Keppni lokið hjá Sveinbirni í Tel Aviv

Sveinbjörn Iura keppti í morgun á Tel Aviv Grand Slam og mætti hann Bretanum Stuart Mcwatt í 81 kg flokknum í annari umferð en báðir sátu hjá í fyrstu umferð. Því miður þá tapaði Sveinbjörn þeirri viðureign en Stuart var sterkari í tökunum og átti þar af leiðandi fleiri sóknir og náði að skora úr einni þeirra um miðja viðureign og hélt þeirri stöðu út glímutímann. Þeir voru þó báðir komnir með refsistig, Sveinbjörn fyrir sóknarleysi snemma í glímunni og Stuart alveg í lok glímunnar þegar hann lagðist í vörn til að halda sínu en Sveinbjörn náði þá ágætis tökum og sótti stíft en full seint. Stuart sem er í 54. sæti heimslistans mætti næst Sami Chouchi frá Belgíu sem er í 24 sæti heimslistans og vann hann en Samir þessi hafði áður slegið út núverandi heimsmeistara Saki Muki (2. sæti Wrl.) frá Ísrael svo það er nokkuð ljóst að Stuart er öflugri en búist var við og eitthvert sæti á heimslista segir ekki allt og er hann nú kominn í átta manna úrslit. Hér má sjá viðureign þeirra Sveinbjörns og Stuarts og öll úrslit mótsins.