Södra Open 4 í Svíþjóð næsta laugardag

Södra Open 4 verður haldið 23. nóv. næstkomandi í Haninge í suður Svíþjóð. Frá JR fara tólf keppenur í aldursflokum U9, U13 og U15. Með þeim farar nokkrir foreldrar og þjálfarar og er telur hópurinn alls nítján manns. Á þessu móti verða einnig sjö keppendur frá UMFN og þrír keppendur úr kvennalandsliðinu á vegum JSÍ og er Ásta Lovísa Arnórsdóttir úr JR þar á meðal. Þjálfari JR og fararstjóri eru Guðmundur Jónasson og Þormóður Jónsson. Þátttakendur eru rúmlega 360 frá fjórum löndum. Hér er keppendalistinn og gert er ráð fyrir að hægt verði að fylgjast með beinni útsendingu hér.

Ferðaáætlun. Út föstudaginn 22. nóv.  Flug FI 306 kl. 7:35 lent í Stokkhólmi  11:45. Tekinn bílaleigubíll á Arlanda flugvelli og keyrt til Haninge sem er um það bil 60 km suður af Arlanda. Gist á Hotel Quality Hotel Winn Haninge og er íþróttahöllin um 2 km frá hótelinu. Allir keppa á laugardegi og farið heim á sunnudegi kl. 21:20 með flugi FI 313 og lent í Keflavík kl. 23:45.

Sveitakeppni JSÍ úrslit – JR með fjögur gull

Íslandsmót 2019 í sveitakeppni JSÍ fór fram í gær og var það haldið hjá Júdofélagi Reykjavíku. Ákveðið var að halda keppnina sama dag í öllum aldursflokkum en ekki í sitthvoru lagi eins gert hefur verið fram að þessu og var því keppt í U15, U18, U21 og senioraflokki. Því miður gátu ekki öll félög sent sveitir í þessa sögulegu og mest spennandi keppni hvers árs sem sveitakeppnin jafnan er og skipar einn stærstan sess í sögu hvers félags. KA var ekki með að þessu sinni og Júdodeild Ármanns ekki heldur og munar um minna og aðeins ein kvennasveit (JR) var skráð til leiks svo ekki var keppt í senioraflokki kvenna. Keppnin var engu að síður ákaflega skemmtileg eins og jafnan er í sveitakeppni og voru margar spennandi viðureignir og allmargar fóru í gullskor því keppendur voru oft það jafnir. Í U15 voru fjórar drengjasveitir og tvær stúlknasveitir og voru þær frá eftirtöldum klúbbum, JR, Njarðvík, Selfossi og Þrótti. Í drengjasveitunum sigraði sveit JR, í öðru sæti var sveit Selfoss og Þróttarar urðu í þriðja sæti. JR ingar sigruðu einnig í keppni stúlkna og Njarðvík varð í öðru sæti. Ekki var keppt í U18 en þar var bara ein sveit skráð til leiks með fullmannaða sveit. Í U21 voru tvær sveitir skráðar til leiks og sigraði sveit JR sveit Selfyssinga sem varð þá í öðru sæti. Í sveitakeppni karla voru þrjár sveitir og þar af tvær frá JR og ein frá Selfossi og fóru leikar eins og í fyrra þannig að JR-A sigraði, sveit Selfoss varð í öðru sæti og JR-B í því þriðja. JR er því Íslandsmeistari karla 2019 og er það í sjöunda skipti í röð og í nítjánda skipti alls. Með sigrinum núna var met frá 1974-1980 jafnað en JR ingar þeirra daga sigruðu einnig sjö ár í röð. Keppnin var fyrst haldin árið 1974 og var þetta í 44 skiptið sem keppt er en hún féll niður 1993 og 2002. JR og Júdodeild Ármanns hafa sigrað nítján sinnum hvort félag, Júdodeild KA fimm sinnum og UMFK einu sinni, sjá hér. Hér neðar eru öll úrslitin 2019.

Karlar riðill Karlar viðureignir

U21 karlar riðill U21 karlar viðureignir

U15 drengir riðill U15 drengir viðureignir

U15 stúlkur riðill U15 stúlkur viðureignir

Sveitakeppnin 2019 á laugardaginn

Íslandsmeistaramótið 2019 í sveitakeppni (liðakeppni) verður haldið laugardaginn 16. nóv. í JR. Keppt verður í aldursflokkunum U15 (11-14 ára), U21 og senioraflokki. Mótið hefst kl. 11 og lýkur um kl. 13. Keppendur mæti ekki seinna en 10:30. Vigtun á föstudaginn í JR frá 18 -19 og einnig verður hægt að vigta sig á laugardagsmorguninn frá 9:30-10.

Í karlaflokki verða tvær sveitir frá JR og ein frá Selfossi, í U21 verður sveit frá JR og Selfossi og í U15 verða fjórar sveitir og eru þær frá JR, Selfossi, Njarðvík og Þrótti. Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum JR frá sveitakeppninni 2018.

Frestun á Vignisbikarnum

Því miður þarf að fresta um óákveðinn tíma Vignisbikarnum sem halda átti á morgun sunnudaginn 10. nóvember í Júdodeild Ármanns. Tilkyning og frekari upplýsingar um mótið verður send út til klúbba þegar ný dagsetning hefur verið ákveðin.

