Íslandsmót karla og kvenna 2022 var haldið laugardaginn 7. maí í íþróttahúsinu Digranes í Kópavogi. Keppendur voru fimmtíu og einn frá átta klúbbum. Keppt var í sex þyngdarflokkum karla og tveimur þyngdarflokkum kvenna og í opnum flokki karla og kvenna. Þetta var hörkumót og margar jafnar viðureignir sem sumar hverjar fóru í gullskor eins og t.d. opinn flokkur karla en þar áttust við þeir Zaza Simonishvili (-73kg) úr JR og Egill Blöndal (-90kg) úr UMFS. Zaza sigraði að lokum eftir rétt rúmlega sex mínútna glímu og er hann jafnframt sá léttasti frá upphafi til að vinna opna flokkinn á Íslandi. Nokkrir flokkar unnust þó nokkuð örugglega og voru fimm aðilar sem að vörðu titlana frá 2021. Þetta var góður dagur fyrir JR en JR- ingar urðu Íslandsmeistarar í fimm flokkum. Ingunn Rut Sigurðardóttir sigraði í -70 kg flokki og var það í þriðja skipti í röð sem hún vinnur þann flokk, Ingólfur Rögnvaldsson sigraði annað árið í röð í -66 kg flokki og það gerði einnig Zaza Simonishvili í -73 kg flokki og Árni Pétur Lund sigraði þriðja árið í röð í -81 kg flokki og eins og áður sagði sigraði Zaza einnig opinn flokk karla. Egill Blöndal, UMFS, sigraði í fimmta árið í röð -90 kg flokkinn, Þór Davíðsson, UMFS, sigraði -100kg flokkinn og var það í fjórða skiptið sem hann gerir það en ekki í röð því hann hefur inn á milli keppt í -90 eða +100 kg flokki og orðið meistari í þeim flokkum. Karl Stefánsson , JDÁ, sigraði +100 kg flokkinn og var þetta hans annar Íslandsmeistaratitill en hann sigraði einnig 2019. Anna Soffía Víkingsdóttir úr KA, sem keppti síðast á ÍM 2017 kom sá og sigraði og vann bæði í -78 kg flokkinn og opna flokkinn og var það jafnframt hennar nítjándi Íslandsmeistaratitill.
JSÍ streymdi frá mótinu, sjá tengla hér neðar, og hér er videoklippa frá því og hér eru úrslitin.
Íslandsmót seniora 2022 – Mat 1 Íslandsmót seniora 2022 – Mat 2
Hér neðar eru myndir af verðlaunahöfum, nokkrar myndir frá keppninni og myndir frá uppsetningu mótsins, tæknibúnaði og dýnum og frágangur að loknu móti.