Alexander keppti á EC juniora í Póllandi

Junior European Judo Cup í Poznan í Póllandi hófst í dag og er Alexander Heiðarsson -66 kg á meðal þátttakenda. Keppendur karla eru 113 og 66 konur eða alls 179 keppendur frá 25 þjóðum. Alexander keppti í morgun og fékk mjög öflugan mótherja Abrek Naguchev frá Rússlandi. Abrek vann þá glímu eftir snarpa viðureign í vel útfærðri gólfglímu. Þar sem Abrek komst í undanúrslit (vann svo flokkinn síðar um daginn) þá dróg hann upp þá sem höfðu tapað fyrir honum þannig að Alexander fékk uppreisnarglímu og mætti aftur mjög öflugum keppenda, Yhonice Goueffon frá Frakklandi en sá fékk bronsverðlaunin síðar um daginn. Viðureignin var einnig í styttra lagi þar sem Yhonice náði tveimur wazaari köstum með stuttu millibili og gerði þar með út um glímuna. Hér er drátturinn og hér er hægt að fylgjast með með keppninni á þremur völlum í beinni útsendingu  en Alexander keppti á velli 2. Aðstoðarmaður Alexanders á þessu móti var var faðir hans Heiðar Jónsson.

Alexander og Yhonice

Júdomót um allan heim

Það var víðar keppt en í Zagreb og Berlín um helgina eins og sjá mátti á ippon.org í dag voru ein sjö mót að minnsta kosti í gangi á sama tíma og öll í beinni útsendingu. Hér er smá samantekt um mótin en alls voru tæplega 3.000 manns sem öttu kappi saman víðs vegar um heiminn, karlarnir 1.735 og konurnar 821 eða 2.556 manns.

Asian Pacific Championship Cadets 2019, karlar 94 og konur 65 = 159
Asian Pacific Championship Juniors 2019, karlar 100 og konur 70 = 170
Junior European Judo Cup Berlin 2019, karlar 308 og konur 162 = 470
Veteran European Championships 2019, karlar 654 og konur 124 = 778
IBSA Judo European Championships 201, karlar 88 og konur 42 = 130
European Youth Olympic Festival Judo 2019, karlar 165 og 132 = 297
Grand-Prix Zagreb 2019, karlar 326 og konur 226 = 552

Keppni lokið hjá Hrafni og Alexander í Berlín

Í gær keppti Alexander Heiðarsson -66 flokknum á Junior European Judo Cup í Berlín og mætti hann Falk Biedermann frá Þýskalandi. Þetta var hörku viðureign sem lauk með sigri þjóðverjans með Sankaku- jime þegar um 40 sekúndur voru eftir af viðureigninni en hann hafði þá áður skorað wazaari. Í dag keppti svo Hrafn Arnarsson -90 kg flokknum og mætti hann Martin Bezdek frá Tékklandi og varð að játa sig sigraðan eftir rúma mínútu. Þar sem Martin komst í undanúrslit (endaði í öðru sæti) þá fékk Hrafn annað tækifæri og mætti þá hörkukeppanda frá Brasillíu Igor Morishigue en beið lægri hlut eftir stutta viðureign. Hér má finna öll úrslitin og myndbönd frá mótinu.

Hrafn og Igor Morishigue
Alexander og Falk Biedermann

Egill og Sveinbjörn, keppni lokið í Zagreb

Þá er keppni lokið hjá Agli Blöndal og Sveinbirni Iura á Zagreb Grand Prix 2019. Sveinbjörn mætti Timo Cavelius frá Þýskalandi í -81 kg flokknum og tapaði þeirri glímu á ippon eftir stutta viðureign. Egill mætti Faruch Bulekulov frá Kyrgystan og tapaði einnig sinni glímu eftir stutta viðureign en Faruch skoraði tvívegis wazaari með skömmu millibili. Næsta mót hjá þeim félögum er þátttaka á heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Tokyo seinnipart ágúst.

