Brons á YAOUNDE AFRICAN OPEN 2023

Karl Stefánsson úr Judodeild Ármanns keppti í dag á YAOUNDE AFRICAN OPEN í Kamerún og gerði sér lítið fyrir nældi sér í bronsverðlaunin í +100 kg flokki. Hann mætti fyrst Biami Bend Brice Herman (CMR) sem hann sigraði örugglega og var þar með kominn í fjögurra manna úrslit. Næst mætti hann Mbagnick Ndiaye (SEN) sem hann laut í lægra haldi fyrir en Mbagnic er í 28 sæti heimslistans. Þar sem Karl tapar í fjögurra manna úrslitum keppti hann um bronsverðlaunin og mætti hann þar öðrum heimamanni Tontu Velem (CMR) sem hann sigraði og vann þar með til bronsverðlaunanna. Til hamingju Karl.

Karl verður á ferð og flugi næstu vikurnar en hann keppir aftur 26. nóv. og þá á Hong Kong Asian Open 2023 og svo aftur 3. des. á Tokyo Grand Slam 2023 en þar mun Gísli Egilson einnig keppa deginum áður í 81 kg. flokki.

Sveitakeppnin 2023

Íslandsmótið 2023 í sveitakeppni (liðakeppni) verður haldið í Laugardalshöllinni laugardaginn 18. nóvember og hefst það kl. 12:30 og mótslok áætluð um kl. 14. Keppt verður í aldursflokkunum U15 (11-14 ára), U18, U21 og senioraflokki karla. JR mun senda karlalið í U15, U18, U21 og senioraflokka en því miður náðum við ekki að manna kvennasveitir að þessu sinni. Hér má sjá úrslitin frá 2022.

Judodeild UMFG er velkomin á æfingar í JR

Bjóðum iðkendum Judodeildar UMFG hjartanlega velkomna á æfingar hjá JR án endurgjalds á þessum erfiðu tímum í Grindavík.

Æfingatafla JR

Börn 5-6 ára fædd 2017-2018 Laugardögum frá kl. 10-11
Börn 7-10 ára fædd 2013-2016 þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 17-18
Aldursflokkur 11-14 ára fædd 2012-2009 mánd. miðvikud. og föstudaga frá kl. 17-18
Aldursflokkur 15 ára og eldri alla daga vikunnar frá kl. 18-19:30
Gólfglíma 30+ þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 17-18 og laugardaga frá kl. 11-12
Kvennatími byrj/framhald 15 ára og eldri mánudaga og miðvikudaga frá 17-18

Reykjavíkurmótið 2023 – Úrslit

Reykjavíkurmeistaramótið 2023 sem var í umsjón JR var haldið föstudaginn 10. nóvember en mótið var fært fram um einn dag. Keppendur eru eingöngu frá Reykjavíkurfélögunum þremur, Judofélagi Reykjavíkur, Judodeild ÍR og Judodeild Ármanns en því miður var þátttaka annara klúbba en JR nánast engin og er það áhyggjuefni hvernig á því stendur. Keppt var í eftirfarandi fimm aldursflokkum, U15, U18, U21, senioraflokki karla og Veteransflokki karla og voru keppendur alls þrjátíu og einn. Vegna veikinda var töluvert um að keppendur afboðuðu sig sem varð til þess að aldursflokkar U13 og U15 voru sameinaðir og stúlkum og drengjum blandað saman í flokka. Einnig voru þyngdarflokkum blandað saman í eldri aldursflokkum. Viðureignirnar voru margar hverjar mjög jafnar og spennandi og enduðu alloft í gullskori. Dómarar voru þeir Arnar Jónsson (UMFG), Ármann Sveinsson (UMFG) og Björn Sigurðarson (Ármanni) og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir dómgæsluna. Hér eru úrslitin og myndir frá mótinu og videoklippa.

