hann er í 5. sæti heimslistans. Sveinbjörn byrjaði af krafti og leit ágætlega út en það dugði ekki til og tapaði hann viðureigninni eftir umþað bil eina mínútu og lauk þar með keppni. Egill átti að glíma við Dmytro Berezhny frá UKR en hann mætti ekki, hefur líklega ekki náð vigt svo Egill fór beint í aðra umferð. Þar mætti hann Kukolj Aleksandar frá Serbíu en hann er fyrrum Evrópumeistari og er í 9. sæti heimslistans. Þetta var hörkuviðureign sem lauk því miður með sigri Kukolj eftir umþað bil tvær mínútur og þar með var keppni Egils lokið á þessu móti eins og Sveinbjörns. Egill kemur heim að loknu þessu móti en Sveinbjörn verður áfram úti og keppir næstu helgi (3-4 nóv.) í Ástralíu á Perth Oceania Open og síðan 22-24 nóv. á Osaka Grand Slam og kemur svo heim að því loknu.
Abu Dhabi Grand Slam 2019
Abu Dhabi Grand Slam hófst í dag og eru þeir Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura á meðal þátttakenda og keppir Sveinbjörn á morgun og Egill á laugardaginn og hefst keppnin báða daga kl. 5 að morgni að Íslenskum tíma. Dregið var í gær og mætir Sveinbjörn Sacha Denanyoh frá TOG og er hann í 209 sæti heimslistans og Egill mætir Dmytro Berezhny frá UKR sem er í 143 sæti. Ef vel gengur í fyrstu umferð þá verður róðurinn erfiður í þeirri næstu því andstæðingar þeirra þá verða keppendur í 5-9 sæti heimslistans og myndi Sveinbjörn mæta Vedat Albayrak frá Tyrklandi en hann var í 3. sæti á HM 2018 og Egill myndi mæta Kukolj Aleksandar Evrópumeistara 2017. Þátttakendur eru 553 frá 5 heimsálfum og 95 þjóðum. Karlarnir eru 322 og konurnar eru 231. Hér er keppnisröðin og á Sveinbjörn 14 viðureign á velli 1 og Egill 5 viðureign á velli 2. Hér er tengill á beina útsendingu.
Haustfagnaður JR föstudaginn 1. nóv.
- Föstudagur, 1. nóvember 2019 frá 19:00 til 22:30
- Resturant Reykjavík, Vesturgötu 2, 101 Reykjavík
Haustfögnuður Júdofélags Reykjavíkur er viðburður sem haldin er til styrktar yngriflokkastarfi Júdofélags Reykjavíkur. Komum saman og gerum okkur glaðan dag um leið og við styðjum við grasrót félagsins.
Til þess að staðfesta komu ykkar á haustfögnuðinn þarf að millifæra 5.000 kr. á reikning 0323-26-5300 kt: 670169-4729 og setja “Haustfögnuður” í skýringu. Einnig er hægt að greiða með korti á skrifstofu Júdofélags Reykjavíkur. Skráningafrestur er 25. okt.
Matseðill
Hægeldaður lambabógur, ásamt grænmeti, kartöflum og rauðrófum. Borið fram með rauðvínssósu.
Dagskrá · föstudagur 1. nóvember 2019
19:00 – 20:00 Fordrykkur
20:00 – 21:30 Kvöldverður
21:30 – 22:30 Opinn Bar
Grand Slam Brasilía
Grand Slam Brasilía sem hófst á sunnudaginn lýkur í dag með keppni í -90, -100 og +100 kg flokkum karla og -78 og +78 kg flokkum kvenna. Keppnin hófst í dag kl. 14 á okkar tíma og lýkur kl. 22 í kvöld. Hér er drátturinn og keppnisröðin og hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Athygli vekur að tvöfaldur Ólympíumeistari og margfaldur heimsmeistari Teddy Riner er á meðal þátttakenda og er það hans annað mót í tvö ár og þar af leiðir er hann ekki á meðal þeirra efstu á heimslistanum og er því ekki forraðað og ekki búinn að tryggja sér farseðil á Ólympíuleikana á næsta ári. Líklegt má telja að hann mæti Lukas Krpalek frá Tékklandi í fjórðungs úrslitum en hann er í öðru sæti heimslistans en sigurvegarinn þar fer í úrslitin en hinn keppir um bronsverðlaunin. Þátttakendur eru 316 frá 5 heimsálfum og 55 þjóðum, 176 karlar og 140 konur. Að þessu sinni verða engir íslendingar á meðal þátttakenda en Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura keppa næst á Abu Ghabi Grand Slam 24-26 október.
Úrslit Haustmóts JSÍ 2019
Haustmót JSÍ 2019 var haldið í Grindavík í gær. Að þessu sinni var keppt í öllum aldursflokkum sama dagin en undanfarin ár hefur mótið verið tvískipt þannig að keppt hefur verið í senioraflokkum á öðrum tíma. Þar sem keppa átti í öllum aldursflokkum sama daginn varð að keppa á tveimur völlum svo mótið myndi klárast á skikkanlegum tíma og gekk það upp en mótið hófst kl. 10 og lauk rúmlega 14. Þátttakendur komu frá níu klúbbum sem er fjölgun um tvo frá 2018 en keppendur voru samt nokkuð færri nú en í fyrra og er það áhyggjuefni. Mótið sem var í umsjón Júdodeildar UMFG var vel undirbúið og umgjörð og aðstaða keppenda og starfsmanna góð. Dómarar voru sjö en það voru þau Andres Palma, Ármann Sveinsson, Björn Sigurðarson, Birkir Hrafn Jóakimsson, Marija Skúlason, Sævar Sigursteinsson og Yoshihiko Iura og stóðu þeir sig með sóma að venju og Þormóður Árni Jónsson var mótsstjóri. Við JR ingar vorum með tuttugu og níu keppendur og gekk þeim afar vel og unnu þeir til flestra verðlauna eða þrettán gullverðlaun, sex silfur og níu bronsverðlaun. Nánar hér og myndir frá mótinu og verðlaunahöfum hér neðar.
Weronika 11 ára
Weronika Komendera varð 11 ára 2. október og bauð til afmæliskaffis að lokinni æfingu. Til hamingju með daginn Weronika.