Úrslit Afmælismóts JSÍ 2021 í yngri flokkum

Afmælismót JSÍ í aldursflokkum U13, U15, U18 og U21 árs var haldið í æfingasal Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 13. febrúar. Margir keppendur okkar JR- inga voru að taka þátt í sínu fyrsta móti og stóðu þeir sig afar vel. Í hús komu þrettán gullverðlaun af nítján sem er nákvæmlega sama hlutfall og 2020 en auk þess sjö bronsverðlaun og tólf silfurverðlaun. Keppendur voru fimmtíu og tveir frá sjö klúbbum og voru KA menn á meðal þátttakenda að þessu sinni en þeir komust ekki suður í fyrra vegna veðurs. Þetta var skemmtilegt mót og fullt af flottum og spennandi viðureignum. Dómgæslan var vel mönnuð en það voru þau Björn Sigurðarson, Craig Clapcott, Daníel Ólason, Marija Skúlason og Sævar Sigursteinsson sem stóðu vaktina að þessu sinni og leystu það verkefni vel af hendi og það gerðu þeir Ari Sigfússon og Skarphéðinn Hjaltason einnig en mótsstjórn og stiga og tímagæsla var í þeirra höndum. Hér eru úrslit mótsins, nokkrar myndir frá því og verðlaunahöfum.