Íþróttamenn Reykjavíkur 2022

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) heiðraði í dag Reykvíska íþróttamenn og félög fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða. Framkvæmdastjórn ÍBR velur íþróttakarl, íþróttakonu og íþróttalið Reykjavíkur 2022 en átta konur og átta karlar auk nokkurra Reykvískra liða voru tilnefnd. Árni Pétur Lund úr JR hlotnaðist sá heiður að vera einn af þeim íþróttamönnum sem tilnefndir fyrir árið 2022 og einnig var karlalið meistaraflokks Judofélags Reykjavíkur eitt af þeim liðum sem tilnefnd voru sem íþróttalið ársins 2022.

Helsti árangur Árna á árinu er Íslandsmeistaratitill þriðja árið í röð í -81 kg flokki, silfurverðlaun á Norðurlandameistaramótinu og á Reykjavík International Games 2022 (RIG) varð Árni í þriðja sæti. Karlalið meistaraflokks Judofélags Reykjavíkur varð Íslandsmeistari í liðakeppni JSÍ 2022. Var það í tuttugusta og fyrsta skipti og jafnframt níunda árið í röð sem JR sigrar í þeirri keppni sem haldin hefur verið frá 1974.

Það voru þau Andrea Kolbeinsdóttir frjálsíþóttakona úr ÍR og Snorri Einarsson skíðagöngumaður úr Ulli sem valin voru íþróttamenn Reykjavíkur 2022 og meistaraflokkur Vals í handknattleik var valið lið ársins 2022. Judofélag Reykjavíkur óskar öllum ofangreindum til hamingju með kjörið.