Haustönnin hefst 21 ágúst -Skráning hafin

Full starfsemi hefst aftur samkvæmt stundaskrá mánudaginn 21. ágúst með æfingum hjá meistaraflokki, byrjendum og framhaldi 15 ára og eldri og börnum 11-14 ára. Æfingar barna 7-10 ára hefjast svo þriðjudaginn 22. ágúst sem og Gólfglíma 15 ára og eldri og að lokum hefjast svo æfingar barna 5-6 ára laugardaginn 26. ágúst. Mánudaginn 4. sept. hefst svo nýtt námskeið (Kvennatími) sem bara eru ætlaðar konum 15 ára og eldri og verða æfingarnar í umsjá margfaldra Íslandsmeistara og reynslubolta þeirra Ástu Lovísu Arnórsdóttur og Daníelu Rut Daníelsdóttur.

Byrjendur fá frían prufutíma og er í góðu lagi að mæta í tímann með síðar íþróttabuxur og bol en Judobúninga er hægt að fá hjá JR.

Hér eru helstu upplýsingar eins og æfingatími, gjöldþjálfarar og fleira.
Frekari upplýsingar í síma 588-3200 eða senda tölvupóst á netfangið jr@judo.is

Ef ákveðið er að halda áfram að loknum prufutíma þá er gengið frá skráningu og námskeiðsgjaldi hér.

Zagreb Grand Prix 2023

Í vikunni lögðu af stað til Króatíu þeir Kjartan Hreiðarsson, Hrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og munu þeir keppa um helgina á Zagreb Grand Prix seniora sem hófst í dag og stendur til 20. ágúst. Keppendur eru 530 frá áttatíu og þremur þjóðum og á meðal þeirra eru nokkrir allrasterkustu judomenn og konur heims eins og Biloid Daria, Lukas Krpalek og Sagi Muki svo einhverjir séu nefndir. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki mætir John Waizenegger (SUI) og Hrafn sem keppir í -81 kg flokki mætir Arab Sibghatullah (IJF) Þeir keppa á morgun laugardaginn 19. ágúst og hefst keppnin kl. 7 á okkar tíma. Kjartan á glímu tvö á velli eitt og Hrafn á sjöttu glímu á velli þrjú. Karl keppir á sunnudaginn í +100 kg flokki og mætir hann Amadou Meite (FRA) og er það sextánda glíma á velli þrjú. Fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTV.

Keppni lokið á EYOF 2023

EYOF leikunum 2023 er lokið en judokeppnin hófst 23. júlí og lauk 29. júlí með blandaðri liðakeppni þar sem Tyrkir sigruðu en þeir kepptu til úrslita gegn Azerbaijan sem sigraði 2022 og Georgia varð í þriðja sæti. Þeir  Daron Hancock og Mikael Ísaksson báðir úr JR kepptu 27. júlí og drógust báðir á móti sterkum andstæðingum. Daron sem keppti í -73 kg flokki og mætti Adrian Durdevic frá BIH (Bosnia og Herzegovina). Þetta var hörkuviðureign þar sem barist var um tökin og stóð glíman í rúmar þrjár mínútur og var Adrian öllu virkari og náði Daron engum tökum og tapaði að lokum þrem shido. Mikael sem keppti í -81 kg flokki mætti Maj Kavnik frá SLO (Slóveníu). Mikael byrjaði af krafti og lenti fjótlega í gólfglímu og það leit ekki vel út fyrir hann þar á tímabili en hann bjargað sér vel með góðri vörn og dómari stoppar glímuna. Viðureignin hófst aftur og var Mikael ekki nógu vakandi og var skellt stuttu síðar á fallegu Osoto gari. Hvorki Daron né Mikael fengu uppreisnarglímur þar sem andstæðingar þeirra komust ekki nógu langt áfram í keppninni. EYOF er gríðasterkt judomót og ekki sjálfgefið að vinna viðureign á því en það vissu þeir félagar og höfðu undirbúið sig vel en það dugði ekki til að þessu sinni. Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari var með strákunum í þessari ferð. Nánari upplýsingar má finna hjá EJU hjá IJF og JudoTV.

