GRAND SLAM HUNGARY 2020 hefst föstudaginn 23. október og stendur í þrjá daga. Þetta er fyrsta mót Alþjóða Judosambandsins (IJF) síðan í febrúar eða frá því að Coronuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina. Það eru miklar kröfur gerðar til þátttakenda hvað varðar smitvarnir og umgengni á mótsstað og hóteli. Meðal annars þurfa allir að framvísa vottorði um að hafa farið í tvær skimanair með 48 tíma millibili og hafa reynst neikvæðir og má vottorðið ekki vera eldra en fimm daga gamalt. Einnig er ekki heimilt að ferðast neitt nema á milli hótels og keppnisstaðar sem er við hlið hótelsins svo í raun eru allir þátttakendur í hálfgerðri sóttkví. Þátttakendur eru 408 allt heimsklassa keppendur sem koma frá 4 heimsálfum og 61 þjóðum, 256 karlar og 152 konur. Á meðal þátttakenda verður okkar maður Sveinbjörn Iura og mun Þormóður Árni Jónsson verða honum til aðstoðar. Sveinbjörn keppir á laugardaginn og hefst keppnin þá kl. 9 að morgni á okkar tíma. Dregið verður á fimmtudaginn en í 81 kg flokknum eru skráðir fjörtíu og níu keppendur. Dráttinn má sjá hér og keppnisröðina hér. Mótið verður í beinni útsendingu og fyrsti keppnisdagur er á föstudaginn og hefst kl. 8 að morgni á okkar tíma. Til að fylgjast með í beinni þarf að hafa (IJF account) hann er frír. Góða skemmtun.