Vignisbikarinn 2019

Sunnudaginn 10. nóvember næstkomandi heldur Júdódeild Ármanns júdómót í Skelli til að heiðra minningu fallins félaga, Vignis Grétars Stefánssonar. Mótið byrjar kl. 10:00 og verður keppt í aldursflokkunum U9, U11, U13 og U15.
Þátttökugjald er 1.000 krónur og aðgangseyrir fyrir eldri en 12 ára er 500 krónur. Allur ágóði af mótinu rennur í Framtíðarsjóð Vignissona, þeirra Sindra Dan og Snævars Dan.
Skráning sendist á vignisbikarinn@gmail.com. Skráningu þarf helst að skila fyrir laugardaginn 9. nóvember.

Sveinbjörn komst ekki áfram á Perth Open

Því miður féll Sveinbjörn úr keppni í nótt á Perth Oceania Open þegar hann tapaði fyrir  Nicholas Delpopolo frá USA. Þetta var snörp viðureign sem lauk með sigri Nicholas þegar hann náði sterkum handtökum og fór eldsnöggt í sode tsurukomi goshi og skoraði Ippon. Meðfylgjandi er video klippa frá kastinu. Nicholas féll einnig úr keppni í næstu umferð er hann tapaði fyrir Aslan Lappinagov frá RUS en hann er í 9 sæti heimslistans. Mótið var gríðasterkt og í 81 kg flokknum voru fjölmargir Grand Slam verðlaunahafar og meðal annara Vedat Albayrak bronsverðlaunahafi frá HM frá 2018 sem er núna í 4. sæti heimslistans en hann varð að sætta sig við tap í þriðju umferð. Frá Ástralíu fer Sveinbjörn til Japans og mun æfa þar næstu vikur og taka síðan þátt í Osaka Grand Slam 22-24 nóvember.

Reykjavíkurmeistaramótið 2019 – Úrslit

Reykjavíkurmeistaramótið 2019 var haldið í dag hjá Júdofélagi Reykjavíkur. Keppendur voru frá Reykjavíkurfélögunum þremur þ.e. Júdodeild Ármanns, Júdodeild ÍR  og Júdofélagi Reykjavíkur. Keppt var í aldursflokkum U13, U15, U18 og karlaflokki og voru keppendur alls tuttugu og einn sem var í slakara lagi eins og reyndar undanfarin ár og þarf eitthvað að gera svo iðkendur taki þátt í þessu móti sem og öðrum. Í aldursflokkum U13 og U15 voru þyngdarflokkar eitthvað sameinaðir til að allir þátttakendur fengu keppni en það varð auðvitað til þess að sumir urðu að glíma við eitthvað þyngri mótherja en þeir létu það ekki á sig fá og stóðu sig með sóma. Viðureignirnar voru mjög jafnar og spennandi og fóru allnokkrar í gullskor. Svo jafnar voru sumar viðureignirnar að í eitt skiptið í U13 þegar viðureign var búin að standa í rúmar sex mínútur sem alla jafnan er bara tvær mínútur var hún stöðvuð og ákveðið var að notast við hlutkesti til að ákvarða sigurvegara. Í U18 var keppt í tveimur þyngdarflokkum en U21 og karlaflokkur í -73 og -81 kg voru sameinaðir í einn flokk þ.e. -81 kg flokk karla og sigraði Kjartan Hreiðarsson þann flokk nokkuð örugglega. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Sveinbjörn keppir í nótt í Ástralíu

Sveinbjörn Iura keppir um kl. 2:30 í nótt (4. nóv.) á Perth Oceania Open í Ástralíu og á hann níundu viðureign en keppnin hófst í dag og klárast á morgun. Sveinbjörn fór upp um 11 sæti heimslistans á síðasta Grand Slam móti og er núna í 80. sæti. Hann mætir Nicholas Delpopolo frá USA sem er í 52 sæti heimslistans í -73 kg en hann er nýfarinn að keppa í -81 kg flokki og er þar í 149 sæti. Hér er drátturinn og hér neðar er hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á þremur völlum og er 81 kg flokkurinn á velli 1.

Völlur 1.Völlur 2.Völlur 3.

Reykjavíkurmeistaramótið 2019

Reykjavíkurmeistaramótið 2019 er í umsjón JR í ár og verður haldið sunnudaginn 3. nóvember og hefst kl. 14:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Kepp verður í aldursflokkum U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum. Eins og nafnið bendir til er þetta mót eingöngu fyrir Reykjavíkurfélögin sem eru Ármann, ÍR og JR. Þeir sem ætla að keppa láti sinn þjálfara vita og félag viðkomandi keppanda sér síðan um að skrá hann í mótið og er lokaskráningardagur fimmtudagurinn 31. okt. í gegnum skráningarkerfi JSÍ.

Afmælismót JR yngri flokkar

Afmælismót JR í yngri flokkum var haldið síðastliðinn föstudag (25. okt.) Því miður var þátttakan ekki mjög mikil að þessu sinni og aðeins um þriðjungur iðkenda mætti en vetrarfrí í skóla hafði sitt að segja og voru margir sem afboðuðu sig vegna ferðalaga og annara ástæðna. En mótið var samt spennandi og skemmtilegt og gaman að fylgjast með upprennandi júdostjörnum sem sýndu flott tilþrif. Hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfum og video klippa frá mótinu.

U11 -38 kg
U13 -38 kg
U15 -66 kg