Úrslit Íslandsmeistarmóts seniora 2021

Skemmtilegu og spennandi Íslandsmeistaramóti sem haldið var í íþróttahúsinu Digranes í Kópavogi í dag lauk með því að ellefu Íslandmeistarar voru krýndir. Af þessum ellefu voru fjórir að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlaflokki en það voru þeir Daníel Árnason -60 kg, Judofélagi Reykjanesbæjar (JRB), Ingólfur Rögnvaldsson -66 kg úr JR, Zaza Simonishvili -73 kg úr JR og Matthías Stefánsson -100 kg úr ÍR. Aðrir sem urðu meistarar í dag voru Þór Davíðsson +100 kg UMFS sem vann sinn fimmta titil, Egill Blöndal -90 kg einnig frá UMFS en hann vann sinn sjötta titil og Árni Pétur Lund úr JR en hann vann sinn þyndarflokk -81 kg í annað sinn og Opna flokkinn í fyrsta skiptið eftir hörku úrslitaglímu gegn Agli Blöndal sem hafði titil að verja. Íslandsmeistari í -78 kg flokki kvenna var Hjördís Erna Ólafsdóttir úr JR og var þetta hennar sjötti titill og Ingunn Rut Sigurðardóttir úr JR vann tvöfalt þegar hún sigraði -70 kg flokkinn og einnig Opna flokkinn en það var í fyrsta skipti sem hún vann þann flokk og eru þá hennar Íslandsmeistaratitlar orðnir fimm.

Mótið gekk stórslysalaust fyrir sig, dómgæslan vel mönnuð sem og mótsstjórn og önnur störf sem fylgir svona mótahaldi. Athygli vakti að yngsti og léttasti maður mótsins Aðalsteinn Karl sem keppti í -60 kg flokki skráði sig í Opna flokkinn og stóð sig með prýði en það gerist ekki oft að keppendur úr léttasta flokki taki þátt í opnum flokki þar sem þeir geta mætt andstæðingi sem er jafnvel helmingi þyngri og því lítil von um vinning en það vantar ekki kjarkinn í Alla Kalla og á hann örugglega eftir að láta að sér kveða seinna meir. Stjórn JSÍ notaði tækifærið til að tilkynna um heiðursgráðun tveggja judomanna sem hafa stundað íþróttina í áratugi og gera enn. Þeir eru báðir meðal annars fyrrum Íslandsmeistarar en eftir að keppnisferli lauk hafa þeir komið að þjálfun og félagsstörfum. Það voru þeir Kári Jakobsson sem er einn af frumkvöðlum judoíþróttarinnar á Íslandi en hann byrjaði að æfa í kringum 1963 þá 17 ára gamall og Runólfur V. Gunnlaugsson sem hóf æfingar í kringum 1978 þá 25 ára gamall sem voru gráðaðir í 3. dan.

Hér er hægt að horfa á forkeppnina, völlur 1 og völlur 2 og úrslitaglímur á YouTube og hér eru úrslitin.

Fv. Runólfur V Gunnlaugsson, Jóhann Másson formaður JSÍ og Kári Jakobsson