ZAGREB GRAND PRIX 2019

Egill BlöndalSveinbjörn Iura og Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari eru í Zagreb í Króatíu en Zagreb Grand Prix hófst í dag föstudaginn 26. júlí og stendur í þrjá daga. Keppendur eru 558 og koma frá 87 þjóðum, 332 karlar og 226 konur. Sveinbjörn keppir á laugardaginn 27. júlí og Egill daginn eftir. Sveinbjörn á 22. glímu í –81kg flokknum og er mótherji hans er Timo Cavelius frá Þýskalandi. Egill sem keppir í –90 kg flokknum á 6. glímu og mætir Faruch Bulekulov frá Kyrgystan en þeir þekkjast því hann hann mætti honum í Marrakech í vetur. Keppnin verður í beinni útsendingu og hefst kl. 10 báða daganna eða kl. 8 að morgni að íslenskum tíma. Hér er drátturinn

Junior European Judo Cup í Berlín

Junior European Judo Cup í Berlín hefst á morgun og eru þeir Alexander Heiðarsson -66 kg og Hrafn Arnarsson -90 kg á meðal þátttakenda. Alexander keppir á morgun og mætir Falk Biedermann frá Þýskalandi og Hrafn keppir á sunnudaginn og mætir Martin Bezdek frá Tékklandi. Hér er drátturinn og hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu. Garðar Skaptason þjálfari er með strákunum í Berlín og verður með þeim í æfingabúðunum að loknu móti eins og í Prag en heldur þá heim ásamt Hrafni en Alexander mun keppa þriðju helgina í röð og nú í Póllandi 3. ágúst og honum til aðstoðar þar verður faðir hans Heiðar Jónsson.

Alexander og Hrafn í æfingabúðunum í Nymnburg 2019

Úrslit EC Juniora í Prag

Junior European Judo Cup í Prag var haldið síðastliðna helgi og þar áttum við tvo fulltrúa. AlexanderHeiðarsson keppti í – 66kg flokki og mætti Ian Stoermer frá Þýskalandi en varð að játa sig sigraðan eftir snarpa viðureign og má sjá hana hér. Hrafn Arnarsson átti að mæta Alex Barto frá Slóvakíu en varð að gefa þá viðureign þar sem hann var í vandræðum með vigtina og ekki leyfilegt að skipta um flokk að loknum skráningarfresti. Hér eru úrslitin.

Keppa á Junior European Judo Cup

Þeir Alexander Heiðarsson og Hrafn Arnarsson munu næstu þrjár helgar keppa á Junior European Judo Cup sem haldin eru nú víðsvegar um Evrópu. Samhliða þessum mótum verða svo haldnar alþjóðlegar æfingabúðir sem þeir munu taka þátt í. Þeir lögðu af stað í gær og fyrsta mótið er í Prag og keppir Alexander á morgun laugardaginn 20. júlí í -66 kg flokki og mætir hann Ian Stoermer frá þýskalandi og Hrafn keppir á sunnudaginn í – 81 kg flokki og mætir Alex Barto frá Slóvakíu. Hér er drátturinn og hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Eftir mót og æfingabúðir í Prag þá keppa þeir næst á European Judo Cup í Berlín 27-28 júlí og viku æfingabúðir af þeim loknum en þá heldur Hrafn heim á leið en Alexander tekur eitt mót til viðbótar viku seinna, European Judo Cup í Poznan í Póllandi og kemur svo heim. Með strákunum í för er Garðar Skaptason sem verður þeim til halds og trausts fyrstu tvö mótin og í Póllandi verður Heiðar Jónsson aðstoðarmaður Alexanders.

Frá æfingu aldursflokka 8-14 ára

Það er líf og fjör hjá krökkunum í aldursflokkunum 8-14 ára og hafa æfingarnar í sumar verið vel sóttar. Í fyrradag tók Hilmar Þ. Hákonarson gráðuna 5. kyu (gult belti ).

Hilmar Þ. Hákonarson og þjálfari hans Guðmundur B. Jónasson.

Budapest Grand Prix um helgina

Veislan heldur áfram og nú er komið að Budapest Grand Prix sem hefst á morgun, föstudaginn 12 júlí og stendur í þrjá daga. Þátttakendur eru 550 allt heimsklassa keppendur sem koma frá 5 heimsálfum og 82 þjóðum, 344 karlar og 206 konur. Að þessu sinni verða engir íslendingar á meðal þátttakenda en Egill Blöndal og Sveinbjörn Iura keppa næst í Zagreb 26-28 júlí. Á morgun verður keppt í W: -48 kg, -52 kg, -57 kg, M: -60 kg, -66 kg. Á laugardaginn í W: -63 kg, -70 kg, M: -73 kg, -81 kg og á sunnudaginn í W: -78 kg, +78 kg, M: -90 kg, -100 kg, +100 kg. Hér er drátturinn og hér er keppnisröðin.  Mótið verður í beinni útsendingu og hefst kl. 08:30 á okkar tíma. Góða skemmtun.