Þá er keppni okkar manna lokið á EM í Lissabon. Árni Lund keppti í gær í -81 kg flokki og mætti þar heimsmeistaranum í flokknum Sagi Muki frá Ísrael. Árni byrjaði ágætlega en var samt kanski fullmikið að flýta sér og í annars ágætri sókn þegar hann fór í seoinaga náði Sagi mótbragði á Árna og fékk ippon fyrir kastið og Árni þar með fallinn úr keppni. Þó svo að glíman hafi verið stutt þá fer hún í reynslubankann hjá Árna sem er bara rétt að byrja að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu. Egill Blöndal keppti í dag í -90 kg flokki og mætti þar Milan Randl frá Slóvakíu. Þetta var hörkuviðureign og var Egill öllu betri og með yfirhöndina þegar glíman fór í gullskor því Milan var kominn með eitt shido. Í gullskorinu fékk Milan fljótlega annað shido og hefði tapað á því þriðja en tóks hinsvegar að skora wazaari og þar með var keppninni á EM lokið hjá Agli eins og hjá Árna daginn áður. Hér má sjá glímuna hans Árna og hér er glíman hans Egils og öll úrslitin á EM eru hér.