Í gær hélt JR í fyrsta skipti mót, kallað Sumarmót JR og er hugsað sem æfingamót fyrir yngstu aldurshópana þ.e. frá 7-11 ára, fædd 2013-2017. Keppt var með öðru sniði en venjulega, keppnistíminn styttri, keppt á tveimur völlum og einn mótsstjóri/tíma og stigavörður á hvorum velli og einn dómari en það voru þeir Jóhann Másson og Jón H. Hallsson sem sáu um mótsstjórn og Guðmundur B. Jónasson og Kjartan Hreiðarsson um dómgæslu og Daniele Kucyte og Daníel Hákonarson sáu um að börnin væru tilbúin til keppni og komin með rautt belti. Keppendur voru 30 frá tveimur klúbbum, JR og UMFS og var þeim fyrst raðað saman eftir aldri og síðan þyngd þannig að 7 og 8 ára voru saman, 9 og 10 ára og svo 11 ára og ef einhver passaði ekki inn í þyngdarflokk í sínum aldursflokki var hann færður annan aldursflokk en í svipaða þyngd. Ætlunin var að hafa þetta stutt mót, kanski í um 30 mín. og síðan sameiginlega æfingu og leiki á eftir í umþað bil 30 mín. en þar sem undirbúningur gagna að lokinni vigtun tók lengri tíma en reiknað var með fór sú áætlun úr skorðum og aðeins var tími fyrir leiki að lokinni keppni sem var reyndar bara vel tekið af börnunum. Mótið var stutt og laggott og tókst bara nokkuð vel og fengu allir þátttökuverðlaun að loknu móti og líka þeir sem voru ekki með í keppninni en ætluðu að taka þátt í æfingunni svo allir fóru glaðir heim. Mótið verður örugglega haldið aftur að ári með sama sniði en þá þarf að muna að gefa sér aðeins meiri tíma fyrir undirbúning gagna. Við viljum þakka UMFS fyrir þátttökuna en Einar Ottó þjálfari þeirra hefur verið afar duglegur að koma með sína iðkendur á mótin undanfarin ár og mikinn fjölda og er greinilegt að hann er að gera góða hluti í judo á Selfossi. Hér er stutt video klippa frá mótinu og úrslitin.