Keppa á EYOF 2023

Í kvöld halda af stað til Slóveníu þeir Daron Hancock og Mikael Ísaksson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara og taka þar þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) sem fer fram í Maribor 23.-29. júlí næstkomandi en keppnin er fyrir evrópsk ungmenni á aldrinum 14 -18 ára. Judokeppnin fer fram dagana 25-28 júlí og keppa þeir báðir 27. júlí og hefst keppnin þá kl. 8 að morgni á okkar tíma. Daron keppir í -73 kg flokki þar sem keppendur eru 23 og á hann 12 glímu á velli 2 og Mikael keppir í -81 kg flokki þar sem keppendur eru 26 og á hann 2 glímu og einnig á velli 2. Nánari upplýsingar má finna hér hjá EJU og hér hjá IJF og fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á JudoTV.

Sumarfrí hjá JR

Á morgun hefst sumarfrí hjá JR og verða því engar skipulagðar judoæfingar fyrr en starfsemin hefst aftur 21. ágúst nema hjá æfingahópnum Gólfglíma 30+ þeir þurfa ekki á fríi að halda 🙂

Úrslit Paks Junior European Cup 2023

Helgina 8-9 júlí var Paks Junior European Cup 2023 haldið í Ungverjalandi og voru fjórir þátttakendur frá Íslandi á meðal keppenda. Það voru þeir Kjartan HreiðarssonDaron HancockMikael Ísaksson og Skarðhéðinn Hjaltason og með var Zaza Simonishvili landliðsþjálfari. Þessi European Cup mót eru gríðalega sterk og fjölmenn en í Paks voru 26 þjóðir og tæplega 400 keppendur og eru þau líkast til sterkustu mót sem haldin eru í þessum aldursflokki. Því miður komust okkar menn ekki áfram að þessu sinni en þeir fá keppnisreynslu sem nýtist þeim seinna meir. Í síðasta mánuði kepptu þeir á EC í Birmingham og tóku svo þátt í tveggja daga æfingabúðum og það gera þeir einning núna og koma svo heim á miðvikudag reynslunni ríkari eftir að hafa keppt og æft með mörgum af bestu judomönnum heims. Til þess að komast í fremstu röð og vera meðal þeirra bestu þá þarf að sækja reglulega æfingabúðir og sterk mót og taka tapi með jákvæðu hugarfari og læra af reynslunni og þá kemur að því að hlutirnir fara að snúast við og vinningar fara að hlaðast inn og sigrar á mótum ekki lengur fjarlægur draumur. Hér eru upplýsingar um mótið úrslit, video og fleira og einnig er hægt að finna allar upplýsingar um keppnina á vef IJF.

PAKS JUNIOR EUROPEAN CUP 2023

Um næstu helgi þ.e. dagana 8-9 júlí munu fjórir keppendur frá Íslandi taka þátt í Paks Junior European Cup 2023 í Ungverjalandi. Það eru þeir Kjartan Hreiðarsson og Daron Hancock sem keppa á laugardaginn í -73 kg flokki og Mikael Ísaksson í -81 kg flokki og Skarðhéðinn Hjaltason í -90 kg flokki sem keppa á sunnudaginn og með þeim í för er Zaza Simonishvili landliðsþjálfari. Keppnin hefst báða dagana kl. 7 að morgni að íslenskum tíma og verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu. Einnig er hægt að finna allar upplýsingar um keppnina, úrslit og fleira á vef IJF. Að lokinni keppni taka við tveggja daga æfingabúðir hjá strákunum.

Síðasta æfingin Lisu hjá JR í bili

Síðastliðna sex mánuði hefur Lisa Margarete Naeve frá Þýskalandi æft hjá JR en hún kom hingað til lands í janúar til að vinna og hefur síðan þá æft nánast daglega með okkur. Lisa er mjög öflug judokona en hún keppti á Reykjavik Judo Open (RIG) í janúar og vann til tvennra verðlauna en hún vann silfurverðlaun í -57 kg flokki og bronsverðlaun í opnum flokki. Það hefur verið frábært að hafa hana í klúbbnum og hún verið mikil lyftistöng og hvatning fyrir aðra iðkendur. Því miður er dvöl hennar hér á landi lokið í bili og er hún farin heim til Þýskalands en við vonumst samt til að sjá hana aftur á æfingu hjá okkur einhvern daginn eða kanski á næsta RIG. Takk fyrir heimsóknina Lisa.

Daníela kominn með 1. dan.

Daníela Rut Daníelsdóttir tók gráðuna 1. dan í dag og stóðst það með glæsibrag. Uke hjá henni var Lisa Margarete Naeve sem hefur æft í JR frá síðustu áramótum. Daníela uppfyllti skilyrði til prófs fyrir nokkrum árum síðan og átti þá að taka það þá en þurfti og hefur þurft að fresta því vegna meiðsla þar til nú.

Daníela Rut og Lisa Margarete