Helena í 7. sæti á EC Cadett í Gyor

Helena Bjarnadóttir stóð sig frábærlega í dag á European Cup í Gyor í Ungverjalandi er hún hafnaði í sjöunda sæti í -70 kg flokki stúlkna. Í fyrstu viðureign mætir hún stúlku frá Slóveníu og sigrar hana örugglega. Næst mætir hún Pólskri stúlku og er glíman nokkuð jöfn og hvorug nær að skora en Helena fær tvö refsistig fyrir að fara út fyrir keppnissvæðið og eitt fyrr sóknarleysi og tapaði þar með viðureignini þar sem hún var síst lakari aðilinn. Helena fékk uppreisnarglímu og mætti nú heimamanni og sem hún sigrar einnig örugglega á ippon á sama bragði (Ouchi gari) og gegn Slóveníu. Í fjórðu viðureign mætti hún stúlku frá Frakklandi og með sigri þar hefði hún verið kominn í baráttuna um bronsverðlaunin en sú franska var öllu sterkari og sigraði og Helena endaði því í sjöunda sæti sem var vel af sér vikið á svona sterku móti og franska stúlkan vann bronsverðlaunin og sú pólska sem Helena tapaði fyrir á refsistigum fyrr um daginn tók hitt bronsið. Til hamingju með árangurinn Helena. Hér má sjá brot úr glímunum hennar Helenu.

Helena keppir á Györ Cadet European Cup

Í gær hófst keppni á Györ Cadet European Cup 2023 í Unngverjalandi og eigum við þar einn fulltrúa en Helena Bjarnadóttir sem fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Serbíu í haust tekur þátt í mótinu og er móðir hennar Marija Dragic Skúlason henni til aðstoðar. Keppendur eru 512 frá 28 þjóðum, 349 drengir og 163 stúlkur. Helena keppir í dag og mætir hún Noeli Knafelc (SLO) í -70 kg flokki og er það tuttugustu og önnur glíma á velli 4. Dregið var í alla flokka í fyrradag og má sjá þá hér og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Evrópumeistaramótið 2023

Í gær lögðu af stað til Frakklands þeir Kjartan HreiðarssonHrafn Arnarsson og Karl Stefánsson ásamt Zaza Simonishvili landsliðsþjálfara en þeir munu taka þátt í Evrópumeistaramótinu sem hefst í dag í Montpellier og stendur yfir í þrjá daga. Evrópumeistaramótið er eitt allra sterkasta mótið sem haldið er í heiminum ár hvert því judohefðin er mikil í Evrópu og nánast hver einasti keppandi er öflugur judomaður og því fáir veikir hlekkir. Þátttakendur að þessu sinni eru frá 46 þjóðum 217 karlar og 169 konur alls 386 keppendur.

Á morgun laugardaginn 4. nóv. keppa þeir Kjartan og Hrafn en Karl keppir svo á sunnudaginn og hefst keppnin báða dagana kl. 9 á okkar tíma. Kjartan sem keppir í -73 kg flokki á aðra viðureign á velli þrjú og mætir hann Daniel Szegedi (HUN) sem situr í 72. sæti heimslistans. Hrafn keppir í -81 kg flokki situr hjá í fyrstu umferð en mætir svo annað hvort Lachlan Moorhead (GBR) sem er í 25. sæti heimslistans eða Theodoros Demourtsidus (GRE) sem er í 68. sæti heimslistans í tólftu viðureign á velli tvö sem gæti verið um kl. 9:45. Karl sem keppir í +100 kg flokki á fimmtu viðureign á velli 3. sem gæti verið um kl. 9:20 og mætir hann Balyevskyy Yevheniy (UKR) sem er í 34 . sæti heimslistans. Hér er drátturinn og fylgjast má með keppninni í beinni útsendingu á JudoTv.

Reykjavíkurmeistaramótið 2023

Reykjavíkurmeistaramótið 2023 verður í umsjón JR og haldið laugardaginn 11. nóvember. Vigtun á keppnisdegi frá kl. 11:30 til 12:00 og mótið hefst svo kl. 13:00 og mótslok áætluð um kl. 16:00. Keppt verður í öllum aldursflokkum þ.e. U13, U15, U18, U21 og karla og kvennaflokkum og lágmarksgráða er gult belti, 5. kyu . Lokaskráningardagur er mánudagurinn 6. nóv. í gegnum skráningarkerfi JSÍ. Nánari upplýsingar og tímasetning hér á síðunni að lokinni skráningu.