Garðar Hrafn Skaftason 4. dan

Garðar Hrafn Skaftason UMFS tók í dag gráðuna 4. dan og gerði það með glæsibrag. Óskum við honum til hamimgju með gráðuna. Uke hjá Garðari var Arnar Ólafsson varaformaður JSÍ. Garðar er einn af sjö Íslendingum með þessa gráðu. Hér neðar er mynd af þeim félögum Arnari og Garðari að lokinni gráðun í dag.

F.v. Arnar Ólafsson og Garðar Hrafn Skaftason

Ásta júdokona ársins og Kjartan efnilegastur

Á uppskeruhátíð JSÍ í dag voru veittar ýmsar viðurkenningar eins og fyrir þjálfaranám, dómari ársins, staðfesting á dan gráðum, bronsmerki JSÍ og síðast en ekki síst tilkynnt um val á júdomanni og konu ársins og þau efnilegustu í U18/U21. Ásta Lovísa Arnórsdóttir úr JR var útnefnd júdokona ársins 2019 og Sveinbjörn Iura úr Ármanni Júdomaður ársins og efnilegust voru þau Kjartan Hreiðarsson úr JR og Heiðrún Pálsdóttir úr UMFN og óskum við þeim til hamingju með útnefninguna. Á myndunum hér neðar afhendir varaformaður JSÍ Arnar Ólafsson þeim Ástu og Kjartani viðurkenningar sínar.

Jólamót/Afmælismót JR 2019 senioraflokkur

Jólamót JR/Afmælismót í senioraflokkum var haldið föstudaginn 13. desember. Keppt var í tveimur flokkum karla og tveimur kvenna. Þetta mót var fyrst haldið 2006 og er þetta þá það fjórtánda. Í kvennaflokkum hefur verið keppt í -57 kg og +57 kg en í karlaflokkum -66, -73, -81, -90 og +90 kg. Keppt er um farandbikara sem orðnir eru sögulegir en þeir eru áletraðir nöfnum fyrrum sigurvegara sem sumir hverjir eru hættir keppni og voru okkar bestu júdomenn þess tíma. Það hefur verið frekar létt yfir þessu móti og enginn að kippa sér upp við það þó að áhorfendur eða jafnvel dómarinn “rétti sínum manni hjálparhönd” í miðri viðureign en alltaf fer þó réttur sigurvegari af velli. Ásta Lovísa Arnórsdóttir sigraði í -57 kg, Ingunn Rut Sigurðardóttir sigraði í +57 kg. Þyngdarflokkar karla -73 og -81 kg voru sameinaðir og sigraði Zaza Simonishvili þann flokk og Jón Þór Þórarinsson sigraði sameiginlegan flokk -90 /+90 kg og að lokum þá sigraði gamla kempan Halldór Guðbjörnsson sinn flokk örugglega þar sem að mótherjar hans þeir Bjarni Skúlason og Karel Halldórsson voru hvergi sjáanlegir og mættu ekki til leiks. Dómarar voru þeir Eiríkur Kristinsson og Andres Palma og þökkum við þeim kærlega fyrir hjálpina. Hér eru úrslitin og nokkrar myndir frá mótinu.

Jólaæfing JSÍ hjá 11-14 ára

Það voru fjórtán JR ingar sem mættu á Jólaæfingu Júosambands Íslands ásamt þjálfurum um helgina og auk þeirra voru iðkendur frá Ármanni, UMFG og JG ásamt þjálfurum. Þormóður Jónsson framkvæmdastjóri JSÍ sá um skipulagningu og Andres Palma stjórnaði æfingunni og gerði það afar vel og voru krakkanir mjög ánægðir með hana. Að lokinni æfingu var öllum þátttakendum boðið upp á léttar veitingar, pizzu og drykki. Hér eru nokkar myndir frá viðburðinum.

Jólaæfing Júdosambandsins fyrir 11-14 ára

Það verður ekki æfing í JR hjá 11-14 ára næsta föstudag því við munum taka þátt í Jólaæfingu Júdosambands Íslands sem haldin verður á sama tíma . JSÍ mun standa fyrir sameiginlegri Jólaæfingu allra klúbba í aldursflokknum 11-14 ára næsta föstudag þ.e. 13. desember og hefst hún kl. 17:30 og stendur í um 60 mín. Myndatökulið verður á staðnum og verður myndefni frá æfingunni notað til kynningar á íþróttinni. Að lokinni æfingu verður boðið upp á pizzu og drykki. Æfingin fer fram hjá Júdodeild Ármanns í Laugardal.

Hugo Lorain verður með æfingar í JR

Vinur okkar Hugo Lorain sem var þjálfari hjá JR frá ágúst 2017 til júní 2018 er kominn í stutta heimsókn og mun hann sjá um nokkrar æfingar í JR næstu daga. Meistaraflokksæfingin kl. 18:30 í dag verður í umsjón hans og er hún opinn öllum klúbbum og eru landsliðsmenn bæði í U18/21 og seniora sérstaklega hvattir til að mæta. Á föstudaginn mun Hugo ásamt Jóni Þór sjá um landsliðsæfinguna kl. 18:30. Hér neðar eru nokkar myndir af Hugo á æfingum og í keppni hér á landi en hann keppti meðal annars á RIG 2018 og vann gull í -100 kg flokki og 2019 varð hann í öðru sæti.

Kyu gráðanir í JR

Nú standa yfir gráðanir í öllum aldursflokkum hjá JR og í gær 2. desember fóru níu krakkar í aldursflokknum 11-14 ára í gráðun og tóku sex þeirra 5. kyu (gult belti), einn tók 4. kyu (appelsínugult belti og tveir tóku 3. kyu (grænt belti) og stóðu þeir sig allir með sóma.

Að loknu vel heppnuðu gráðuprófi

Sveinbjörn með brons í Hong Kong

Sveinbjörn Iura keppti í nótt á Hong Kong Asian Open og sat hann hjá í fyrstu umferð en mætti svo Kamon Saithongkaew frá Thailandi og sigraði Sveinbjörn hann eftir 44 sekúndur. Næst mætti hann David Gabaidze frá Rússlandi og var það hörkuviðureign sem lauk með sigri Rússans eftir tæpar þrjár mínútur og höfðu þá báðir fengið sitthvort refsistigið. Þar sem Sveinbjörn var kominn í átta manna úrslit fékk hann uppreisnarglímu og mætti þar Alex Jacobson (USA) sem hann sigraði eftir aðeins 35 sekúndur og var þar með kominnn í keppni um bronsverðlaunin. Þar átti hann að mæta Sangjun Lee frá Kóreu en þurfti ekki að eigast við hann þar sem sá hefur líklega meitt sig í glímunni þar á undan og mætti ekki og Sveinbjörn fékk bronsverðlaunin. Til hamingju Sveinbjörn. Hér eru úrslitin í 81 kg flokknum og öll úrslitin hér.