Keppa á EM Cadett 2024

Evrópumeistaramót Cadett 2024 (aldursflokkur 15-17 ára) hófst í dag í Sofíu í Búlgaríu og er þetta eitt sterkasta mót sem haldið er í heiminum ár hvert í þessum aldursflokki en keppendur eru alls 511, karlar 275 og konur 236. Þau sem keppa fyrir Íslands hönd eru Helena Bjarnadóttir sem keppir í -63 kg flokki og Romans Psenicnijs sem keppir í -73 kg flokki bæði úr JR og með þeim er Zaza Simonishvili landsliðsþjálfari. Einnig eru mætt til að fylgjast með mótinu foreldrar Helenu þau Bjarni og María D. Skúlason og þeir félagar Skarphéðinn Hjaltason, Aðalsteinn Björnsson og Mikael Ísaksson en þeir hafa ásamt Helenu og Romans verið við æfingar í Serbíu. Bæði Helena og Romans keppa á morgun föstudaginn 28. júní og hefst keppnin kl. 6:30 að íslenskum tíma og á Helena fyrstu viðureign á velli 1 og mætir Amelia Ptasinska (POL) og ef vel gengur þá mætir hún sterkustu stúlkunni í flokknum Sinem Oruc frá Tyrklandi sem vann þetta mót bæði 2022 og 2023 og er í fyrsta sæti heimslistans. Romans á sautjándu viðureign um kl. 7:30 á velli 2. og mætir hann Yahor Talaka (AIN). Hægt er að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu.