Samkomur voru takmarkaðar á hádegi í gær. Yfirvöld hafa vegna þessa gefið út tilmæli um íþróttastarf fullorðinna.
Hertar aðgerðir um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tóku gildi í gær, föstudaginn 31. júlí og gilda þau til 13. ágúst næstkomandi. Hertar aðgerðir miða að því að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.
Tilmæli hafa jafnframt borist frá yfirvöldum um áhrif hertra aðgerða á íþróttastarf fullorðinna (þ.e. þeirra sem eru fæddir árið 2004 og eldri).
Tilmælin í hnotskurn:
- Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
- Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
- Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.
Hertar aðgerðir sem tóku gildi í 31. júlí:
Fjöldasamkomur, þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman, eru óheimilar á gildistíma auglýsingarinnar. Reglurnar gilda jafnt um opinber rými og einkarými. Íþróttaviðburðir eru þar með taldir.
Ákvæðið um fjöldatakmörkun tekur ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
Skylt er að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi.
Ákvæði um nálægðartakmörkun (4. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
Sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi skal sótthreinsaður milli notenda.
Ítarlegri upplýsingar á www.covid.is.