Úrslit frá EO Luxembourg

Það var ekki góður dagur í dag sem þeir félagar Árni Pétur Lund og Ægir Valsson áttu á European Open í Luxembourg. Báðir töpuðu þeir því miður sinni fyrstu viðureign og voru þar með úr leik. Ægir átti fyrstu viðureign mótsins og mætti hann Leso Kvirikashvili frá Azerbaijan. Ægir er vanur því hér heima að geta tekið þau tök sem hann vill gegn mótherjum sínum og hefur oftast lítið fyrir því og hann stjórnar glímunum meira og minna jafnvel þó mótherjinn hafi náð tökum. Á móti sem European Open má ekki leyfa sér neitt kæruleysi og gegn svona sterkum andstæðingi verður hann að vera þolinmóður og halda fjarlægð þar til tækifæri gefst á því að sækja. Ægir gerði þau regin mistök að hleypa Leso alltof nálægt sér og leyfði honum nánast að taka sín bestu handtök og því fór sem fór og tapaði hann viðureigninni eftir umþað bil eina og hálfa mínútu. Ekki gekk Árna betur en hann mætti Ibrahim Keitafrá Frakklandi og tapaði viðureigninni á þremur refsistigum á rúmri mínútu. Hann virtist ekki átta sig á því fyrir hvað hann fékk fyrstu tvö refsistigin en hann hélt að dómarinnn væri að dæma á handtökin hans með hægri hendi en hann hélt fremst í ermina hjá FRA sem má gera og skildi ekkert í þessum dómum. Það var ekki fyrr en hann horfði á myndbandið af viðureign lokinni að hann áttaði sig á því fyrir hvað hann fékk þessi refsistig en það var vegna þess að hann hafði ómeðvitað tekið utan um (krumla) fingur Frakkans með vinstri hendi en það er óleyfilegt. Þriðja refsistigið fékk hann svo þegar hann fór út fyrir keppnissvæðið og þar með tapaði hann viðureigninni. Hér eru öll úrslitin.

Það er ekki hægt að kenna því um að strákarnir séu ekki í æfingu því þeir hafa sjaldan ef nokkru sinni verið í betra formi. Þessi “árangur” skrifast fyrst og fremst á keppnisreynsluleysi en þeir kepptu síðast fyrir um þremur mánuðum á Smáþjóðaleikunum og eru ekki í neinni keppnisrútínu og úr því verður að bæta ef árangur á að nást. Nú taka við hjá strákunum tveggja daga æfingabúðir í Luxembourg og verð þeir mættir á æfingu hjá JR á miðvikudaginn.